Þegar ég hlustaði á tvær konur á kaffihúsi tala um það hvað það væri hræðilegt að þurfa að eiga fatlað barn langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég þurfti að láta skanna fyrir mig bækur í skóla og hlustaði á það hvað það væri tímafrekt fyrir kennaran langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar við fjölskyldan gátum ekki farið í fermingarljósmyndatöku eldri „litla“ bróður míns er við mættum á staðinn og lyftan var of lítil langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Alison LapperAlison LapperÞegar ég komst ekki inn í húsin á Árbæjarsafninu með krökkunum þegar ég var að vinna í Barnaskóla Hjallastefnunnar langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég gat ekki eitthvað í sjúkraþjálfun þegar ég var lítil og fór jafnvel að gráta, skammaðist ég mín og langaði að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég fór í passamyndatöku og gat ekki snúið „rétt“ á myndinni og til varð ægilegt drama langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég fór að kjósa með minni eigin aðstoðarkonu, stöðva þurfti kjörfund í 20 mínútur á meðan öll skjöl voru undirrituð og kílómeters löng biðröð myndaðist fyrir utan dyrnar langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég sagði hreinskilningslega á fundi í ráðuneyti að ég upplifði mig og annað fatlað fólk sem úrhrök vegna umræðu um sjálfstæði fatlaðs fólks sem snérist eingöngu um peninga og móðgaði þ.a.l. fullt af ófötluðu fólki langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég hlustaði á borgarfulltrúa lýsa því yfir í sjónvarpinu að aðstoðin sem er forsenda sjálfstæðis míns (og annarra) allan sólarhringinn kostaði 25. milljónir á ári og því ekki víst hvenær hægt væri að verða við henni langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Þegar ég las frétt þar sem forstöðumaður Sambands Iðnaðarins og verkefnisstjóri Búseta lýsti því yfir að með því að byggja nýjar byggingar út frá reglugerð um altæka hönnun (e. universal design) sem gera þær aðgengilegar myndi það „gera húsnæði dýrara og óvistvænna, draga úr framkvæmdum, eyða hefðum í íslenskri bygginarlist og hækka lán“ langaði mig að biðjast afsökunar á því að vera til.

Stundum hef ég látið það eftir mér að biðjast afsökunar á að vera til. En ég geri það sjaldnast.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að ég á foreldra sem hafa með orðum sínum og gjörðum látið öll börnin sína finna hvað þau eru dýrmæt, mikilvæg og ómissandi – sama hvernig þau eru.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að inni á milli voru kennarar sem létu mig finna það á hverjum degi að þeir væru þarna fyrir mig en ég ekki þarna fyrir þá.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að mér var einu sinni kennt að það væri ekki mér að kenna að ég kæmist ekki inn í hús heldur húsinu sjálfu, fólkinu sem bjó það til og ber ábyrgð á að breyta því.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að á Árbæjarsafninu strunsuðu fimm 7 ára drengir á eftir mér og fussuðu og sveiuðu yfir því að þarna væri ekki skábraut og að þegar þeir yrðu stórir myndu þeir ekki láta sér detta í hug að klikka á slíku aðalatriði.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að einu sinni sagði sjúkraþjálfari mér að ég stjórnaði því hvað væri gert í sjúkraþjálfun, ég ætti minn líkama sjálf og enginn mætti gera neitt við hann sem ég vildi ekki.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að Alison Lapper lét gera styttu af sér nakinni og ólettri og planta á torg í London þó svo að líkami hennar væri ekki „réttur“ í augum meirihlutans.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að einu sinni fórnuðu konur og svart fólk lífi sínu fyrir að fá kosningarétt og að geta kosið leynilega.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að einn af helstu mannréttindafrömuðum fatlaðs fólks í heiminum, Ed Roberts, sagði að ef menn gæfu rödd sína upp á bátinn töpuðu þeir. Þó röddin móðgi stundum.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að lítill fimm ára vinur minn stóð upp í samverustund í leikskólanum fyrir stuttu og útskýrði hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð óumbeðið fyrir vinum sínum af því honum þótti það svo mikilvægt.

Ég biðst ekki afsökunar vegna þess að ég á bræður og vinkonur sem banna mér oft með berum orðum að biðjast afsökunar á að vera til þrátt fyrir að það þurfi að hagræða samfélagi sem er að mestu búið til af ófötluðu fólki, t.d. eyða hefðum í íslenskri byggingarlist.

Sú tilfinning að finnast ég þurfa að biðjast afsökunar á að vera til staðfestir þá mismunun sem ég verð fyrir á grundvelli fötlunar minnar. En sú vissa um að sú tilfinning eigi ekki að stjórna lífi mínu og að ég eigi ekki að bregðast við henni með því að láta afsökunarbeiðni út úr mér er staðfesting á því að í heimunum er fólk, eins og foreldrar mínir, sjúkraþjálfarinn, kennararnir, strákarnir í Barnaskólanum, Ed Roberts, Alison Lapper, konurnar og svarta fólkið, fimm ára vinur minn, bræður mínir og vinkonur, sem hefur sannað að vandinn liggur ekki í mér heldur viðhorfum fólksins sem býr til samfélagið.

Og sú staðfesting er nóg til þess að ég leggi mig alla fram um að biðjast ekki afsökunar á tilveru minni því annars eru allar líkur á að öðru fötluðu fólki í kringum mig finnist það líka þurfa að gera það og að sumt ófatlað fólk haldi áfram að finnast í lagi að okkur líða þannig.

Málið er að líkaminn fatlar mig ekki neitt í samanburði við tilfinninguna sem stuðlar stundum að því að mig langar að biðjast afsökunar á því að vera til og mér finnst talsvert mikilvægt að halda því til haga. Því þessi ofangreinda tilfinning hefur fatlað mig mikið síðustu daga vegna málflutnings hinna ýmsu aðila í fjölmiðlum. En ég vona að fatlað og ófatlað fólk sameinist um að stöðva þau fatlandi áhrif.

Tekið af: http://freyjaharalds.wordpress.com/2012/11/26/ad-bidjast-afsokunar-a-ad-vera-til/