Viðbragðsáætlun vegna Covid19 fyrir NPA notendur

Viðbragðsáætlun vegna Covid19 fyrir NPA notendur

NPA miðstöðin hefur útbúið almenna viðbragðsáætlun fyrir NPA notendur til að bregðast við útbreiðslu Covid19. Áætlunin tekur mið af útgefnu efni frá sóttvarnarlækni og almannavörnum ásamt þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá sveitarfélögum. NPA miðstöðin mun uppfæra viðbragsðáætlun sína eftir því sem frekari upplýsingar berast og ástæða þykir til.

NPA miðstöðin leggur þó áfram áherslu á að sveitarfélög útfæri viðbragðsáætlun fyrir þennan viðkvæma hóp af fólki, en verulegur skortur hefur verið á leiðbeiningum og áætlanagerð af hálfu sveitarfélga fram til þessa sem hefur leitt til þess að margir upplifa mikið óöryggi á þessum tímum.

Lesa >>


NPA miðstöðin flytur!

NPA miðstöðin flytur!

NPA miðstöðin flytur í nýtt og glæsilegt húsnæði í Urðarhvarf 8 í dag, 1. apríl 2020. Af þeim orsökum getur orðið seinkun á símsvörun og tölvupóstsamskiptum út vikuna

Við biðjumst velviðringar á þeim töfum sem þetta getur valdið og vonum að þið sýnið þessu skilning. Við hlökkum til að taka á móti ykkur á nýja staðnum!

 

 
 

Lesa >>


Viðbrögð vegna Covid19 fyrir fatlað fólk með notendastýrða persónulega aðstoð

Viðbrögð vegna Covid19 fyrir fatlað fólk með notendastýrða persónulega aðstoð

Á síðustu vikum hafa sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði unnið að viðbragðsáætlunum vegna hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar, sem veldur Covid19 sjúkdómnum, hér á landi. Lýst hefur verið neyðarstigi almannavarna vegna útbreiðslu veirunnar og hafa aðgerðir undanfarinna vikna miðast að því að tryggja öryggi þeirra einstaklinga sem er í sérstökum áhættuhópi vegna veirunnar.

Einstaklingar með notendastýrða persónulega aðstoð eru margir hverjir í sérstaklega viðkvæmum hópi. Bæði eru margir þessara einstaklinga í áhættuhópi vegna fötlunar sinnar, þ.e. með undirliggjandi önundarfærasjúkdóma eða skerta lungnastarfsemi, en einnig vegna þess að þeir eru utan stofnanaþjónustu og því hafa almennar aðgerðir sveitarfélaga og viðbragðsáætlanir ekki tekið sérstaklega til NPA notenda.

Lesa >>


Fjölgum störfum með fleiri NPA samningum

Fjölgum störfum með fleiri NPA samningum

Nú þegar ljóst er að fjöldi fólks er að missa störf í samfélaginu vegna áhrifa Covid-19, leitar Alþingi leiða til að styrkja atvinnulífið. Alþingi hefur m.a. óskað eftir tillögum frá ýmsum aðilum til að nýta við það uppbyggingarstarf sem blasir við á næstu mánuðum.

Upplagt er fyrir stjórnvöld að virkja þá NPA samninga sem nú þegar hafa verið samþykktir af sveitarfélögum. Fjöldi fatlaðs fólks hefur fengið samþykki síns sveitarfélags fyrir NPA en bíður í óvissu eftir því að þjónusta sín verði virkjuð. Það eina sem vantar upp á er aukið framlag frá ríkinu. Aukið framlag ríkisins myndi jafnframt tryggja fleiri störf í samfélaginu.

Lesa >>


Upplýsingar um Covid-19

Hér koma upplýsingar sem varða NPA notendur og aðstoðarfólks þeirra svo og aðstandendur. Við munum uppfæra eftir því sem upplýsingar berast til NPA miðstöðvarinnar og birta hér.

