Ljósmyndabókin Frjáls

Jólagjöf sem dregur úr fordómum og styður mannréttindabaráttu fatlaðs fólks!

KápumyndFatlað fólk er oft álitið sjúkt, óhæft, afbrigðilegt og gallað og er þar með útilokað frá grundvallar mannréttindum eins og að geta gengið í almennan skóla, stundað atvinnu á almennum vinnumarkaði, flutt að heiman í eigin íbúð, eignast fjölskyldu, tekið þátt í stjórnmálum, ferðast erlendis og notið menningar og tómstunda. Það gerir það að verkum að fatlað fólk er ósýnilegt og útilokað og á erfitt með að hafa áhrif á viðhorfin sem myndast í samfélaginu og berjast fyrir jöfnum réttindum. Staða þess verður því viðfangsefni fagfólks og fjölmiðla sem oft á tíðum birtir það í öfgafullum hlutverkum sem ýmist hetjur eða fórnarlömb. Hetjur fyrir það eitt að vakna á morgnana og klæða sig og fórnarlömb vegna þeirra ,,hræðilegu örlaga” að geta ekki gengið, séð, heyrt eða verið með samfélagslega viðurkennda greindarvísitölu.

NPA miðstöðin, sem er samvinnufélag fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð og sjálfstætt líf, hefur ákveðið að tími sé til komin að taka ábyrgð og hafa áhrif til breytinga og mun á alþjóðadegi mannréttinda, þann 10. desember 2011, gefa út ljósmyndabókina Frjáls.

Ljósmyndir bókarinnar eru teknar af Hallgrími Guðmundssyni en hann er einn af eigendum NPA miðstöðvarinnar fyrir hönd sonar síns sem er fjögra ára leikskólastrákur og eðaltöffari. Hann er með hreyfihömlun og langvarandi sjúkdóm og notar notendastýrða persónulega aðstoð. Með þá reynslu í farteskinu hefur hann gott auga fyrir þeim skilaboðum sem fyrirsætur bókarinnar vilja koma á framfæri til samfélagsins. Hallgrímur Guðmundsson, ljósmyndari bókarinnar

Markmiðið með útgáfu bókarinnar er tvíþætt. Annars vegar að skapa jákvæðar fyrirmyndir af fötluðu fólki fyrir fatlað fólk sjálft og sýna fram á, í máli og myndum, að þegar hindranir eru ruddar úr vegi og viðeigandi aðstoð veitt er fatlað fólk, líkt og ófatlað fólk, jafn fært um að vera frjálst, taka þátt í samfélaginu og lifa sjálfstæðu lífi. Hins vegar er markmiðið að skapa vitundarvakningu í samfélaginu, í samræmi við 8. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur undirritað, og auka þannig meðvitund samfélagsins um mannréttindi og jafnrétti fatlaðs fólks og vekja athygli á að um er að ræða hóp sem getur lifað sjálfstæðu lífi, sinnt ólíkum hlutverkum og uppfyllt skyldur sem borgarar í íslensku samfélagi.

Fólkið sem birtist í bókinni hefur þurft að berjast af öllum mætti fyrir hlutum sem flestir hugsa ekki um eins og að geta keyrt bíl, lifað fjölskyldulífi, ferðast erlendis, gefið öndunum brauð, spilað skák, átt samskipti, gengið í almennan skóla, lesið stórar og þungar bækur og brunað um fjöll og fyrnindi á fjórhjóli. Baráttan hefur þó skilað árangri þrátt fyrir að um fjölbreyttan hóp sé að ræða.

Þessir venjulegu Íslendingar sem birtast í bókinni Frjáls eru dæmi um að það skiptir ekki nokkru einasta máli hversu mikið þeir geta hreyft sig, heyrt og séð til að geta lifað sjálfstæðu lífi. Það sem skiptir fólkið öllu máli er að vera í umhverfi þar sem það nýtur virðingar líkt og allir aðrir, hefur aðgang að samfélaginu og fær aðstoð sem það getur stýrt sjálft og þannig mótað sinn eigin lífstíl. Í bókinni glittir hvergi í afbrigðileika, harmleik eða vandamál. Þar eru engar hetjur né fórnarlömb – einfaldlega venjulegt íslenskt fólk, börn og fullorðnir, sem krefst þess að lifa sjálfstæðu lífi og vera frjálst. Það krefst þess ekki einungis fyrir sig – það krefst þess fyrir hönd allra.

NPA miðstöðin mun hefja sölu á ljósmyndabókinni Frjáls 10. desember 2011 og mun allur ágóði hennar renna til miðstöðvarinnar sem hefur það markmið að berjast fyrir frelsi, sjálfstæðu lífi og jafnrétti fatlaðs fólks.

Við tókum þá stefnu upphaflega að selja bókina á eins lágu verði og okkur er unnt því við leggjum áherslu á að hún rati inn á flest heimili og vinnustaði landsins. Bókin mun vera seld á 3.900 kr. stk.

Ljósmyndabókin Frjáls er bæði á íslensku og ensku. Hún er tilvalin jólagjöf fyrir allan aldur því með henni er hægt að taka þátt í að draga úr fordómum og styðja við baráttu fatlaðs fólks fyrir grundvallar mannréttindum.

 

Til að panta bókina vinsamlegast hafið samband við framkvæmdastýru NPA miðstöðvarinnar á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..