EF ÉG VÆRI MEÐ ÞROSKAHÖMLUN…
… þætti mörgum eðlilegt að ég hefði alist upp meira og minna á skammtímadvöl fyrir fötluð börn, fjarri mömmu, pabba og systkinum.
… þætti mörgum eðlilegt að ég hefði verið lokuð inn í herbergi á leikskólanum í stífri þjálfun í stað þess að vera að leika við börnin og borða sand.
… þætti mörgum eðlilegt að ég hefði farið í sérskóla með „mínum líkum“ í stað þess að ganga í skóla með krökkunum í hverfinu.
… þætti mörgum eðlilegt að ég fengi enga kynfræðslu í skóla því ég væri hvort sem er kynlaus.
… þætti mörgum eðlilegt að ég lærði ekki ensku í skóla því ég myndi hvort sem er aldrei þurfa að nota hana.
… þætti mörgum eðlilegt að ég fengi enga eineltisfræðslu í skólanum því börn með þroskahömlun leggi ekki í eða verði fyrir einelti.
… þætti mörgum eðlilegt að ég færi í sérstakt frístundaúrræði eftir skóla þó ég væri í 10. bekk og flestir jafnaldrar mínir færu bara heim í tölvuna.
… þætti mörgum eðlilegt að ég myndi útskrifast með rauða húfu en ekki hvíta úr framhaldsskóla því það gæti ekki verið að ég hefði lagt
jafn mikið á mig í náminu eins og hreyfihamlaða stelpan á félagsfræðibraut.
… þætti mörgum eðlilegt að ég hefði ekki aðgang að framhaldsnámi til raunverulegra eininga eða stöðu- og launahækkunar í starfi því „svona fólk“ getur ekki lært eða borið ábyrgð.
… þætti mörgum eðlilegt að ég byggi á sambýli þar sem ég deildi aðstoð með mörgum öðrum, veldi hvað væri í matinn einu sinni í viku, réði því ekki hvenær ég færi að sofa eða í sturtu eða þyrfti að sleppa því að fara í afmæli af því að einhver annar á sambýlinu væri að fara í leikhús og þyrfti aðstoð og það væri enginn annar starfsmaður sem gæti farið með mér.
… þætti mörgum eðlilegt að skammta mér mína eigin peninga því augljóslega vissi ég ekki hvað ég ætti að gera við þá.
… þætti mörgum eðlilegt að senda mig í sumarbúðir þó ég væri orðin fullorðin.
… þætti mörgum eðlilegt að borga mér léleg eða engin laun fyrir mikilvæg störf þó svo að fólk sem ekki er með þroskahömlun fengju laun fyrir þau.
… þætti mörgum eðlilegt að tilkynna mig til barnaverndar áður en ég fæddi barnið mitt því ég myndi án efa bregðast því.
… þætti mörgum eðlilegt að ég hefði ekki áhuga á pólitík því ég hefði hvort sem er enga skoðun.
… þætti mörgum eðlilegt að ég læsi ekki blöðin og horfði ekki á fréttirnar því það að búa í upplýstu samfélagi væri ekkert mikilvægt fyrir mig.
… þætti mörgum eðlilegt að afskrifa það á einni svipan að ég gæti stjórnað mínu lífi.
En fæstum finnst það eðlilegt. Af því ég er bara með hreyfihömlun.
Hvað er það?
Tekið af: http://freyjaharalds.wordpress.com/2012/11/18/ef-eg-vaeri-med-throskahomlun/