 

SAMANTEKT VEGNA COVID-19

Uppfært 24.mars kl. 11:45

 • Gætið mjög vel að hreinlæti. Þvoið hendur vandlega og reglulega með sápu og sprittið inn á milli þegar ekki gefst kostur á handþvotti.
 • Gætið þess að snerta ekki munn, nef eða augu þar sem smit berst auðveldlega um öndunarfæri og augu.
 • Gætið þess að aðstoðarfólk þvoi á sér hendurnar vandlega. Hengið upp veggspjöld með sjónrænum leiðbeiningum um handþvott á heimilinu og brýnið fyrir aðstoðarfólki að þvo hendur sínar vel þegar það mætir á vakt, fyrir  og eftir matartíma og salernisferðir.
 • Forðist að vera úti á meðal fólk, á fjölförnum stöðum, t.d. samkomur og  samkomustaði, almenningssamgöngum og fjölfarnar verslanir. Nettó og Heimkaup bjóða upp á heimsendingu á matvælum. Forðist einnig að fara í verslanir eða apótek á háannatímum (í hádegi og seinnipart). Forðist snertifleti eftir bestu getu eða notið hlífðarbúnað, t.d. hanska.
 • Hvetjið aðstoðarfólk til þess að hlýta tilmælum Landlæknis um að forðast samkomur og fjölfarna staði. Hvetjið aðstoðarfólk til þess að tilkynna ykkur ef það finnur fyrir einkennum eða hefur verið í návígi við fólk sem er í einangrun.
 • Þau ykkar sem eruð í skilgreindum áhættuhópum skulið sérstaklega gæta þess að vera sem mest heima. Til skilgreindra áhættuhópa teljast þeir sem eru eldri borgarar (yfir 67 ára), þau sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma, hjartasjúkdóma, sykursýki, nýrnabilun og krabbamein.
 • Aðstoðarfólk sem er í sóttkví á rétt á launagreiðslum. Þið skráið vaktir á aðstoðarfólkið eins og venjulega, en auðkennið þær sérstaklega með „sóttkví“ eða sem veikindi. Mikilvægt er að láta vita að um sóttkví er að ræða svo NPA miðstöðin geti sótt viðbótarframlag vegna launakostnaðarins. Aðstoðarfólk skilar inn læknisvottorði.
 • Ef þið finnið fyrir einkennum eða verð greind með veiruna skulið þið strax hafa samband við NPA miðstöðina. Við getum ráðlagt þér hvernig þú skalt bera þig að. Einnig skaltu hringja í númerið 1700  eða í netspjalli á heilsuvera.is til að fá helstu upplýsingar um viðbrögð.
 • Hjálparsími 1717  Rauða krossins er með sálræna ráðgjöf og aðstoð fyrir þau sem finna fyrir vanlíðan og/eða kvíða vegna Covid19 og auk þess með netspjall á 1717.is

_________________________________________

 

TIL AÐSTOÐARFÓLKS NPA NOTENDA

Uppfært 24.mars kl. 12:00

Handþvottur, hreinlæti og takmörkuð umgengni við aðra mikilvæg

Á tímum COVID-19 er gríðarlega mikilvægt að aðstoðarfólk NPA notenda gæti ýtrasta hreinlætis og fylgi fyrirmælum almannavarna, t.d. um samkomubann, að takmarka umgengni við annað fólk og að halda tveggja metra fjarlægð við aðra. Stór hluti NPA notenda falla undir skilgreiningu sóttvarnarlæknis um einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19 veirunni.
 • Þvoið hendur vandlega, lágmark tuttugu sekúndur, með sápu. Þvoið t.d. hendur vel þegar mætt er á vakt, fyrir og eftir matartíma og salernisferðir.
 • Látið NPA notanda samstundis vita ef þið finnið fyrir einkennum eða hafið verið í návígi við fólk sem er í einangrun.
 • Hlýtið tilmælum Landlæknis um að forðast samkomur og fjölfarna staði. Vinsamlegasts forðist að vera úti á meðal fólks, á fjölförnum stöðum, t.d. samkomum og  samkomustöðum, almenningssamgöngum og fjölförnum verslunum. Þegar slíkt er nauðsynlegt, forðist snertifleti eftir bestu getu eða notið hlífðarbúnað, t.d. hanska.
_________________________________________

 

UPPLÝSINGAR UM COVID-19, HANDÞVOTT, SÓTTVARNIR O.FL. 

Uppfært 30.mars kl. 22.05

Leiðir til að draga úr sýkingarhættu

Á upplýsingasíðu Landspítala um COVID-19 eru komin veggspjöld með ábendingum um leiðir fyrir aldraða og og aðra viðkæma til að draga úr sýkingarhættu vegna Covid-19.

