Orð eru til alls fyrst
Margt fatlað fólk á Íslandi hefur áhuga á og vill gjarnan reyna að hafa áhrif á orðræðu samfélagsins um fatlað fólk og liður í því er að vekja samfélagið til umhugsunar um notkun þess á orðum og hugtökum í skrifum og umræðu um fatlað fólk og málefni þess.
Öðru fötluðu fólki er alveg nákvæmlega sama og veltir því sjaldan fyrir sér hvort og þá hvaða áhrif orð og notkun þeirra getur haft á sýn ófatlaðs fólks á fatlað fólk.
Orð og orðanotkun skiptir okkur öll máli. Það skiptir máli að nota „rétt“ orð, nefna hluti og fyrirbæri sínu „rétta“ nafni. Að öðrum kosti verður til misskilningur og hugsanlega gerist eitthvað allt annað en ætlast var til.
En hvað er „rétt“?
Höfundur þessa pistils hefur mikið velt fyrir sér orðræðu samfélagsins, ekki síst hvernig hún hefur þróast eftir hrun efnahagskerfisins.
Í allri þeirri orrahríð varð mjög áberandi að talað væri um að menn hefðu verið eða væru „blindir á ástandið“, „hefðu verið algjörlega blindir og heyrnarlausir“ á allar viðvaranir erlendra fjármála- og bankaspekinga og fyrirbærið „siðblinda“ var krufið og útskýrt fyrir þjóðinni. Siðblinda er alvarlegur persónuleikabrestur og það alvarlegasta við siðblint fólk er að það gerir sér sjálft ekki grein fyrir brestum sínum.
Umræðan gekk svo langt að ónefndur stjórnmálamaður varð að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum að kröfu Félags heyrnarlausra. Orð hans mátti skilja sem svo að það væri náttúrulega óðs manns æði og stórhættulegt að blint og heyrnarlaust fólk færi með æðstu völd í landinu og því hefði farið sem fór.
Orð, sérstaklega lýsingar- og nafnorð, vekja hugrenningatengsl og hafa merkingu í hugum fólks, að öðrum kosti væri tungumálið hvorki til né til nokkurns gagns.
Og hvaða hugrenningatengsl skyldu sum orð vekja í hugum fólks og hvaða merkingu skyldu þau hafa?
Höfundi finnst eins og til dæmis orðið „blindur“ veki nú orðið fremur neikvæð hugrenningatengsl eftir að farið var að nota það í ríkara mæli til að lýsa þeim sem fóru með stjórn efnahagsmála og stýrðu bönkum og fjármálastofnunum í aðdraganda hrunsins.
Það er nú orðið frekar neikvætt að vera „blindur“, slíkt fólk á að lúta forsjá annarra og vera undir eftirliti, a.m.k. á ekki, undir nokkrum kringumstæðum, að fela því sjálfu ábyrgð né forsjá.
Og hvað þá með það fólk sem býr við þær aðstæður að sjá ekkert, þ.e. geta ekki notað augun sér til gagns, er blint?
Í hvaða merkingu er það blint?
Hefur það getu eða forsendur til að takast á hendur ábyrgð eða forsjá einhvers konar?
Hvað er að vera blindur?
Samkvæmt Orðabók Háskólans merkir orðið „blindur“ það að sjá ekkert, vera sjónlaus.
En sjónlaus í hvaða merkingu?
Er það að sjá ekkert með augunum eða skortur á dómgreind og hæfni til að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna?
Orð hafa áhrif á þann sem heyrir þau og meðtekur. Orð geta vakið tilfinningar sem spanna allan tilfinningaskalann og geta, án þess að ætlunin hafi verið sú, meitt og sært þann sem við þeim tekur.
Undirrituð er nú orðið algjörlega hætt að kannast við að vera blind, samþykkir það orð ekki sem lýsandi fyrir sig.
Þess í stað kannast hún við og viðurkennir að vera sjónlaus í þeirri merkingu að augun gagnast henni afar takmarkað.
En samkvæmt orðræðunni virðist sjón ekki bundin við augun og heyrn ekki við eyrun. Blinda getur, eftir því sem skilja má, verið alvarlegt persónuleikaástand sem getur valdið alvarlegum afleiðingum, jafnvel fyrir heila þjóð þegar margir blindir koma saman og keðjuverkun óábyrgra ákvarðana fer í gang.
Mörgu fólki finnst þessi umræða óþörf og jafnvel út í hött. Margir tala um að fólk sé alltaf á flótta undan orðum í stað þess að snúa blaðinu við, vera stolt af því að vera eins og það er og nefna hlutina bara sínum „réttu“ nöfnum.
En hvað er rétt og hvað rangt?
Jú, menn hafa komið sér saman um að tala um það fólk sem sér ekkert með augunum sem blint. En hafa menn þá líka komið sér saman um að tala um fólk sem tekur rangar og skaðlegar ákvarðanir sem blint?
Það er, að mati höfundar, ekki bara rangt, það er skaðlegt!
Sumir halda því fram að vilji fólk, sem ekkert sér með augunum, ekki kannast við að vera blint, þá vilji það heldur ekki viðurkenna fötlun sína, skammist sín á einhvern hátt fyrir hana.
Því er pistlahöfundur ekki sammála. Ef fólk, sem ekkert sér með augunum, á að temja sér stolt og reisn, verður lýsingarorðið blindur að bera með sér stolt og reisn og hafa jákvæða, eða a.m.k. hlutlausa merkingu í hugum þeirra sem sjá með augunum. Og orðið „blindur“ hefur öðlast mjög neikvætt gildishlaðna merkingu hin síðari ár og er ofnotað í þeim skilningi að um sé að ræða fólk sem getur valdið skaða og er ekki hæft til þess að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á fleiri en það sjálft.
Það fólk sem getur ekki nýtt sér augun til gagns, og bara fatlað fólk yfirleitt, á hiklaust að gera þá kröfu á fólk sem tjáir sig opinberlega í rituðu eða töluðu máli, að það vandi orðræðu sína og hugsi áður en það skrifar eða talar. Pistlahöfundur hefur ekki tölu á þeim pistlum og greinum sem ritaðar hafa verið í hin ýmsu blöð og vefrit síðastliðin ár þar sem menn nota orðið „blindur“ í merkingunni ábyrgðarlaus þrjótur, en þær eru margar.
Mörg fleiri orð mætti tína til, orð sem snerta fatlað fólk og málefni þess.
Hvað með orðið „öryrki“, hvaða hugrenningatengsl skyldi það vekja núorðið?