Skip to Content

„Vá er ég komin hingað á stærsta íþróttasviðið?“

Sundkonan Sonja Sigurðardóttir ræðir um sundiðkuninina, andlegan undirbúning fyrir keppni og hvernig tilfinning það er að koma inn á stóran íþróttaleikvang.
16. desember 2025 by
„Vá er ég komin hingað á stærsta íþróttasviðið?“
Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

Sonja Sigurðardóttir hefur æft sund frá sjö ára aldri. Hún hefur þrisvar keppt á Ólympíumóti fatlaðra og var kjörin íþróttakona ársins af Íþróttasambandi fatlaðra árið 2024. Ágústa Arna spjallaði við Sonju þegar hún var að pakka niður keppnissundbolnum til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fór í Singapúr 21.-27. september síðastliðinn.

Sonja er 35 ára gömul og er fædd og uppalin í Reykjavík og er með taugahrörnunarsjúkdóminn CMT. Hún á einn hálfbróður og eru þau samfeðra eða eins og Sonja orðar það sjálf, þá er hún einkadóttir móður sinnar. Helstu áhugamál Sonju eru sund og að taka myndir. Árið 2019 fékk Sonja NPA samning sem hún segir að hafi auðveldað lífið mikið.  

Finnst gott að vera í vatni 
Sonja var sjö ára gömul þegar hún byrjaði að æfa sund. „Á þessum árum var sundið eina íþróttin sem hentaði mér og minni hreyfigetu. Ég gat ekki hlaupið á eftir bolta. Fannst og finnst gott að vera ofan í vatni.“ 

Vinnur í Árbæjarlaug tvisvar í viku 
Hefðbundinn dagur hjá Sonju einkennist af rútínu. „Ég vakna klukkan sjö, NPA aðstoðin mætir og þá er haldið út í daginn. Ég vinn tvisvar í viku í Árbæjarlaug fyrir hádegi eða fer í sjúkraþjálfun og svo alla seinniparta eru sundæfingar. Eftir það fer ég heim að borða og í háttinn á milli níu og tíu.“ 

Lífið dapurt án NPA aðstoðar 
Sonja segir að lífið hafi orðið léttara eftir að hún fékk NPA samning. „Mér fannst það létta svo mikið lífið bæði hjá mér og mömmu. Þá gátum við farið að plana okkar eigin daga. Mamma var búin að aðstoða mig í 29 ár, skutlast, sendast og vera á staðnum þegar ég þurfti þess. Plús að vera sjálf að vinna út í bæ.“ Þá segir Sonja að NPA skipti miklu máli þegar kemur að æfingum og keppni í sundinu. „Án NPA aðstoðar kæmist ég ekki á æfingar og hún fylgir mér á öll sundmót hér heima og erlendis. Ég þarf aðstoð allt í kringum sundið nema ég syndi sjálf,“ segir Sonja og hlær en bætir svo við: „Lífið er mjög dapurt án NPA aðstoðar.“ 

Best þegar sundlaugin er 50 metra löng 
Sterkasta grein Sonju er 50 metra baksund. Hún segir að það sé best þegar sundlaugin sem keppt er í er 50 metra löng því þá þurfi hún ekki að taka neina snúninga á meðan á sundinu stendur. „Ég keppi bæði í 25 og 50 metra laugum. Stórmótin eru oftast í 50 metra laug eins og EM, HM og Paralympics. Íslandsmeistaramótið fer fram í 25 metra laug á haustin og 50 metra laug á vorin.“ 

Nætursvefn, matur og rútína 
Að sögn Sonju fer hún á sundæfingar fimm sinnum í viku. „Ég fer tvisvar sinnum í viku í sjúkraþjálfun og ræktina og skelli mér stundum í nudd. Hvernig fer Sonja að því að undirbúa sig andlega fyrir sundmót? „Með því að fá nægan nætursvefn, 8-9 klukkustundir en svefninn hefur svo mikið að segja. Borða góðan mat og halda rútínu. Kíki stundum til sálfræðings.“ 

Rosa stór tilfinning á opnunarhátíð Ólympíumóts 
Sonja hefur þrisvar sinnum keppt á Ólympíumóti fatlaðra, í Peking 2008, Ríó 2016 og París 2024. Hvernig tilfinning er að koma á risastóran leikvang þar sem verið er að setja Ólympíumót? „Tilfinningin er rosa stór. Vá ég er komin alla leið hingað á stærsta íþróttasviðið. Líka bara sjá alla í kringum mig og sjá að það eru til ótrúlega flottir hjólastólar.“ 

Læti og stemning í úrslitum á Ólympíumóti 
Á Ólympíumótinu í París á síðasta ári synti Sonja til úrslita í 50 metra baksundi, varð í sjöunda sæti og setti Íslandsmet. Hvernig er að synda í úrslitum á Ólympíumóti? „Tilfinningin er best þegar það er keppandi frá heimalandinu þar sem mótið er haldið, þá verður allt svo skemmtilegt. Bæði lætin og stemningin,“ segir Sonja sem hefur sett stefnuna á Ólympíumótið í Los Angeles eftir þrjú ár. „En til þess þarf ég að synda hratt. Og ná tímalágmarki í mínum fötlunarflokki.“ 

Finnur ekki fyrir fordómum 
Sonja segir að árangur hennar sem íþróttakona hafi styrkt hana í að takast á við lífið og að komast yfir allar hindranir. Þá hefur hún ekki fundið fyrir fordómum vegna þess að hún er fötluð íþróttakona „Ég finn meira fyrir forvitni hjá krökkum og fullorðnum og heyri stundum athugasemdir eins og „af hverju er hún í hjólastól“  eða „getur hún farið í sund?““ 

Prófaðu sem flestar íþróttagreinar 
Þegar blaðakona tók hús á Sonju var hún við það að  leggja upp í ferðalag. „Ég er einmitt að byrja að pakka keppnissundbolnum niður í tösku því ég er á leið á heimsmeistaramótið í 50 metra laug sem verður í Singapúr 21.-27. september,“ segir Sonja. Hefur Sonja einhver skilaboð til fatlaðra barna sem eru að velta fyrir sér að byrja að stunda íþróttir? „Hreyfing er góð í hvaða íþróttaiðkun sem er. Prófaðu sem flestar íþróttagreinar og ég veit að þú finnur þína. Og trúðu á sjálfan þig,“ segir Sonja að lokum. 

Sonja stóð sig með mikilli prýði á heimsmeistaramótinu í Singapúr. Hún komst í úrslit í 50 metra baksundi í flokki S3 og varð í sjöunda sæti, varð í tíunda sæti í 50 metra skriðsundi og í 13. sæti í 100 metra skriðsundi. Til hamingju með árangurinn Sonja!