Ekki fæðast strax! Í Guðanna bænum, bíddu aðeins lengur... Tilhugsunin um að þú komir inn í þennan heim núna er mér óbærileg. Þetta er heimur sem mun, bara kannski, bjóða þig velkomið. Bara ef þú verður nægilega heppilegt barn, í alla staði.

Ég hugsa til þess með hryllingi að bjóða þig velkomið í heim sem mun byrja að mæla þig út, setja þig í flokka og setja þér takmörk, strax í móðurkviði. Mér finnst óhuggulegt að hugsa til þess að ég muni kannski þurfa að berjast fyrir því að þú fáir að tilheyra samfélaginu.

Mér finnst hræðilegt að setja þig í þá stöðu að vera þátttakandi í skólastarfi sem mismunar nemendum sínum. Ég veit ekki hvernig ég á að hugga þig þegar þú uppgötvar að tilveruréttur þinn í menntakerfinu er bundinn því að þú hafir ákveðna greind, getir hoppað ákveðið hátt og getir lesið ákveðið mörg orð á mínútu.

Fólkinu í þessu samfélagi, sem þú munt fæðast inn í, finnst menntun mjög mikilvæg og því er réttur til menntunar bundinn í lög. Á undanförnum árum hefur þó komið í ljós að það menntakerfi sem við höfum hannað til þess að mennta börnin okkar hentar mörgum illa. Í ljós hefur komið að mörgum börnum líður illa í skólanum og gengur illa að fóta sig innan þessa kerfis. Sá hópur sem hefur helst verið fjallað um í þessu samhengi eru börn sem greind hafa verið með þroskahömlun.

Það að sumum fötluðum börnum líði ekki vel í skólakerfinu er mjög alvarleg staðreynd. Það er mjög alvarlegt að sum þeirra upplifi sig utanveltu og verði fyrir einelti. En það sem er alvarlegast og ástæða þess að ég vil ekki fá þig strax í heiminn, mitt ástkæra ófædda barn, er þegar fólk telur orsök vandamála innan skólakerfisins liggja í skerðingu barnanna sjálfra. Menntakerfið virðist snögglega breytast í yfirnáttúrulega veru sem ekki verður haggað og ber enga ábyrgð.

Í hinu háþróaða íslenska samfélagi byggjum við menntakerfið okkar enn upp á því að öll börn á sama aldri skulu læra sama efnið, á sama hraða, á sama stað og með sömu aðferðinni. Við metum velgengni nemenda okkar út frá fyrirfram gefnum stöðlum um hvað barn skal kunna við tiltekin aldur.

Ég get ekki hugsað mér að taka á móti þér, mitt ástkæra ófædda barn, inn í heim sem gefur þau skilaboð að ef þú passar ekki í hið hefðbundna kerfi þá ert þú vandamálið og þig skuli lagfæra eða fjarlæga úr hinu almenna samfélagi. Ég vil ekki að þú þurfir að upplifa þá meiðandi umræðu sem nú á sér stað í samfélaginu sem byggir á því að börn sem greind eru með þroskahömlun séu óhæf til þess að lifa í samfélagi við annað fólk og skulu því vera höfð sér. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt fyrir þér að sumir í samfélaginu okkar berjast fyrir aðgreinandi úrræðum og vilja viðhalda aðgreiningu innan skólakerisins. Ég er svo hrædd um að þú upplifir þig þá sem vanhæft barn og ástæðu þessa vandamáls. Ég get ekki lagt það á þig, mitt ástkæra ófædda barn.

Ég vil bjóða þig velkomið í heim sem umber þig sem manneskju óháð því hversu mörg greindarvísitölustig þú færð á prófinu fræga. Heim sem tekur þér fagnandi og skapar þér aðstæður til þess að kynnast öllu litrófi samfélagsins. Heim sem gerir ráð fyrir þér, alveg sama hvernig þú verður.