NPA borin saman við stofnanaþjónustu við fatlað fólk

NPA - notendastýrð persónuleg aðstoð

NPA eykur frelsi, losar fjötra og bætir borgaraleg réttindi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð í daglegu lífi til að njóta réttinda, sinna skyldum, öðlast ábyrgð og lifa því sjálfstæða lífi sem það vill.

Því lífi sem fólk almennt tekur sem sjálfsögðum hlut og allir Íslendingar eiga rétt á skv. Stjórnarskrá, landslögum og mannréttindasáttmálum. Hér verður eldra þjónustukerfi borið saman við NPA bæði hvað varðar skipulag þjónustunnar og kostnaðarþætti. Ekki er um tæmandi yfirlit að ræða, en leitast við að draga fram muninn á NPA og stofnanaþjónustunni.

NPA þjónusta, virkari velferð

NPA færir völd og ábyrgð til fatlaðs fólks frá stofnanaþjónustunni; valdefling. NPA styður við frelsi fólks með þörf fyrir aðstoð og eykur möguleika þess til sjálfstæðs heimilishalds, fjölskyldulífs, menntunar og atvinnu á við aðra. NPA styður við jafnrétti og jafnræði maka fatlaðra borgara.

NPA styður við réttindi barna

NPA þjónusta gerir fjölskyldum fatlaðra barna kleift að lifa sínu lífi eins og aðrar fjölskyldur með börn. Foreldrarnir geta ákveðið og stjórnað daglegu lífi sínu eins og aðrar fjölskyldur. Börnin fá fast, öruggt og viðeigandi aðstoðarfólk skv. eigin vali foreldra. NPA gerir barni með mikla þörf fyrir aðstoð í daglegu lífi mögulegt að búa heima hjá sér eins og sjálfsagt þykir um önnur börn. NPA styður einnig við réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og eru með NPA.

NPA styður við jafnrétti kvenna

74% fólks með NPA þjónustu í Noregi telur þjónustuna „afar mikilvæga“ varðandi það að vera ekki háður fjölskyldu sinni og vinum um aðstoð. Konur sérstaklega meta NPA sem „afar mikilvæga“ í enn stærra hlutfalli en karlar. (Noregur, NHF, Østlandsforskning: Selvstyrt og velstyrt? 2003).

NPA er ekki fyrst og fremst spurning um „hagkvæmni“, hvernig ódýrast er að halda fötluðu fólki á lífi líkt og á fyrri tíð hreppsómaga, átthagafjötra og vistabanda jaðarsettra hópa. Markmið með NPA er að fatlað fólk búi við sama búsetu-, atvinnu- og menntafrelsi og aðrir borgarar og frelsi til athafna og fjölskyldulífs á hverjum degi enda gilda landslög um þessa málaflokka og fleiri um alla borgara, en ekki bara ófatlaða borgara. Þetta virðist stundum gleymast.

NPA þjónusta og núverandi stofnanaþjónusta borin saman

NPA

Kostnaður og gegnsæi

Öllum kostnaði NPA notanda við NPA er ætlað að vera innifalinn í upphæð taxta NPA á hverja klukkustund, sem sveitarfélag greiðir skv. NPA samningi við borgarann, en samningurinn kveður á um úthlutaðan fjölda vinnustunda NPA aðstoðarfólks á mánuði og ákvarðar þannig mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélags. Þessi taxti er mismunandi eftir sveitarfélögum. Algengur taxti í október 2016 er 3.090 kr. og rúmlega það, t.d. hjá Reykjavíkurborg. Í NPA taxtanum er innifalinn allur launakostnaður aðstoðarfólks.

Ennfremur er innifalinn kostnaður vegna aðstoðarfólks á vinnustað, svo sem starfsmannaaðstaða og annar kostnaður við að hafa aðstoðarfólkið í vinnu, hvort sem er heima við, að heiman eða á ferð og flugi NPA notanda. Þessi kostnaður er oft bundinn í kjarasamningum og vinnuréttarlöggjöf.

