Hver eru hlutverk þín á leiksviðum lífsins?

Þetta er spurning sem við höfum öll gott af að velta fyrir okkur annað slagið og jafnvel endurskoða leik okkar og breyta hlutverkunum ef þau fullnægja ekki þeim kröfum sem við gerum til lífsins.

Flest leikum við mörg hlutverk, kunnum margar rullur sem við notum við mismunandi aðstæður. Eitt hlutverkið hæfir stöðu okkar í fjölskyldunni, annað leikum við í vinnu eða í skólanum og kannski það þriðja í félagsstarfi.
Við vöknum að morgni, vonandi að mestu við sjálf undir sænginni, en um leið og við komum undan henni og höldum út í daginn, setjum við upp leikgrímu og förum, kannski ómeðvitað, inn í hlutverk.

En hver eru og hvernig eru þau hlutverk sem fatlað fólk leikur?

Og hvað gerist ef fatlað fólk ákveður að breyta rullunni einn daginn?

Fatlað fólk, líkt og annað fólk, á sér mörg hlutverk og bregður þeim upp á viðeigandi stöðum við viðeigandi aðstæður.

Hlutverk, hvort sem þau eiga við fatlað fólk eða ófatlað, eru fyrst og fremst sprottin af staðalmyndum fólks, staðalmyndum sem þróast hafa í rás tímans og eru í stöðugri þróun.

Sú staðalmynd samfélagsins að fatlað fólk sé fólk sem þarfnast forsjár, verndar og aðstoðar, hefur verið afar sterk meðal íslensku þjóðarinnar, sennilega frá landnámi, en sem betur fer hefur fatlað fólk, auk ófatlaðs sem gengið hefur í lið með því í baráttunni, náð ákveðnum árangri í að breyta þeirri ímynd að það sé annars flokks og höfundur trúir því vart að enn sé til fólk sem beinlínis óttast fatlað fólk líkt og á fyrri öldum þegar það var talið hættulegt, talið boða ógæfu og jafnvel talið að sjálfur djöfullinn byggi innra með því.

Enn er þó langt í land hvað baráttuna varðar, enn býr fatlað fólk á Íslandi við það viðhorf, þó það sé vonandi víkjandi, að það er talið annars flokks og barátta þess fyrir ýmsum sjálfsögðum mannréttindum stendur enn og hefur, að mati höfundar, ekki enn náð hámarki.

En aftur að hlutverkunum og vangaveltum um þau hlutverk sem fatlað fólk leikur og er ætlað að leika.
Hefbundið hlutverk fatlaðs einstaklings er oft hlutverk hins hjálparvana, hlutverk þess sem þarf að aðstoða, leiðbeina, hafa forsjá fyrir og jafnvel tala fyrir þegar verst lætur.

En hvað nú ef fatlaður einstaklingur neitar að leika hið „hefðbundna“ hlutverk á móti mótleikara sínum?
Hvað gerist ef viðbrögð og hegðun hins fatlaða er ekki samkvæmt „forskriftinni“?

Jú, þá fer öll leiksýningin úr skorðum, mótleikarinn fipast.

Hann á um þrjá kosti að velja:

1. Flýja leiksviðið og forðast jafnvel eftir það fatlað fólk sem mótleikara.

2. Minna mótleikara sinn á að hann er að fara út fyrir hlutverk sitt, skemma sýninguna. Beri það hins vegar ekki árangur og mótleikarinn lætur ekki af stjórn, getur hinn ófatlaði leikari brugðist við með því að verða reiður og sár.

3. Leika af fingrum fram og spinna leikinn, taka séns á að gera ekki „afdrifarík“ mistök.

En hvers vegna má ekki gera mistök?

Erum við ekki öll að gera mistök, stór og smá, jafnvel á hverjum degi?

Umgengnisreglur og samskipti við annað fólk er nokkuð sem við lærum smám saman, byrjum námið þegar við erum lítil börn og bætum síðan við okkur þekkingu, í þeim efnum sem öðrum, allt lífið. Þekking á þessu sviði er ekki meðfædd og ástæðulaust að hafa af því sérstakar áhyggjur þó við kunnum ekki eða höfum ekki reynslu af því að aðstoða eða umgangast fatlað fólk. Fatlaðir einstaklingar geta, þó á því séu sjálfsagt undantekningar, sjálfir leiðbeint og sagt til um hvað hentar best hverju sinni.

Og hverjir gætu svosem verið betur til þess fallnir en einmitt þeir sjálfir?

Er hægt að hafna þeirri staðhæfingu að hver og einn sé mesti sérfræðingurinn í sjálfum sér og eigin málum?
Og það er einmitt kjarni málsins! Við lærum smám saman hvað hentar þeim einstaklingum sem við umgöngumst, fötluðum sem ófötluðum. Þar með er ekki sagt að sömu viðbrögð henti þegar við hittum aðra í svipaðri stöðu því þar er á ferð önnur manneskja með aðra hæfni, aðrar venjur og aðrar langanir.

