Flest ófatlað fólk á Íslandi telur það sjálfsagt að komast á salernið þegar því hentar, í sturtu á hverjum degi, ráða hvenær það fer á fætur, að sofa og hvað og hvenær það fær sér að borða. Það telur sjálfsagt að geta mætt í vinnuna eða skólann á réttum tíma, fara í bíó seint á kvöldin, ryksugað heima hjá sér, boðið gestum í mat, þvegið bílinn sinn, farið út að skemmta sér með engum fyrirvara og skroppið út í búð vandræðalaust.

Margt íslenskt fatlað fólk fer á salernið þegar það hentar öðru fólki, kemst einungis í sturtu örfá skipti í viku og fer upp í rúm fyrir allar aldir á kvöldin því vinnutími heimahjúkrunar eða vaktafyrirkomulag sambýla og þjónustukjarna gerir ekki ráð fyrir öðru. Margt fatlað fólk getur aðeins unnið á ákveðnum tímum yfir daginn, þarf að biðja foreldra sína að ganga frá eftir sig og gesti að elda matinn sinn sjálfir þegar þeim er boðið í mat. Það þarf að fara fyrr úr tímum í skólanum því ferðaþjónustubíllinn bíður einungis í örfá sekúndubrot og skreppur ekkert út í búð yfirhöfuð. Margt fatlað fólk þarf að treysta á vini og fjölskyldu við allar daglegar athafnir og lifa lífi sínu eftir hentugleika þjónustukerfis sem finnst sjálfsagt að troða því inn í kassa sína. Hvorki persónuleiki né lífsstíll þess passar inn í þessa kassa og brjóta þeir þar með viðurkennd mannréttindaákvæði um frelsi til athafna, möguleika til sjálfstæðis og þátttöku í samfélaginu.

Þann 16. júní sl. var stofnuð NPA miðstöðin sem miðar að því að aðstoða fatlað fólk við að fá samþykktar beingreiðslur til að geta haft notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og verða stjórnendur eigin aðstoðarfólks. Beingreiðslur eru greiðslur sem fara beint til fatlaðs folks frá ríki og sveitarfélagi svo að það geti valið þá þjónustu sem það vill sjálft. Miðstöðin byggir starfsemi sína á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem er mótuð af fötluðu fólki víða um heim sem svar við stöðugum mannréttindabrotum, niðurlægjandi viðhorfum og samfélagslegum hindrunum. Hugmyndafræðin felur í sér að allar manneskjur óháð, eðli og alvarleika skerðingar geta tekið eigin ákvarðanir. Einnig felur hún í sér að allar manneskjur hafi rétt til þess að hafa stjórn á eigin lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins; fjárhagslega, stjórnmálalega og menningarlega, í fjölskyldulífi, menntun, atvinnu og tómstundum í samfélagi sem gerir öllum jafn hátt undir höfði. Kjarni hugmyndafræðinnar er sá að fatlað fólk, óháð aldri og skerðingu, geti ákveðið og valið hvernig þjónustu það fær, hvar hún er veitt, hvenær, hvernig og af hverjum.

Adolf Ratzka, einn helsti frumkvöðull mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Norðurlöndunum, áréttar að „sjálfstætt líf er ekki yfirlýsing fatlaðs fólks um að það vilji gera allt sjálft, án aðstoðar frá öðrum, eða sækist eftir að lifa í einangrun. Hugmyndafræðin er krafa um val og stjórn í daglegu lífi sem er talið sjálfsagt fyrir flest ófatlað fólk. Fatlað fólk vill alast upp í eigin fjölskyldum, ganga í almennan skóla, taka sama strætóinn og fólkið í hverfinu, vinna við það sem er í takt við menntun og áhuga þess, flytja að heiman og eignast fjölskyldu.“

NPA miðstöðin var stofnuð þar sem kröfur fatlaðs fólks á Íslandi um full borgaraleg réttindi, frelsi og mannréttindi hafa orðið háværari. Það á ekki að teljast til heppni að okkar mati að fólk stjórni lífi sínu og móti sinn eigin lífsstíl né á það flokkast til forréttinda ófatlaðs fólks.

Á næstu vikum munu Íslendingar með skerðingar og aðstandendur þeirra, m.a. stjórnarmeðlimir og eigendur NPA miðstöðvarinnar, fjalla hér um baráttu sína fyrir sjálfstæðu lífi og mannréttindum.

Ef spurningar vakna hvetjum við ykkur til að senda póst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Hér fyrir neðan er hægt að skyggnast inn í líf fatlaðs fólks í Noregi sem notar persónulega aðstoð.