Sem notandi NPA og formaður NPA miðstöðvarinnar er ég farinn að hafa miklar áhyggjur af gang mála um innleiðingu NPA sem raunverulegan valkost fyrir fatlað fólk á Íslandi.

Nú er ljóst að frumvarp um lögleiðingu NPA hefur ekki verið boðað á dagskrá Alþingis fyrir árslok 2014. Í lögum um málefni fatlaðs fólks (1992 nr. 59) er tekið fram að félagsmálaráðherra skuli leggja fram frumvarp fyrir lok árs 2014 þess efnis að NPA verði eitt megin þjónustuform í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi.

Faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu skal fara fram fyrir árslok 2014 en þá skal verkefninu formlega vera lokið. Enn fremur skal ráðherra eigi síðar en í árslok 2014 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og skal efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu af framkvæmd samstarfsverkefnisins.

Engar fundargerðir frá verkefnastjórn um NPA hafa verið birtar á vef Velferðarráðuneytisins í eitt og hálft ár, eða frá 19. mars 2013. Almenningur og sérstaklega notendur og tilvonandi notendur þjónustunnar hafa því ekkert í höndum um framgang mála. Þetta skapar mikla óvissu í lífi fólks sem stólar á það að geta haldið sínu lífi áfram eftir áramót ásamt þeim sem eru búnir að vera að bíða eftir að hefja sitt sjálfstæða líf.

Í marga mánuði er búið að leitast eftir því að fjármagn vegna launakostnaðar verði leiðrétt vegna hækkunar á almennum kjarasamningum fyrr á árinu. Þessi útgjaldaaukning hefur sett marga notendur í slæma stöðu sem jafnvel hefur valdið heimsóknum á sjúkrahús hjá notendum NPA.

Í fjárlögum er ekki hægt að sjá að gert sé ráð fyrir neinu fjármagni til áframhaldandi framkvæmd verkefnisins þrátt fyrir mikla þörf. Ljóst er að fjöldi fólks bíður eftir því að fá viðunandi þjónustu sem sveitarfélögunum hefur reynst ómögulegt að uppfylla nema með NPA.

NPA hefur veitt mörgu fötluðu fólki tækifæri á að taka þátt í þjóðfélaginu og njóta lífsins. Um daginn sagði til dæmis kunningi minn við mig að ég væri sem nýr maður eftir að ég fékk NPA, að ég færi út úr húsi og tæki fullan þátt í þjóðfélaginu ólíkt því sem áður var þegar ég eyddi mestum mínum tíma í það að horfa á sjónvarp eða hanga í tölvunni. Hann sagðist ekki geta ímyndað sér hvernig það færi með líf mitt ef NPA yrði tekið af mér og er ég honum því hjartanlega sammála.

Í ljósi þessarar stöðu hvet ég fólk til þess að taka þátt í baráttunni með okkur eftir öllum leiðum sem hægt er. Einnig vil ég minna ráðamenn á það að í þessu tilfelli hefur það sem þeir gera eða ekki gera bein áhrif á líf fólks.

Rúnar Björn Herrera
stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar