„Við þekkjum öll til Freyju [...] mér þykir stórundarlegt að hún af öllu fólki vilji meina að hægt sé að setja alla undir sama hatt og að það sama henti öllum. Í raun lítur það út fyrir mér eins og henni þyki orðið ''fötlun'' eða ''sérþarfir'' vera eitthvert skammaryrði eða lítillækkun.“

Þessa tilvitnun má finna í umræðu liðinna vikna þar sem foreldrar barna með þroskahömlun hafa tekið sig saman um að berjast fyrir því að börn þeirra hafi rétt á að ganga í sérskóla. Greinar hafa verið skrifaðar, sjónvarpsviðtöl birt og facebook síða hefur farið í loftið þar sem foreldrar deila þeirri sýn að það sé mikilvægt að börn með þroskahömlun hafi val um að ganga í sérskóla. Þau eigi mörg hver svo erfitt með að læra, skilja kennara sína í almennum skólum, eignast vini og vera hluti af heild. Einnig hefur komið fram að lýðræðislegur skóli sem tekur mið af marbreytilegum þörfum nemenda sé einungis draumsýn og útópía.

Ég skrifaði pistil þann 23. mars sl. undir yfirskriftinni Dagurinn sem enginn greip fram í... þar sem ég deildi reynslu minni af því að hafa setið á málþingi í Lissabon 2007 ásamt fötluðu fólki frá 29 Evrópulöndum þar sem við ræddum um og lögðum fram yfirlýsingu um að við vildum að skólinn væri án aðgreiningar og að lausn vanda okkar í skólakerfinu væri ekki falin í að skikka okkur afsíðis, í annan skóla. Í kjölfarið af þessum pistli hafa farið af stað umræður sem þó hafa ekki falist í málefnalegum röksemdarfærslum fyrir því að sérskólar séu nauðsynlegir heldur einhvers konar persónuleika- og gildismatsgreiningu á mér og öðrum sem hafa lagt áherslu á mikilvægi skóla án aðgreiningar.

Það lítur út fyrir að þar sem ég hafi þá sannfæringu að skólasamfélaginu beri að taka á móti öllum börnum og veita þeim þroskavænleg námsskilyrði sé ég að lýsa því yfir að hægt sé að setja öll börn undir sama hatt. Það er kaldhæðnislegt því hugmyndafræði um óaðgreint skólastarf felst einmitt í að starfsfólk skóla skapi aðstæður og veiti stuðning sem skapi öllum nemendum, alveg sama hvernig þeir eru, tækifæri til að mennta sig, þroskast sem manneskjur og líða vel. Hugmyndafræðin byggir á mannréttindum sem banna mismunun og útilokun og tryggja sameiginlegan rétt allra til að lifa í samfélaginu við lífsgæði, frelsi, lýðræði og jafna þátttöku. Einnig kemur það fram að mér hljóti að finnast orðið fötlun eða sérþarfir lítillækkandi. Það er mér algjörlega óskiljanlegt í ljósi þess að ég hef haft það að starfi mínu síðustu sex árin að berjast fyrir mannréttindum fatlaðs fólks á Íslandi og ögra þeim staðalímyndun sem fela í sér að fatlað fólk sé annars flokks, aumkunarvert og óheppið, m.a. með fyrirlestrunum Það eru forréttindi að lifa með fötlun og bókinni Postulín sem ég skrifaði ásamt Ölmu Guðmundsdóttur.

