Smá ismi í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks

Öll þekkjum við hugtök eins og kynþáttahatur (e. racism) og kynjamismunun/karlremba (e. sexism). Við vitum líka að þessi hugtök eru merkingabær, hafa sum ratað inn í regluverk, sefnuskrár o.fl. tengt mannréttindum, jafnrétti og virðingu fyrir margbreytileika. Við notum þessi hugtök mikið í umræðu um mismunun og eru þau okkur mikilvæg til að skilgreina og skilja þann vanda sem býr í samfélaginu og bregðast við honum með vitundarvakningu, almennri umræðu og beinum aðgerðum.

Disablismi er það að skipuleggja fund á óaðgengilegum stað.Á Íslandi er þó sjaldan fjallað um ákveðin isma sem hefur þó mikla þýðingu og merkingu í baráttu fatlaðs fólks gegn mismunun, útilokun og afskiptaleysi og fyrir frelsi, jafnrétti og valdi yfir eigin lífi. Þetta hugtak er ekki til á íslensku (hér með er hafin samkeppni á þýðingu) en á ensku er ýmist talað um ablisma eða disablisma. Rökrætt er um hvort þessi hugtök hafi sömu merkingu eða ekki (efni í annan pistil). Í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks sem er í dag finnst mér eðlilegt að vekja athygli á þessum isma og í stað þess að fara út í einhverjar fræðilegar endaleysur um hagtakið (sem mér finnast reyndar líklega óeðlilega áhugaverðar) langar mig að deila með ykkur skilgreiningu Philippa Willitts sem er fötluð blaðakona og femínsti en hún skilgreinir disablisma á mannamáli með eftirfarandi hætti:

Disablismi er að setjast í sérmerkt sæti sem ætluð eru fötluðu fólki í almenningssamgöngum ef þú ert ekki með skerðingu.

Disablismi er þegar að læknir hunsar heilsufarsvandamál þín vegna þess að þú ert með geðröskun.

Disablismi er að leggja í bílastæði sem eru ætluð fötluðu fólki þegar þú ert ekki með skerðingu (þó það sé bara í ,,eitt augnablik").

Disablismi er það að nota orð eins og þroskaheftur, geðsjúklingur, spassi, kripplingur og aumingi.

Disablismi er þegar fólk heldur að þegar bygging er gerð aðgengileg sé verið að ljókka hana eingöngu í skyni tryllts pólitísks rétttrúnaðar.

Disablismi er það að ganga út frá því að fatlað fólk sé minna virði en þú.

Disablismi er það að ráða ekki fatlaða manneskju í vinnu á grundvelli fyrirfram ákveðinna hugmynda um getu eða þarfir.

Disablismi er það að glápa á einhvern af því hann lítur öðruvísi út.

Disablismi er það að vera með getgátur um hvað einhver getur og getur ekki.

Disablismi er að segja móðgandi brandara um hóp af fólki á grundvelli þess að það er með skerðingu.

Disablismi er það að áætla að líf fatlaðs fólks hljóti að vera ömurlegt.

Disablismi er það að fá ófatlaða manneskju til að leika fatlaða manneskju í leikriti eða sjónvarpsþætti.

Disablismi getur birst í formi hatursglæpa á fötluðu fólki.

Disablismi er það þegar læknir neitar að skrifa upp á getnaðarvörn fyrir manneskju með þroskahömlun þar sem hún getur ekki viljað stunda kynlíf.

Disablismi er að viðurkenna ekki að fatlað fólk upplifir margþætta mismunun.

Disablismi er í formgerð stofnanna.

Disablismi er það að draga ályktanir.

Disablismi er það að spyrja ekki hvort þörf sé á táknmálstúlki á viðburð sem verið er að halda.

Disablismi er að veita óumbeðna hjálp í stað þess að spyrja hvað myndi hjálpa.

Disablismi er að neita að dæma karlmenn sem nauðga konum með geðraskanir og þroskahömlun á þeim grunni að þær séu ,,ótrúverðug vitni".

Disablismi er að áætla að ekki þurfi að gera ráð fyrir aðgengi af því að fatlað fólk komi hvort sem er aldrei (án þess að hugsa út í hvers vegna það er).

Disablismi er það að ganga út frá að manneskja sem þú hefur aldrei hitt (eða sem þú hefur hitt) sé ekki fötluð.

Disablismi er það að ákveða að fólk með geðklofa sé hættulegt og ofbeldisfullt.

Disablismi er það að hugsa að það sé minni harmleikur þegar fötluð manneskja styttir sér aldur en þegar ófötluð manneskja gerir það.

Disablismi er ályktanir um þýðingu hugtaksins lífsgæði.

Disablismi er á bakvið allar þessar fréttir.

Disablismi er að reka einhvern ef hann veikist eða fatlast.

Disablismi er ekki í orðabókinni.

Disablismi er þegar okkur er sagt að verið sé að refsa okkur fyrir eitthvað sem við gerðum í fyrra lífi.

Disablismi er það að hugsa að einhver sé ekki með skerðingu af því það sést ekki utan á honum.

Disablismi er að hunsa einhvern af því þú skilur hann ekki.

Disablismi er að halda að fatlað fólk ,,hafi það svo gott í dag" og sé þess vegna yfirgengilega kröfuhart og frekt þegar það vill komast inn í byggingu.


Disablismi lifir góðu lífi í formgerð og menningu á Íslandi og er dagurinn í dag kjörið tækifæri til þess að horfast í augu við hann og taka meðvitaða ákvörðun um að taka ekki þátt í að viðhalda honum.

Til hamingju með daginn!

Tekið af: http://freyjaharalds.wordpress.com/2012/12/03/sma-ismi-i-tilefni-af-althjodadegi-fatlads-folks/

NPA miðstöðin