Ég get valið í hvaða búð ég fer að versla. Í mörgum búðum get ég meira að segja valið mér afgreiðslukassa eða fólk sem vinnur við afgreiðslu. Það að velja sér afgreiðslufólk gera kannski fæstir, þar sem það skiptir ekki máli. Það eru takmörkuð samskipti sem þarf til að fá afgreiðslu og svo fer maður sína leið.

Þegar þörf er á aðstoð við helstu athafnir daglegst lífs, athafnir sem fólk almennt gerir án þess að hugsa sig um, þá skiptir máli að hafa val. Ekki bara val, heldur fullkomna stjórn á aðstæðum.

Þegar þörf er á aðstoð allan sólarhinginn, hvern dag, allt árið, alla þína ævi, þá á á auðvitað ekkert annað að koma til greina en þú ákveðir hver aðstoðar þig, við hvað, hvernig á að aðstoða þig, hvenær og hvar.

Það er alltaf auðvelt að tala um þetta svona almennt og margir segjast skilja þetta, þó þeir hafi mjög takmarkaðar forsendur til þess. Þeir þurfa ekki að upplifa hið gagnstæða daglega.Hér eru örfá atriði sem ég hlakka til að gera þegar ég fæ eðilega stjórn á mínu lífi með NPA:

  • Að geta valið aðstoðar fólk.
  • Að geta pissað hvenær sem er, hvar sem er og þurfa ekki stöðugt að vera meðvitaður um það og spá í hvað ég drekk mikið.
  • Að geta farið í bað daglega. Sérstaklega að komast í bað um helgar.
  • Að geta stjórnað því hvenær ég fer að sofa.
  • Að geta örugglega fengið aðstoð við breyta um stellingu á nóttunni.
  • Að vera með mun færra fólk sem aðstoðar mig og geta gert þá að snillingum í því að aðstoða mig.
  • Að geta farið að skemmta mér þegar ég vil án þess að spá í það hvort það séu einhverjir félagar eða vinir sem gætu hugsanlega reddað mér.
  • Að vera með aðstoðarfólk sem skilur hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og þekkir það hlutverk að aðstoða þann sem þarf aðstoð hvern dag, alla ævi.

Þessi mannréttindi eru pólitíkusar búnir að innleiða erlendis.

Sameinuðu þjóðirnar eru búnar gera sérstakan sáttmála fyrir fólk með fötlun til að undirstrika hvað felst í almennum mannréttindarsáttmálum og til þess að fólk með enga reynslu af fötlun skilji það frekar.

Pólitíkusar hér á Íslandi eru enn með þessi mál á samviskunni, sem félagar þeirra á norðurlöndunum afgreiddu fyrir áratugum síðan.

Mannréttindi og fjárveitingar vegna þeirra er auðvitað bara pólitísk afstaða.

Hverjir þora að taka af skarið og koma NPA í gang fyrir alvöru fyrir Íslendinga?