Ásdís Jenna

Þegar ég var yngri þá bjó ég úti í Danmörku í 10 ár með fjölskyldu minni því að faðir minn var í framhaldsnámi þar. Danir höfðu jákvætt viðhorf til fatlaðs fólks og ég fann lítið fyrir skerðingu minni. Einu sinni var ég í heimsókn á Íslandi og frænka mín fór með mig í bíó, þá var ég 7 ára. Þegar Hafdís ætlaði að kaupa miða þá horfði afgreiðslumaðurinn á mig og sagði henni að fara burtu með „þetta“. Við misstum af myndinni, því miður.

Svo fluttum við aftur heim til Íslands og ég mætti fordómum gagnvart mér, ég fann meira fyrir skerðingu minni bæði í skólanum og samfélaginu. Við móðir mín komum heim með reynslu og þekkingu á málefnum fatlaðs fólks. Mamma var frábær að leyfa mér að gera allt sem önnur börn gerðu þá. Þið verðið að vita að Ísland var hálfgerður frumskógur hvað varðar málefni fatlaðs fólks og við þurftum að berjast fyrir réttindum mínum og um leið annarra. Baráttan okkar hefur verið hörð en við unnum alla sigra! Eftir menntaskóla flutti ég aftur út til Danmerkur. Mamma mín fékk það í gegn að ég gæti fengið fjármagn fyrir NPA þar og það var yndislegur tími hjá mér. En því miður kláraðist fjármagnið svo ég þurfti að fara heim til Íslands.

Ég bjó hjá foreldrum mínum í 1 ár og flutti þá í íbúðakjarna þar sem ég þurfti að deila hjálp með 4 öðrum konum. Það var alveg glatað og undir niðri var ég ekki sátt! Svo eftir 13 ár frétti ég að það væri byrjað að veita fólki beingreiðslur og Freyja Haraldsdóttir væri komin með þær, þannig að ég hafði samband við hana. Ég bara beið eftir þessu tækifæri, því ég vildi ekki lifa í gamla kerfinu. Ég sótti um beingreiðslur og það tók mig ekki langan tíma að fá þær. Fyrir mér var þetta nýtt upphafi og ég var laus úr viðjum kerfisins. Ég þurfti að læra hvernig ég hugsaði og vera sjálfstæð. Pabbi þurfti ekki lengur að hafa áhyggjur af mér. Árið 2006 fann hann mig nær dauða en lífi, ég var ein með vinkonu minni Huldu, sem hringdi í pabba. Þá hafði ég fengið blóðtappa. Það hefði verið gott að hafa NPA.

Síðan ég fékk NPA þá hef ég giftist ég ástinni mínni, eignast elsku Adam, farið í Háskóla Reykjavíkur og bara lífað lífinu til fullnustu!

Ég neita að fara aftur í gamla fangelsið.

Fangi í eigin líkama, hún brosir til
fólks sem veit ekki betur en
hún sé greindarskert
og kemur fram við hana
samkvæmt því.
En hún brosir bara,
og veit að
einhvern tímann
nær andi hennar
fram að skína
skært eins og
sólin sem
fyrirgefur syndir
manna og
brosir bara.

Tileinkað öllu spastísku fólki sem getur ekki tjáð sig.
Ort 1997.

Ásdís Jenna.