Þann 12. júní birtist frétt á Pressunni undir yfirskriftinni: Ný tækni greinir Downsheilkenni í fóstrum á níundu viku: Siðfræðingar deila um ágæti tækninnar. Fréttin fjallar um að sérstakar blóðprufur verði aðgengilegar í haust á Íslandi fyrir foreldra sem vilja kanna hvort barn sé með Downs heilkenni. Í fréttinni segir „Helsti kostur nýju aðferðarinnar er sá að með henni verður hægt að greina heilkennið mun fyrr heldur en með eldri aðferðum. Hægt verður að greina heilkennið allt að níu vikum eftir getnað en hingað til hafa fjórir mánuðir venjulega liðið þar til hægt er að greina erfðagallann." Kom fram hvað þetta væri frábært því þá hefðu foreldrar meiri tíma til ákveða hvort þeir ættu að eyða fóstrinu eða ekki.

Ég velti fyrir mér hvað fólk myndi segja ef ég ætti von á barni og færi fram á að vita hvort það yrði ljóshært, dökkhært eða rauðhært – rauðhærðu barni yrði örugglega svo mikið strítt og ljóshært barn þyrfti örugglega að sitja undir ljóskubröndurum endalaust. Ég myndi því eyða fóstrinu nema að það væri dökkhært.

Ég velti fyrir mér hvað fólk myndi segja ef ég kæmi með þá yfirlýsingu að það skipti ekki máli hvort barnið mitt yrði hávaxið eða lágvaxið, svo lengi sem það fæddist strákur því honum myndi örugglega ganga betur á framabrautinni og eiga meiri möguleika á að verða ríkur. Ég myndi eyða fóstrinu ef það væri kvenkyns því þá myndi barnið alast upp í mikilli hættu á að vera fast í barnauppeldi og bakvið eldavélina.

Ég velti fyrir mér hvað fólk myndi segja ef ég færi í sérstaka legvatnsástungu til þess að kanna hversu miklar líkur væru á að barnið væri samkynhneigt, því ég myndi ekki vilja taka sénsinn á að eignast barn með fæðingargallann kynvillu.

Ég velti fyrir mér hvað fólk myndi segja ef ég gerði kröfu um að alþjóðasamfélagið legði mikla fjármuni í rannsóknir til þess að ég gæti fundið það út á fyrstu tíu vikum meðgöngunnar hvort barnið mitt væri gott í stærðfræði - ef ekki teldi ég líf þess ekki þess virði að lífa því.

Ég velti þessu fyrir mér því ég veit að ég yrði fordæmd fyrir þessar skoðanir (eðlilega) um leið og meginþorra þjóðarinnar virðist finnast fátt athugavert við það að segja; „Það skiptir engu máli hvort barnið er stelpa eða strákur, svo lengi sem það er ekki fatlað." Fólk hefur ákveðið það fyrirfram að líffræðileg skerðing barns hljóti að vera mesti harmleikur sem hægt er að hugsa sér, uppspretta allra vandamála og gildisfellandi fyrir lífið og gæði þess eins og það leggur sig. Þjóðinni virðist einnig finnast sjálfsagt mál að eyða fóstrum sem greinast með líffræðilega skerðingu því 90-100% fatlaðra fóstra er eytt.

Það að rauðhærðum og ljóshærðum börnum er strítt er ekki háralitnum að kenna frekar en að það er skerðingunni að kenna að fötluðu barni er strítt. Það að konur hafi ekki sömu möguleika og karlar hefur ekkert að gera með líffræðilegt kyn, frekar en að fatlað fólk hafi ekki sömu möguleika og ófatlað fólk hefur ekkert að gera með líffræðilega skerðingu. Slíkt á rætur sínar að rekja til kúgandi samfélagsmótunar þeirra valdameiri í samfélaginu. Það að eiga erfitt með að labba, lesa, sjá eða heyra gildisfellir ekki líf fólks frekar en að eiga erfitt með að læra stærðfræði eða vera samkynhneigt.

Þegar ég áttaði mig á því eina ferðina enn, við lestur þessarar fréttar, hve mikill misskilningur það er að telja mannkynbótastefnuna heyra sögunni til langaði mig til að gráta. Þegar ég sá að milljörðum hefur verið eytt í að finna leið til að gefa fólki heimild til að útrýma ákveðnum þjóðfélagshópum á sama tíma og honum er neytað fjármagni til að tryggja mannréttindi, varð mér flökurt. Þegar ég sá íslenskan fjölmiðil birta fréttir um útrýmingatæki gagnvart fötluðum börnum nær gagnrýnislaust og 434 manneskjur vera búnar að „líka við" fréttina dó eitthvað innra með mér.

Við lestur þessarar fréttar varð mér hugsað til tíu ára vinar míns. Hann sér líf sitt ekki sem harmleik, skömm, óæskilegt eða ljótt en hann sagði fyrir stuttu setningu sem ætti að vera nægilega skýr til þess að samfélagið allt horfist í augu við sjálft sig og endurskoði afstöðu sína til þess hvaða líf er meira virði en annað líf. Þessi setning gefur ekki einungis til kynna að allt líf beri að virða heldur skuli því fagnað; „Lóurnar eru svo rosalega fallegar að þær eru örugglega allar með Downs-heilkenni eins og ég."