Við sem höfum haldið á lofti þeirri mannréttindanálgun að skólinn skuli vera fyrir alla erum talin hafa beitt okkur „af miklu offorsi gegn sérskólum“ og það sé eins og við séum haldin einhvers konar þráhyggju eða séum í „krossferð vegna málstaðar“ sem við þekkjum ekki af eigin raun. Við erum einnig talin setja lífshamingju barna neðar pólitískum rétttrúnaði og vilja að þeim sé beitt í „pólitískum tilgangi.“ Það að skrifa einn pistil á Pressuna um sameiginlega niðurstöðu yfir hundrað fatlaðra einstaklinga (m.a. með þroskahömlun) um sýn á skólastarf er nú ekki sérlega offorslegt að mínu mati. Það að greinin hafi verið „gegn sérskólum“ er rangt vegna þess að ég er ekki með eða á móti ákveðnum skólabyggingum heldur hef ég þau gildi að börn með þroskahömlun skulu ekki vera útilokuð og að þau hafi nákvæmlega sama rétt til þeirrar mannlegu reisnar sem felst í að vera viðurkenndir þjóðfélagsþegnar í okkar samfélagi.

Þessi gildi eru hvorki tilkomin vegna þráhyggju né krossferðar því þau eru viðurkennd í lögum, reglugerðum og sáttmálum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja. Þessi gildi eru mér mikilvæg vegna þess að ég þekki einmitt af eigin raun að vera útilokuð, mismunað og dæmd sem annars flokks. Sem barn var ég talin of brothætt, hreyfihömluð, gölluð og ómöguleg til að ganga í almennan skóla og átti að fara í sérskóla. Þá þótti það eðlilegt en í dag þykir það fjarstæðukennt. Ég hafna því þess vegna að ég hafi ekki atkvæðisrétt í þessari umræðu á þeim forsendum að ég viti ekkert um hvað ég er að tala.

Það að ég berjist gegn því að mannréttindabrot sé framin og mælist til þess af mikilli sannfæringu að öll börn verði velkomin í almenna skóla hefur ekkert að gera með pólitískan rétttrúnað. Það er í raun heldur ekki skoðun því mér finnst ekki hægt að vera með eða á móti mannréttindum. Alveg eins og mér finnst það ekki eigi að vera val stjórnvalda að brjóta mannréttinda ákveðinna barna vegna eigin vanhæfni til að setja hugmyndafræðilega stefnu á svo ótryggan grunn að hún birtist sjaldan í verki. Það á ekki að hafa neitt að gera með pólitík þó það geri það auðvitað í því vanþróaða stjórnkerfi sem við virðumst búa við.

Það er ekki pólitískt mál fyrir mér að öll börn og unglingar séu jafn mikilvæg, að menntun kennara þurfi að breytast svo að þeir verði hæfari til að veita öllum nemendum menntun við sitt hæfi, að allir nemendur fái þá aðstoð sem þeir þurfa, að börn hafi frelsi til að nota ólíkar leiðir til að læra og að skólar verði að bregðast við þeirri staðreynd að mörgum nemendum sé strítt og líði illa í skólanum. Það er heldur ekki pólitískt mál að stjórnvöld eigi að hisja upp um sig buxurnar og stöðvi niðurskurð í því sem þau telja einn af helstu hornsteinum hvers samfélags; menntun.

Mér þykir það leitt að sumum finnist menntun vera pólitískt mál. Mér þykir það einnig leitt að sumum finnist greindarvísitala geta gildisfellt mannréttindi. Mér þykir það enn verra að stór hópur á Íslandi sé tilbúin að berjast gegn fötluðu fólki sjálfu (með og án þroskahömlun) sem hefur gefið mjög skýr skilaboð um þá kröfu að njóta jafnréttis til náms. Það er sorglegt að slík krafa sé skilgreind sem geðröskun og öfgar. Því slík krafa er ekki útópía eða draumsýn, einfaldlega raunveruleiki sem má finna í sumum íslenskum skólum og skólum annarra landa. Það þótti einu sinni útópía að konur menntuðu sig, hreyfihömluð börn færu í almennan skóla og svört börn gengju í skóla með hvítum börnum. Það er liðin tíð. Ég vona að sú tíð líði sem allra fyrst að börn með greindarvísitölu undir „normalkúrfu“ þurfi að ganga í sérstaka skóla því miðað við baráttu fólks með þroskahömlun hér á landi og erlendis er það markmiðið.