Þörf notandans hunsuð?
Þessa dagana stendur vinna við smíði frumvarps um innleiðingu NPA. Ekki eru allir sammála um hvað skuli standa í því frumvarpi en ýmsar hugmyndir eru komnar fram.
Ein þessara tillaga fjallar um takmörkun á kostnaði NPA samninga. Nánar tiltekið snýst tillagan um að takmarka kostnað NPA samninga við kostnað þeirrar þjónustu sem notandinn hafði áður.
Já, þú last þetta rétt! Alveg sama hversu ömurlega þjónustu þér var boðið upp á áður þá færðu ekkert meira!
Ég spyr því:
Til hvers erum við eiginlega að þessu?
Er tilgangurinn með NPA mannréttindi eða hagræðing í rekstri sveitarfélaga?
Í upphafi verkefnisins um innleiðingu NPA var lagt af stað með þær áherslur að NPA ætti að vera þjónusta sem uppfyllir raunverulegar þarfir fatlaðs fólks og í handbók velferðarráðuneytisins um NPA er að finna eftirfarandi texta:
„Mikilvægt er að árétta að hér verður hin metna þörf notandans að liggja til grundvallar, en ekki fjárhagslegt bolmagn sveitarfélagsins. Samkomulagið um vinnustundirnar verður að endurspegla að fullu matið á þörf notandans fyrir stuðning til þess að lifa sjálfstæðu lífi. Ekki er hægt að bjóða upp á skert NPA miðað við umsamdar vinnustundir.“
Nú virðist hinsvegar skert þjónusta vera orðin markmiðið eða allavega er metin þörf notandans algert aukaatriði.
Við skulum svo hafa það á kristaltæru að NPA er bara dýrara en hefðbundin þjónustuúrræði þegar þau úrræði eru af mjög skertum gæðum og/eða skertu magni. Þetta hafa nú þegar nokkur sveitafélög staðfest. Einnig snýst NPA líka um mannréttindi, eða í þessu samhengi um réttinn til að fá næga aðstoð til að geta lifað sjálfstæðu lífi.
Endilega látið í ykkur heyra hér og annarstaðar ef þið hafið einhverja skoðun á þessu!
Skrifið bréf til þingmanna, ráðherra, ráðuneyta, sveitarstjórna, sambands íslenskra sveitarfélaga eða annara sem ykkur dettur í hug. Einnig er hægt að senda verkefnastjórninni um innleiðingu NPA ábendingar á eftirfarandi slóð:
https://www.velferdarraduneyti.is/npa/abendingar/