Í NPA taxtanum er innifalinn allur rekstur notanda við NPA svo sem stjórnun, starfsmannahald, vinnuveitendahlutverkið, fræðsla, allt launabókhald, annað bókhald og fjárumsýsla, önnur umsýsla, skrifstofuvinna og skilagreinar til sveitarfélaga o.fl. aðila og annar nauðsynlegur og skyldubundinn rekstur í kringum NPA.

Stofnanaþjónusta

Kostnaður og gegnsæi

Þegar borgari er með NPA er sá kostnaður sem fellur niður hjá sveitarfélagi, ríki og stofnanaþjónustu mismunandi, m.a. eftir því hvaða þjónustu NPA notandi hafði áður eða átti rétt á. Helstu þjónustuþættir sem NPA kemur í staðinn fyrir eru: Heimaþjónusta, liðveisla, frekari liðveisla, heimahjúkrun og allur rekstrarkostnaður við framangreindar þjónustur hverju nafni sem nefnist. NPA getur komið í stað búsetu á sambýlum, í þjónustukjörnum, íbúðakjörnum og í öðru stofnanaumhverfi þar sem oftast er boðið upp á sólarhringsþjónustu og NPA kemur þá í stað alls kostnaðar við fasteignir og reksturs þessara þjónustuúrræða, þ.m.t. starfsmannaaðstöðu, stjórnunar- og skrifstofukostnað o.fl.
NPA

Búsetufrelsi

NPA notandi ákveður hvar hann býr rétt eins og aðrir borgarar. Í íbúð í hans eigu, leiguíbúð á almennum markaði, félagslegri leiguíbúð o.s.frv. Íbúðarhúsnæði NPA notanda er á hans ábyrgð og hann greiðir sjálfur kostnað vegna þess húsnæðis.
Stofnanaþjónusta

Búsetufrelsi

Í tilfelli búsetu á stofnunum, sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk þá eru það sveitarfélög, ríki eða félagasamtök sem byggja, eiga, viðhalda og reka þær fasteignir, bæði íbúðarhúsnæðið sjálft, starfsmannaaðstöðu o.fl. Fatlaður borgari sem býr á framangreindum stöðum greiðir húsaleigu, oftast niðurgreidda.
NPA

Ábyrgð og umsýsla

NPA notandi ber ábyrgð á öllu aðstoðarfólki sínu. Allt frá því auglýst er eftir aðstoðarfólki, öllu ráðningarferlinu, gerð starfslýsinga, vaktaplana og annast alla verkstjórn aðstoðarfólks. Aðstoðarfólkið er ekki starfsmenn sveitarfélags eða ríkis, borgar t.d. ekki í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna o.s.frv. Hjá NPA miðstöðinni fær aðstoðarfólk laun skv. sérkjarasamningi miðstöðvarinnar við Eflingu og SGS, Starfsgreinasambandið.
Stofnanaþjónusta

Ábyrgð og umsýsla

Fatlaður borgari, þjónustuþegi, hefur engin áhrif á hver það er sem ráðinn er og veitir aðstoðina og takmörkuð áhrif á það hvenær hún er veitt og við hvað. Skrifstofur og starfsmenn sveitarfélaga, ríkis og stofnana annast allt starfsmannahald, stjórnun starfsmanna og alla umsýslu tengda því. Fatlað fólk er oft þjónustustýrðir notendur í hefðbundna þjónustukerfinu.
NPA

Verkstýring

NPA notandi er verkstjóri yfir eigin aðstoðarfólki. Ákveður hvaða þarfir fyrir aðstoð skal uppfylla og hvernig aðstoðin er veitt og hvenær.
Stofnanaþjónusta

Verkstýring

Hið opinbera eða stofnanaþjónustan er verkstjóri og ákveður og úthlutar starfsmönnum, sem þjónusta fatlað fólk, verkefni við hvað þeir vinna hverju sinni, hvernig, hvenær, hvar og magn þjónustunnar (fjölda vinnustunda).
NPA

