Árið 2007 var ég þeim forréttindum aðnjótandi að fara sem einn af fulltrúum Íslands til Lissabon í Portúgal á Evrópuþing um nám án aðgreiningar undir yfirskriftinni „Young voices.“ Þarna kom saman ungt fatlað fólk frá nær öllum Evrópulöndum og deildi reynslu sinni af skólagöngu í þeim tilgangi að leggja fram yfirlýsingu um hvernig það vildi sjá skólasamfélög bjóða alla velkomna.

Þingið stóð í tvo daga en fyrri daginn var okkur skipt upp á hópa eftir skólastigum og ræddum við í mjög skipulögðum umræðum um þær helstu hindranir sem við höfðum upplifað á skólagöngu okkar og hvaða framfarir skólakerfið í löndum okkar hefði náð. Einnig kortlögðum við kröfur okkar um réttindi, úrræði og leiðir sem við sammældumst um að væri forsenda þess að að hvert og eitt okkar, óháð skerðingu, gætum gengið menntaveginn líkt og ófatlaðir nemendur. Seinni daginn, 17. september, komum við saman í þinghúsinu í Lissabon og gerðum grein fyrir niðurstöðum okkar frammi fyrir þingmönnum, fagfólki og ýmsum sérfræðingum á sviði skólamála. Þennan dag vorum við ekki viðföng stjórnvalda og fagaðila heldur virtir og viðurkenndir sérfræðingar. Þennan dag greip engin fram í né taldi sig vita betur um eigin líf – rödd okkar átti daginn.

17. september 2007 markaði því tímamót í baráttu fatlaðs fólks fyrir jafnrétti til náms en þá var samþykkt Lissabon yfirlýsingin sem var að sjálfsögðu í fullu samræmi við viðurkenndar mannréttindayfirlýsingar Evrópu og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Yfirlýsingin er afrakstur reynslu okkar af því að ganga í skóla sem fatlaðir nemendur.

Í yfirlýsingunni er fjallað um réttindi okkar en við gerum þá kröfu að þau séu virt og að okkur sé ekki mismunað. Við gerum kröfu um að okkur sé ekki vorkennt heldur skapaðar aðstæður til að búa við sömu möguleika í lífi og starfi. Við gerum kröfu um að fá viðeigandi stuðning til þess að hafa sömu valkosti og ófatlað fólk og höfnum því að þarfir ákveðinna hópa séu hunsaðar. Við gerum kröfu um að hafa rétt á að taka eigin ákvarðanir og að á okkur sé hlustað í hvívetna.

Við deildum öll þeirri skoðun að nám án aðgreiningar væri besta leiðin þegar aðstæðurnar eru hannaðar eins og hentar okkur með aðstoð, úrræðum og kennurum sem hafa aðgang að þekkingu sem þörf er á. Við lögðum áherslu á að kennarar almennra skóla væru hvattir áfram og upplýstir svo þeir geti skilið þarfir okkar, unnið vel saman og spurt okkur sjálf þegar upp kemur óvissa. Við lýstum því yfir að það væri mikill ágóði af óaðgreindu skólastarfi fyrir alla nemendur, m.a. aukin félagsfærni, víðtækari reynsla og upplifun, öryggi til að takast á við lífið út í samfélaginu og möguleikar til að eignast fatlaða og ófatlaða vini. Við vorum sammála um að nám án aðgreiningar með einstaklingsbundinni aðstoð væri besti undirbúningurinn fyrir framhaldsnám og yki möguleika á jafnri þátttöku allra í samfélaginu.

Undanfarnar vikur hefur umræða um skóla án aðgreiningar verið á villigötum. Háværar raddir um nauðsyn sérskóla hafa ómað, ekki frá fötluðu fólki sjálfu, heldur foreldrum og fagfólki. Ég tel það skyldu mína, í ljósi þess að ég fór sem einn af fulltrúum Íslands til Lissabon árið 2007, og tók þátt í þessu magnaða málþingi, að halda rödd fatlaðs fólks í Evrópu á lofti. Ekki var um að ræða þröngan hóp fólks heldur fólk með hreyfihömlun, þroskahömlun, sjón- og heyrnaskerðingu og geðraskanir frá 29 Evrópulöndum. Það er okkar sameiginlega sannfæring að það eru réttindi okkar að lifa í samfélagi með öllu fólki við nákvæmlega sömu möguleika og ófatlað fólk. Lykilþáttur í að ná þeim árangri er að fatlaðir nemendur gangi menntaveginn með ófötluðum jafnöldrum sínum og lifi þannig við sömu möguleika, sömu fyrirmyndir og sameiginlega framtíðarsýn. Sérúrræði eru ekki lausn við þeim vanda sem íslenskt skólakerfi stendur frammi fyrir né erum við, fötluð börn, unglingar og fullorðið fólk, vandamálið sjálft. Vandinn liggur í að sumum okkar er hafnað í almennum skólum og vísað í burtu sökum þekkingar- og úrræðaleysis og ærumeiðandi viðhorfa sem gera ráð fyrir að fatlað fólk sé ófært um að læra og taka þátt í samfélaginu. Slíkt kallast mismunun og mannréttindabrot.

Í troðfullum þingsal í Lissabon þann 17. september 2007 stóð hver fatlaði nemandinn upp á fætur öðrum og gerði kröfu um jafnrétti, lýðræði og frelsi í skólakerfinu. Skilaboð okkar voru tekin saman á eftirfarandi hátt; Við erum fólkið sem á að byggja okkar eigin framtíð. Við þurfum að fjarlægja hindranir innra með okkur sjálfum og innra með ófötluðu fólki. Við þurfum að vaxa umfram þá staðreynd að við séum með skerðingu því þannig mun heimurinn viðurkenna tilvist okkar á betri hátt.

Þessa Lissabon yfirlýsingu fengu íslensk stjórnvöld í hendurnar árið 2007. Þessari yfirlýsingu ber þeim að vinna samkvæmt. Þessi yfirlýsing er rödd fatlaðs fólks – rödd bestu sérfræðinga sem hægt er að hugsa sér er kemur að stöðu fatlaðra nemenda. Líkt á þessum merka degi fyrir rúmum þremur árum síðan geri ég þá kröfu að þessari rödd sé fagnað og að hún sé virt.