Skip to Content

Hvað er NPA?

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er þjónusta sem gerir okkur, fötluðu fólki, kleift að taka stjórn á eigin lífi og aðstoð. Byggt á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf, tryggir NPA að við ráðum því hvar og hvernig við búum, og hver veitir okkur aðstoð. NPA styrkir rétt okkar til fullrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum, án óþarfa hindrana.

Við stýrum því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana. Þannig tryggir NPA okkur frelsi og sjálfstæði í daglegu lífi.

Þú stjórnar aðstoðinni 

  • Hver? Þú velur þér aðstoðarfólk sem hentar þínum lífsstíl og kröfum, setur upp auglýsingar og tekur viðtöl.
  • Hvað? Þú ákveður hvaða verkefni aðstoðarfólkið sinnir, frá daglegum athöfnum til áhugamála.
  • Hvar? Þú stýrir hvar aðstoðin er veitt, hvort sem er heima eða úti í samfélaginu.
  • Hvenær? Þú ákveður hvenær aðstoðin fer fram, t.d. hvenær þú vaknar, ferð á salerni, í vinnu eða stundar áhugamál.
  • Hvernig?  Þú stjórnar hvernig aðstoðin er framkvæmd með því að leiðbeina aðstoðarfólkinu um hvaða nálgun hentar þér best í mismunandi verkefnum.

Markmið NPA

Markmið NPA er að jafna stöðu fatlaðs fólks og ófatlaðs með því að tryggja fullt jafnræði þegar kemur að stjórn á eigin lífi. Með NPA höfum við fatlað fólk frelsi til að taka okkar eigin ákvarðanir, móta okkar lífsstíl, og nýta möguleika okkar til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi, rétt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. NPA stuðlar að því að fatlað fólk hafi sama aðgang að vinnumarkaði, námi, félagslífi og tómstundum, án aðgreiningar eða hömlunar.

Áhrif NPA á lífsgæði

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á jákvæð áhrif NPA á lífsgæði fatlaðs fólks. Þjónustan eykur ekki bara sjálfstæði heldur bætir einnig heilsu, líðan og samfélagslega þátttöku. Fólk sem nýtir sér NPA eru mun líklegra til að vera í vinnu eða námi og taka þátt í félagsstarfi og tómstundum. NPA gerir það að verkum að fatlað fólk fær frelsi til að lifa lífinu á eigin forsendum, í stað þess að vera háð hefðbundnum þjónustuúrræðum sem oft eru ósveigjanleg og heftandi. Þetta er mikilvægur liður í að auka jafnræði og valdeflingu fatlaðs fólks í samfélaginu.

Hvernig virkar NPA samningur?

Fatlað fólk semur við sveitarfélag sitt um NPA þjónustu. Samningurinn, sem er gerður á milli einstaklingsins og sveitarfélagsins, byggir á sjálfsmati einstaklingsins um hvers konar aðstoð hann þarf. Sveitarfélagið samþykkir síðan að veita fjárframlag til að mæta þessum þörfum, sem gerir einstaklingnum kleift að skipuleggja þjónustuna sjálfur.

Fjármögnun NPA skiptist í þrjá hluta:

  • 85%: Er framlag launa og launatengdra gjalda aðstoðarfólks.
  • 10%: Er framlag vegna umsýslu.
  • 5%: Er framlag vegna kostnaðar við aðstoðarfólk, t.d. vegna ferða, viðburða, veitinga, hlífðarfatnaðar og hreinlætisvara.

Hlutverk í NPA

Verkstjórnandi

Þegar þú nýtir þér NPA þjónustu ert þú í hlutverki verkstjórnanda. Það þýðir að þú hefur bæði vald og ábyrgð yfir því hvernig aðstoðin er framkvæmd, og sérð um að stjórna aðstoðarfólki þínu. Verkstjórnandinn hefur það hlutverk að ráða, þjálfa og stýra aðstoðarfólki samkvæmt eigin þörfum og óskum. Verkstjórnandinn hefur fulla stjórn á því hvenær, hvar og hvernig aðstoðin fer fram​.

Aðstoðarverkstjórnandi

Ef þú þarft stuðning við að sinna þessu hlutverki, getur þú fengið aðstoð frá aðstoðarverkstjórnanda. Aðstoðarverkstjórnandinn er ekki yfirmaður aðstoðarfólksins heldur styður þig við að halda utan um skipulagið og tryggja að aðstoðin fari fram á þínum forsendum. Þetta hlutverk er mikilvægt fyrir þá sem þurfa meiri stuðning við verkstjórnarhlutverkið, svo sem börn, unglingar eða þau sem eru með þroska- eða geðraskanir​.

Aðstoðarfólk

Aðstoðarfólkið sér um að aðstoða þig við daglegar athafnir sem þú myndir annast sjálfur ef ekki væri fyrir fötlun. Aðstoðarfólk vinnur samkvæmt leiðbeiningum frá þér og er hlutverk þeirra að aðstoða án þess að hafa áhrif á ákvarðanir þínar. Þeirra verkefni geta verið fjölbreytt, allt frá því að aðstoða við persónulega umhirðu, þrif, innkaup, eða aðstoð við vinnu og tómstundir​.

NPA miðstöðin - umsýsluaðili

NPA miðstöðin er mikilvægur samstarfsaðili fyrir þá sem nýta sér NPA þjónustuna. Hún aðstoðar okkur við að halda utan um umsýslu NPA samningsins, þar á meðal að annast bókhald, greiða laun aðstoðarfólks, og sjá um samskipti við sveitarfélög og stéttarfélög. Þetta léttir á ábyrgðinni sem fylgir því að stýra aðstoðinni, svo við getum einbeitt okkur að því að lifa sjálfstæðu lífi á okkar eigin forsendum.

Auk þess býður NPA miðstöðin upp á fjölbreytta ráðgjöf og námskeið fyrir okkur sem verkstjórnendur, svo við getum betur sinnt hlutverki okkar og fengið nauðsynlega fræðslu til að skipuleggja aðstoðina á sem bestan hátt. Miðstöðin veitir einnig aðstoð við ráðningarferli, svo sem að auglýsa eftir aðstoðarfólki og velja starfsfólk sem hentar okkar þörfum.

Ef ágreiningsmál koma upp, bæði við sveitarfélög eða aðstoðarfólk, er NPA miðstöðin til staðar með ráðgjöf og aðstoð við að finna lausnir. Þannig tryggir NPA miðstöðin að við fáum allan þann stuðning sem við þurfum til að stýra okkar eigin aðstoð á árangursríkan og sjálfstæðan hátt.