Samfélagsþátttaka

NPA notandi er miklu nær því að geta lifað í samfélaginu á sama hátt og aðrir. Fær nauðsynlega aðstoð, t.d. til að geta lifað venjulegu fjölskyldulífi, sinna börnum og daglegum þörfum sem virk þátttaka í samfélaginu krefst. Auðvitað oft þarfir utan heimilisins og hvar sem er.
Stofnanaþjónusta

Samfélagsþátttaka

Aðstoðin er oft aðeins veitt inni á heimili fatlaðs borgara. Virkni og þátttaka utan heimilis er oft mjög takmörkuð. Margir upplifa félagslega einangrun.
NPA

Persónuvernd og gæði

Reynslan hefur kennt að NPA notandi er með miklu færri starfsmenn yfir tilgreint tímabil sem aðstoða hann, en tíðkast í stofnanaþjónustunni. Er með fast tiltekið aðstoðarfólk, sem hann hefur sjálfur valið. Þetta eykur gæði þjónustunnar og hefur í för með sér aukna persónuvernd í einkalífi.
Stofnanaþjónusta

Persónuvernd og gæði

Hér á landi sýnir reynslan að mikil mannaskipti, t.d. vegna vaktaskipta og skipulags stofnanaþjónustu, leiða til þess að miklu fleiri koma að þjónustu við hvern fatlaðan borgara á tilgreindu tímabili en þegar sá hinn sami er NPA notandi.
NPA

Skipulagsfrelsi

NPA notandi ákveður sjálfur hvenær og hvernig aðstoðin er veitt.
Stofnanaþjónusta

Skipulagsfrelsi

Hið opinbera og stofnanaþjónustan ákveður í verulegum mæli hvenær og hvernig aðstoðin er veitt. (hvenær þú ferð í sturtu, borðar, ferð á fætur eða út úr húsi, leggur þig, sinnir erindum o.s.frv.)
NPA

Sveigjanleiki

Sveigjanleiki og valfrelsi. Úthlutaðan vinnustundafjölda, sem NPA notandi hefur fengið til ráðstöfunar fyrir aðstoðarfólk í vinnu, getur NPA notandi ráðstafað innan þess ramma að eigin vild. Hvar, hvenær og við hvað.
Stofnanaþjónusta

Sveigjanleiki

Ósveigjanleiki og takmarkað valfrelsi. Athafnir daglegs lífs verður að skipuleggja og samþykkja af þjónustuveitanda, hinu opinbera og stofnunum, með „góðum“ fyrirvara.
NPA

Samræmi þjónustu

Ein samræmd þjónusta, sem NPA notandi skipuleggur og ráðstafar. Hefur bein samskipti við aðstoðarfólk frá upphafi til enda. Hið opinbera og stofnanir sleppa við daglega stjórnun á daglegu lífi borgarans.
Stofnanaþjónusta

Samræmi þjónustu

Aðskilin, ósamræmd, ófullnægjandi þjónusta. Hið opinbera notar margar stofnanir, þjónustuveitendur, til að þjónusta borgarann. Skipulagið er sniðið að verksviði fagstéttanna. Meira skrifræði og meiri stjórnsýsla.

NPA og stofnanaþjónusta

Hin opinbera stjórnsýsla

Stjórnsýslulegar hindranir eru settar á fatlað fólk vegna skipulags sveitarstjórnarstigsins. Gildir það bæði um NPA notendur og þá sem nota gamla þjónustukerfið. Það er erfiðleikum bundið að flytja á milli sveitarfélaga og fá sömu þjónustu eða nýja þjónustu í sveitarfélaginu sem flutt er til. Hér er ekki verið að tala um heildarfjármagn sem rennur til þjónustunnar á landsvísu heldur sjálft stjórnskipulagið, hvernig og eftir hvaða leiðum fjármagnið kemur.