Veggspjöldin eru á íslensku og ensku, gerð á Landspítala og byggð á efni frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO. Þau eru í pdf-formi og í góðri upplausn til að prenta út. Það er einnig hægt að sækja þau sem jpg-myndir.

Á sömu upplýsingasíðu eru einnig veggspjöld á íslensku, ensku og pólsku um leiðir til að draga úr sýkingarhættu almennt.

_________________________________________
 

Uppfært 26.mars kl. 16:22

Myndband um handhreinsun

Hér má finna myndband, af heimasíðu landlæknis, um smitfleti og smitleiðir og handhreinsun.
_________________________________________
 

Uppfært 24.mars kl. 11.40

Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna/COVID-19

Hér má finna ýtarlegan "Spurningar og svör" dálk á síðu landlæknisembættisins. Hægt er að hlusta.
_________________________________________
 

Uppfært 23.mars kl. 14:16

Mikilvægi handþvottar

Hér má sjá myndband um handþvott og mikilvægi hans, í að lágmarki 20 sekúndur.
 
_________________________________________
 
Uppfært 23.mars kl. 14:15

Allar upplýsingar um Covid-19 á einum stað - www.covid.is

Hér er helsta upplýsingasíðan um kóróna-veiruna (covid-19) og allt sem gott er að hafa í huga. Einnig má setja sig í samband við heilsugæslurnar og heilsuveru.is.
Vegna álags er fólk vinsamlega beðið um að leita sér upplýsinga www.covid.is eða www.heilsugaeslan.is ef ekki er um alvarleg veikindi að ræða, áður en hringt er eða tekið upp netspjall.

_________________________________________

Uppfært 17.mars 2020 kl.13:22

Upplýsingar um Covid-19 (Kóróna-veiran) á auðlesnu máli

Landssamtökin Þroskahjálp hafa í samvinnu við landlækni og heilbrigðisráðuneytið búið til upplýsingabækling um kóróna-veiruna á auðlesnu máli.

Bæklinginn má lesa hér.

 

_________________________________________

FRÉTTIR OG TILKYNNINGAR

Uppfært 1. apríl kl. 16:05

Hvað má og hvað má ekki? Í sóttkví? Í einangrun?

Má ég fara í búð þegar ég er í sóttkví. En göngutúr ef ég er komin í einangrun?

Hér er upplýsingaspjald með skýrum myndrænum leiðbeiningum um hvað má og má ekki gera meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. T.d. fyrir þá sem:

 • Eru í sóttkví.
 • Eru í einangrun.
 • Tilheyra viðkvæmum hópi eða eru 60+ ára.
 • Eru frískir.

Mikilvægt er að allir þekki reglurnar og fylgi þeim til fækka smitum.

Spjöldin eru á íslensku og ensku. Þau eru pdf-skjöl sem henta vel til útprentunar.

_________________________________________

 

Uppfært 30.mars kl. 21:21

Hvað er sóttkví?

Hér er útskýrt á auðskildu máli hvað sótthví er, hver munurinn er á sóttkví og einangrun o.fl.
 
_________________________________________
 

Uppfært 26.mars kl. 16:58

Nokkur myndræn plaköt um handþvott og leiðir til að draga úr smithættu Covid-19

Í ljósi aðstæðna í dag getur verið skynsamlegt að hafa myndræn plaköt með leiðbeiningum uppi á vegg til að minna sig og aðstoðarfólk sitt á hvað hafa bera í huga vegna Covid-19, t.d. um mikilvægi handhreinsunar og leiðir til að fækka smitleiðum. Margt af félagsfólki NPA miðstöðvarinnar hefur nýtt sér að fá send til sín fjögur plaköt sem NPA miðstöðin lét prenta og plasta. Þau fjalla um handhreinsun (íslensku og ensku), hvernig draga skal úr sýkingahættu vegna Covid-19 og hvernig vernda skal börn gegn sýkingum. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar sem óskar eftir að fá tiltekin plaköt, hafið samband við This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
 
_________________________________________
 

Uppfært 24.mars kl. 12:23

Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa ósýktra einstaklinga í sóttkví

Alþingi samþykkti þann 20. mars síðastliðinn lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020.
Lögin taka til greiðslna
 • til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun
 • til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda
 • til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