Sú tilhneiging fólks að yfirfæra reynslu sína yfir á aðrar aðstæður er góðra gjalda verð og nauðsynleg til þess að til dæmis koma í veg fyrir að menn geri sömu mistökin oftar en einu sinni, en þessi ályktunartilhneiging getur, í sumum tilfellum, valdið vandræðum og gert fólki erfitt fyrir.

Ef ein einstæð móðir verður opinberlega uppvís af svikum, þ.e. er ekki einstæð en skráir sig sem einstæða, þá fær hópurinn „einstæðar mæður“ á sig stimpil svika og óheiðarleika. Ef hommi horfir girndaraugum á karlmann í búningsklefa sundlauganna, er eins víst að hinn gagnkynhneigði dæmi alla homma sem bölvaða perra.

Sumt fólk ályktar sem svo, ef það kynnist einhverjum sem það getur sett í flokk með öðrum sem býr við sömu skerðingu og svipaðar aðstæður, að þá hljóti allir þeir sem tilheyra flokknum að haga sér eins, þurfa sömu aðstoð, búa við sömu hömlur og hafa sömu hæfni.

Oft fær undirrituð að heyra setningar eins og: „Ég þekki nú blinda konu og veit hvernig á að umgangast blinda.“ eða: „Ég þekki engan blindan og veit ekkert hvernig á að umgangast blint fólk.“

Það hefur verið afar ríkjandi tilhneiging sumra hagsmunafélaga fatlaðs fólks, og þar með meðal þeirra sjálfra, að það beri að kenna ófötluðu fólki einhverja sérstaka hegðun, einhverjar umgengnisreglur og stöðluð viðbrögð við því að hitta fatlaða einstaklinga.

Það er því ekki von til annars en ófatlað fólk álíti að ef það kann ekki viðbrögðin eða umgengnisreglurnar, þá sé það að einhverju leyti óhæft til þess að umgangast fatlað fólk og það elur af sér óöryggi og ótta.

Margt fatlað fólk sem nú á tímum telst til yngri kynslóðarinnar hefur lagt mikla áherslu á að fyrst og fremst sé litið á það sem fólk með mismunandi þarfir, drauma og reynslu í farteskinu, en ekki að það tilheyri flokkunum fatlaðir, öryrkjar, blindir, hreyfihamlaðir o.s.frv., sem allt þarf sömu forsjá, aðstoð, leiki allt sömu hlutverkin og sé yfir höfuð allt eins.

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um þá tilhneigingu samfélagsins að vilja flokka, raða í kassa og kerfi, og hafa sumir opinberir starfsmenn og sérfræðingar ýmis konar gengið af harðfylgi fram í þeim flokkunum öllum. Sjálfsagt er að hafa skipulag á hlutunum, en kerfið og flokkunin má ekki ganga svo langt að það beinlínis hamli framförum og setji fólki skorður sem, oftar en ekki, virðist ómögulegt að brjótast út úr.

Margt fatlað fólk á Íslandi býr við kerfi sem setur því svo þröngar skorður og miklar hömlur að það nær ekki að vaxa og dafna sem einstaklingar á sama hátt og ófatlað fólk.

En fyrst og fremst eru það viðhorfin, staðalmyndirnar og þau hlutverk sem staðalmyndirnar ala af sér sem hamla framförum og setja fötluðu fólki skorður.

Ef:

  • Ófatlað fólk gæti lagt flokkanirnar til hliðar og fyrst og fremst litið á fatlað fólk sem einstaklinga með mismunandi þrár, drauma og þarfir, þá væri líf margra fatlaðra einstaklinga mun betra.
  • Fatlað fólk gæti, upp til hópa, farið að líta á sig sem manneskjur með mismunandi langanir, þrár og þarfir, þá yrði eftirleikurinn auðveldari.
  • Fatlað fólk gæti hafnað hlutverkunum sem því er ætlað að leika og það er orðið þjálfað í, þá yrði sönn viðhorfsbreyting í samfélaginu.
  • Fatlað fólk myndi vakna í fyrramálið með þá staðföstu vissu í huga að það sé fyrsta flokks manneskjur sem á sama rétt til þess að njóta allra viðukenndra og sjálfsagðra mannréttinda, líkt og ófatlað fólk, þá er ekki vafi á að fljótlega yrði samfélag okkar til fyrirmyndar að því leyti að þegnar þess myndu fagna fjölbreytileikanum og líta á fatlað fólk sem manneskjur með hæfileika, getu og vilja til að hafa eitthvað um sín mál að segja.

Forsenda þess að ófatlað fólk líti á fatlaða einstaklinga sem fyrsta flokks í framtíðinni er sú að þeir fötluðu geri það sjálfir!

Gerðu þess vegna alls ekki ráð fyrir því, ef á vegi þínum verður mótleikari sem býr við fötlun eða einhvers konar skerðingu, að þú þekkir og kunnir rulluna hans frekar en annarra mótleikara. Hafðu ekki áhyggjur, hann leiðbeinir þér og þú mátt alveg gera mistök svo framarlega sem þú fylgir leiðbeiningum hans og berð virðingu fyrir þeim.

Mundu að hann, rétt eins og þú, er sérfræðingurinn í sjálfum sér og því sem honum hentar best.