Föst Innlit
Í þjónustu við fatlað fólk er mjög algengt að úthlutað sé svokölluðum föstum innlitum þar sem fólki er boðið að fá þjónustu á fyrirfram ákveðnum tímum. Oftast hefur einstaklingurinn lítið að segja um tímasetninguna þar sem innlitið verður að falla inn í dagskrá þjónustunnar.
Ég tel þetta fyrirkomulag vera sérstaklega skaðlegt form á þjónustu við fatlað fólk vegna þess að þetta tekur yfir líf einstaklingsins og stuðlar að félagslegri einangrun. Þunglyndi og önnur vandamál geta fylgt félagslegri einangrun. Ég tel því þetta vera ómannúðlega meðferð.
Ég tel hins vegar að þetta fyrirkomulag sé einungis notað svo mikið vegna þess að hvorki þjónustuaðilar né notendur geri sér grein fyrir hvaða áhrif þetta hefur.
Gott dæmi um áhrifin sem þetta hafði á mig á tímabili eru þau innlit sem ég fékk frá kvöld og helgarþjónustu Reykjavíkur. Mér var úthlutað tímanum 17:15 til 17:30 ef ég man rétt. Á þessu tímabili var ég oftast búinn í skólanum eða líkamsræktinni um fimmleytið og þurfti þá aðstoð við ýmislegt þegar ég kom heim. Það var ómögulegt að fá aðstoð hjá félagsþjónustunni á milli 17:00 og 19:00. Því hefði ég þurft að bíða eftir aðstoð þar til eftir 19:00 og jafnvel til 20:00 vegna þess að á búið var að úthluta hverri mínútu til annarra þjónustuþega í nágrenninu. Ég var því tilneyddur að fá aðstoð á þeim þrönga tíma sem sem mér bauðst og ef ég var ekki kominn heim á réttum tíma þá gat ég þurft að bíða mjög lengi eftir aðstoð.
En er ekki bara fínt að vera með fasta rútínu, hvernig getur það verið slæmt?
Á þessu tímabili var ég í líkamsrækt tvisvar í viku með öðrum mænusködduðum einstaklingum og eftir æfingarnar var oftast setið og spjallað yfir kaffibolla í nokkra stund. Eftir að ég fékk úthlutað aðstoð klukkan 17:15 þá þurfti ég hins vegar alltaf að flýta mér heim og missti því af mikilvægum félagsskap frá jafningjum mínum.
Það sem gerist er að þjónustan yfirtekur líf notandans án þess að eiga að gera það og jafnvel án þess að hann hugsi út í það. Ég er ekki sá eini sem þetta hefur gerst hjá. Ég hef séð þetta mjög víða, fólk yfirgefur félagsfundi og samkomur vegna þess að það vill ekki missa af föstum innlitum sem þeim hefur verið úthlutað.