Þjónusta sveitarfélaganna er mismunandi og í of miklum mæli valkvæð af hálfu sveitarfélags hvað ýmis atriði varðar, svo sem varðandi reglur, skipulag og valkosti. Sækja þarf um þjónustu frá grunni þegar flutt er í nýtt sveitarfélag og óvíst hvaða þjónusta fæst og í hve miklum mæli. Í sumum tilvikum eru settar óyfirstíganlegar hindranir svo sem eins og að viðkomandi borgari þurfi að hafa búið í hinu nýja sveitarfélagi í tiltekinn tíma áður en hann á rétt á þjónustu. Þjónustu sem borgarinn getur ekki lifað án. Þetta fyrirkomulag setur fjötra á búsetufrelsi, menntafrelsi og atvinnufrelsi fatlaðs fólks umfram aðra borgara. Getur verið að þetta standist ekki ýmis lög og Stjórnarskrá? Þessi munur á grundvallarþjónustu við fatlað fólk eftir því hvar það býr er ekki bara í umræðunni á Íslandi heldur einnig t.d. í Noregi og Danmörku. Í jafn fámennu landi og Íslandi vekur þetta enn frekar til umhugsunar.

Hin hefðbundna þjónusta sveitarfélaga, ríkis og stofnana er hugmyndafræðilega og skipulagslega komin í öngstræti. Sú þjónusta er bæði valdsviptandi og aðgreinandi fyrir fatlað fólk. Eitt af því sem einkennir þjónustuna er að í mjög takmörkuðum mæli er gert ráð fyrir að borgarinn lifi virku lífi í samfélaginu og haldi sínum borgaralegu réttindum og skyldum. T.d. sé í námi, vinnu eða virku almennu félagslífi meðal fólks. NPA þjónustan snýr valdapýramídanum við og setur fatlaðan borgara efst. Launakostnaður vegna NPA aðstoðarfólks er ekki meiri en starfsmanna núverandi opinberra þjónustuveitenda og stofnana. Hvaða hæfileika og fagkunnáttu NPA aðstoðarfólk þarf að hafa ræðst af vilja og er ákvörðun þess borgara sem er með NPA. Það er kominn tími til að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda í samfélaginu.

Noregur

Í Noregi er þjónusta við fatlað fólk að mörgu leyti svipuð og áskoranir þær sömu og á Íslandi þó lagaumhverfið sé ólíkt, en Norðmenn hafa þó lögfest NPA þó ekki sé sú löggjöf fullnægjandi. Ennfremur er í gangi tilraunaverkefni í Noregi þar sem ríkið fjármagnar alfarið NPA og fleiri þjónustur í 18 sveitarfélögum. Þetta er m.a. tilkomið vegna óánægju með hversu mismunandi þjónusta sveitarfélaga er gagnvart fötluðu fólki. Í Noregi búa rúmlega 5 milljónir manna og sveitarfélögin þar eru 428 að tölu og fylkissveitarfélög 19. Á Íslandi búa 330 þúsund manns í rúmlega 70 sveitarfélögum og hvað varðar þjónustu við fatlað fólk skiptast þau niður á 15 þjónustusvæði þar sem aðstæður eru mjög mismunandi, m.a. þegar horft er á þéttbýli og íbúafjölda.

Hér er vísað til greinar Ann Kristin Krokan, sem leiðir pólitísk málefni hjá ULOBA, en þessi grein var birt í september 2016 á fréttavef í eigu KS, www.ks.no, sem eru vinnuveitendasamtök sveitarfélaganna í Noregi. ULOBA er stærsta samvinnufélag um NPA í eigu fatlaðs fólks í Noregi og er aðalfyrirmyndin að tilurð NPA miðstöðvarinnar. Grein Ann Kristin nefnist „Hin mikla blekking sveitarfélaganna“ og er hér í lauslegri þýðingu:

„Norska Stórþingið samþykkti samhljóða að festa réttinn til NPA í lög. Núna eru norskir þingmenn valdalausir áhorfendur að því hvernig sveitarfélögin sniðganga og setja NPA í uppnám. Rökin eru efnahagsleg; að NPA sé of kostnaðarsöm þjónusta. Þetta eru blekkingar.

