Í umræðunni um skóla án aðgreiningar og þessa mjög svo umtöluðu sérskóla er endapunkturinn yfirleitt sá sami, „þetta á að vera val,“. Sem verður að segjast heldur undarleg rök í ljósi þess að engin annar hópur barna hefur val um að fara í tiltekna sérskóla.

Ég hef haft miklar áhyggjur af þróun umræðunnar um sérskólana einfaldlega vegna þess að mér finnst hún gefa þau skilaboð til fatlaðra barna að þau séu byrði á skólakerfinu, gölluð í eðli sínu og fremur óheppilegir nemendur. Mér finnst alvarlegt að upplifa það hversu margir túlka hugtakið skóli án aðgreiningar sem eitt úrræði þar sem allir fái það sama.

Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám byggja á því að allir nemendur fái nám við sitt hæfi. Þar er ekki bara átt við að fatlaðir nemendur fái einhvers konar sérúræði heldur er alltaf gengið út frá því að hver og einn einasti nemandi hafi ólíka hæfni og forsendur til náms og þar af leiðandi fái allir nám við sitt hæfi.

Ég hef áhyggjur af því hversu eðlilegt mörgum finnst að hverfisskólar hafi heimild til þess að veita óviðunandi úrræði fyrir fatlaða nemendur. Í umræðunni undanfarnar vikur hafa komið fram mörg dæmi þess að almenni skólinn standi sig ekki vel. En mér finnst stórfurðulegt að sjá hvernig sú umræða byggir alfarið á því að almenna skólann sé ekki hægt að laga og því verði sérskólar að vera til staðar. Úrræðin í almenna skólakerfinu fyrir fatlaða nemendur eru því miður alltof oft á þá leið að nemandinn fær litla sem enga kennslu, fær ekki aðstoð fagfólks eða viðeigandi námsgögn og honum eru ekki skapaðar aðstæður til þess að mynda vináttutengsl við jafnaldra sína. Þetta verður til þess að foreldrar fatlaðra barna eru í raun þvingaðir til þess að velja sérskólann. Í þessu ljósi velti ég því fyrir mér hvort um raunverulegt val sé að ræða.

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að skoða um val hvers er að ræða. Það er að minnsta kosti ljóst að ekki er það val barnanna sjálfra og miðað við úrræðaleysi hins almenna skóla er það heldur ekki beint val foreldra. Með því að halda uppi sérskólum hljótum við því að vera að viðhalda vali stjórnvalda og skólayfirvalda. Vali um að taka ekki á móti tilteknum hópi nemenda inn í hinn almenna skóla. Mér finnst mjög alvarlegt að upplýst fólk á Íslandi finni sig knúið til þess að berjast fyrir sérskólum í stað þess að berjast fyrir því að hið almenna skólasamfélag hysji upp um sig buxurnar og taki á móti öllum nemendum með viðeigandi úrræðum eins og því ber að gera samkvæmt lögum.

Í dag hafa myndast tveir andstæðir hópar í samfélaginu, annars vegar þeir sem vilja standa vörð um sérskóla og hins vegar þeir sem ekki vilja sérskóla. Gangrýni þessara hópa er nákvæmlega sú sama, það er gagnrýni á skólakerfi nútímans. Það er því áhugavert að sjá að þessum hópum sé stillt upp andspænis hver örðum því baráttumálið er hið sama. Það sem greinir þessa hópa að er að þeir hafa gjörólíka sýn á hver lausn vandans er. Áherslur þeirra sem berjast fyrir sérskólum eru að taka börn með þroskahömlun úr umferð og litið er svo á að þau séu ekki hæf í samfélagi við ófötluð börn, en áherslur þeirra sem berjast fyrir óaðgreindu skólakerfi beinast að því að breyta aðstæðum í almennum skólum svo skólarnir séu hæfir til að taka á móti og fagna öllum börnum.

Fyrir mig sem fatlaða konu og vinkonu fólks með þroskahömlun er mjög sárt að fylgjast með stórum hópi fólks á Íslandi berjast fyrir því að sérskólar skulu vera val þegar baráttan ætti að snúast um að valið þurfi ekki að vera til staðar.