_________________________________________

Uppfært 20.mars kl. 00:39

Takmarkað aðgengi að skrifstofu ÖBÍ

Í kjölfarið á samkomubanni yfirvalda vegna Covid-19 hefur ÖBÍ ákveðið að takmarka aðgengi að skrifstofu sinni. Símsvörun verður með óbreyttum hætti og er fólk hvatt til að hringja frekar en koma. Áfram verður hægt að bóka tíma í ráðgjöf, en þá í gegnum síma. Sími 530 6700, tölvupóstur: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

_________________________________________

Uppfært 20.mars kl. 00:33

NPA aðstoðarfólk á lista yfir starfshópa í framlínuþjónustu

NPA aðstoðarfólk er komið á lista yfir starfshópa í framlínuþjónustu sem hafa forgang um aukna skóla-og leikskólaþjónustu, frístundastarf fyrir börn í 1.og 2.bekk og dagforeldraþjónustu.

Almannavarnir hafa biðlað til stjórnenda leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og dagforeldra að taka jákvætt í það að þeir aðilar sem sinna samfélagslega mikilvægri þjónustu svo sem í heilbrigðisgeiranum og viðbragðsgeiranum fái forgang fyrir börn sín hjá dagforeldrum, í leikskólum, í 1. og 2. bekk grunnskóla og á frístundaheimilum fyrir sama aldurshóp. Foreldrar á forgangslista þurfa að sækja um forganginn á www.island.is

NPA miðstöðin hvetur NPA notendur til að upplýsa sitt aðstoðarfólk um þessi réttindi. Frekari upplýsingar um fyrirkomulag þessu tengt má finna hér.

Listi frá almannavörnum yfir þá aðila sem geta sótt um forgang má sjá hér. (NPA aðstoðarfólk er á listanum undir fyrirsögninni „Aðrar stéttir“).

NPA miðstöðin sótti á dögunum um að aðstoðarfólk NPA notenda kæmist á listann og fagnar því að erindið hafi fengið svo skjóta afgreiðslu.

_________________________________________

Uppfært 17.mars kl.13:23

Upplýsingar til verkstjórnenda vegna aðstoðarfólks og/eða notenda í sóttkví

Persónulegt aðstoðarfólk í sóttkví:

NPA miðstöðinni hefur borist fyrirspurnir frá verkstjórnendum varðandi fyrirkomulag á skráningum þess aðstoðarfólks sem er í sóttkví. NPA miðstöðin hefur ekki fengið frá sveitarfélögum né Velferðarráðuneyti hvernig veikindarétti og útgjöldum verður háttað fyrir NPA notendur vegna aðstoðarfólks sem fer í sóttkví. Við viljum beina því til félagsfólks NPA miðstöðvarinnar að halda vel utan um útgjöld og gögn sem kunna að verða vegna aðstoðarfólks í sóttkví. Ef persónuleg aðstoðarmanneskja fer í sóttkví, þá þarf verkstjórnandi og/eða aðstoðarverkstjórnandi að hafa eftirfarandi í huga:

 • Persónulegt aðstoðarfólk skili læknisvottorði til NPA-miðstöðvarinnar og þarf að koma fram á vottorðinu að um sóttkví sé að ræða.
 • Skrá sóttkví aðstoðarfólks í vinnuskýrslu sem veikindi og setja í athugasemd vinnuskýrslu að um sóttkví sé að ræða og senda tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ásamt vinnuskýrslu með þeim upplýsingum

NPA notandi í sóttkví:

Ef NPA notandi fer í sóttkví, þá fær persónulegt aðstoðarfólk enn greitt samkvæmt vaktaplani. Taka þarf fram þegar skilað er vinnuskýrslu þær vaktir sem aðstoðarfólk mætti ekki vegna notanda í sóttkví með sama hætti og vegna aðstoðarfólks í sóttkví, þ.e. í athugasemd í vinnuskýrslu og í tölvupósti til This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. þegar vinnuskýrslu er skilað. Æskilegt er að notandi útvegi einnig læknisvottorð og skili til NPA miðstöðvarinnar.

________________________________________

Uppfært 17.mars 2020 kl.13:20

Tryggingastofnun ríkisins hefur takmarkað opnunartíma sína fyrir viðskiptavini en aukið fjarþjónustu.

Hér má sjá tilkynningu Tryggingastofnunar um málið.

Lesa >>

 

Fréttasafn