Fatlað fólk í Noregi hefur átt rétt á nauðsynlegri aðstoð í tugi ára, en þjónustan hefur verið skipulögð sem heimaþjónusta, heimahjúkrun, liðveisla, skammtímavistun (hvíldarinnlögn) á stofnunum o.fl. NPA felur í sér rétt til að fá aðstoðina skipulagða á þann hátt að við, fatlað fólk, getum sjálf valið hver aðstoðar okkur, við hvað, hvenær og hvar.

Hvers vegna NPA borgar sig

  1. Starfsfólk í heimaþjónustu og heimahjúkrun notar, samkvæmt KS, vinnuveitendasamtökum sveitarfélaganna í Noregi, 40 til 50% af vinnutíma sínum í að ferðast á milli þeirra borgara sem fá þjónustuna. NPA aðstoðarfólk notar allan vinnutímann við aðstoð. Sá raunverulegi vinnutími sem notaður er við aðstoð „maður á mann“ er mikilvæg gæðaviðmiðun þegar NHO Service (fyrirtækja- og vinnuveitendasamtök í Noregi) meta félagslega þjónustu og umönnunarþjónustu í greiningum á þjónustu sveitarfélaga.
  2. NPA er ódýrari en hefðbundin þjónusta vegna þess að ekki er krafist að NPA aðstoðarfólk hafi formlega fagkunnáttu.
  3. Sveitarfélagið útvegar eða ber kostnað vegna aksturs bifreiða milli þeirra borgara sem fá heimaþjónustu og heimahjúkrun.
  4. Stofnanavistun er dýr vegna þess að hún krefst þess að fasteign sé byggð fyrir stofnunina og krefst reksturs hennar og viðhalds. Rannsókn sýnir að „hagvæmni stærðarinnar í rekstri“ stofnunarinnar er fullnýtt við 5 íbúa. NPA aðstoðarfólk vinnur á einkaheimili.
  5. Í hefðbundnu þjónustu sveitarfélags hvílir á sveitarfélaginu öll umsýsla og stjórnun vinnunnar við þjónustuna. Í NPA fyrirkomulaginu er það borgarinn er fær aðstoðina sem úfærir eða annast þennan þátt.
  6. Gert er mikið vandamál úr því þegar NPA er notað af fatlaðri manneskju á ferðalögum og mörg sveitarfélög setja hömlur hvað þetta varðar. Ein klukkustund í NPA kostar sveitarfélagið það sama óháð því hvar aðstoðin fer fram. Ef ég, sem fötluð manneskja, vel að forgangsraða og nota úthlutaða NPA tíma í ferðalag umfram annað, verð ég líklega að draga þá tíma frá þeim tímum sem notaðir eru til annarra athafna á tilteknu tímabili. Þetta hefur engar fjármálalegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið.
  7. Skýrslur í Noregi og öðrum löndum sýna að atvinnuþátttaka borgarans sem er með NPA og fjölskyldu hans eykst með NPA. (Ávinningurinn hefur verið metinn á 350.000 norskar krónur (4,9 milljónir ísl. kr.) á ári (árið 2009) á hvern borgara sem er með NPA. Econ, 2010).
  8. Aukin félagsleg þátttaka hefur í för með sér bætta heilsu og sveitarfélögin spara því „heilsukrónur“ á því að nota NPA.

Hversvegna berjast þá sveitarfélögin og KS (vinnuveitendasamtök sveitarfélaganna í Noregi) gegn NPA? Fyrst þetta snýst ekki um hagkvæmni er nærtækast að gera ráð fyrir að það sé vegna gamalla og ólýðræðislegra þarfa fyrir að halda í völd og vera við stjórnvölinn.“

Ragnar Gunnar Þórhallsson.
Höfundur greinarinnar ber einn ábyrgð á því sem þar er sett fram.

NPA miðstöðin