Fleiri NPA notendur líklega í forgangshópi 3 en áður var talið

Birt 13. janúar kl. 14:59, uppfært 14. janúar kl. 15:54

NPA miðstöðin náði tali af yfirmanni á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem veitti leyfi til að deila eftirfarandi upplýsingum.

Bólusetning á milli jóla og nýárs
Á milli jóla og nýárs þegar fyrstu bóluefnaskammtarnir voru veittir, hafði heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu eingöngu fengið nöfn yfir fjóra NPA notendur. Þessir fjóru einstaklingar voru skilgreindir í forgangshópi 3 og voru bólusettir. Einn þessara aðila var barn sem hefði strangt til tekið ekki átt að bólusetja en viðkomandi mun eiga afmæli eftir nokkra mánuði og fyrir vikið stutt þangað til það hefði mátt bólusetja þann aðila.

 Það er mikil áhersla lögð á að bólusetja hratt og að klára tilteknar einingar en skortur á bóluefni leiðir stundum til misræmis, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu. T.d. náðist eingöngu að bólusetja aðra stóru dagvistunina í Reykjavík en ekki hina og á einni stofnun náðist ekki að bólusetja alla.

Söfnun lista yfir NPA notendur og aðstoðarfólk
Í framhaldi af fyrstu bólusetningunni óskaði heilsugæslan eftir listum yfir NPA notendur. Þá höfðu Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær samband við NPA miðstöðina og óskuðu eftir listum yfir NPA notendur sem við sendum um hæl ásamt lista yfir aðstoðarfólk, annars vegar á milli jóla og nýárs og hins vegar á fyrsta vinnudegi nýs árs. Reyndar höfðum við víða vakið athygli á þörf fyrir lista yfir NPA notendur og aðstoðarfólk, frá því snemma í desember. NPA miðstöðin hefur síðan þá sett sig í samband við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að bjóðast til að senda lista til heilsugæslunnar yfir notendur og aðstoðarfólk þeirra sveitarfélaga (sem hafa sína umsýslu hjá NPA miðstöðinni). Auk Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbæjar hefur Mosfellsbær beðið okkur að senda lista sem við munum gera í dag. Viðmælandi telur hins vegar að þau séu komin með heillegan lista yfir NPA notendur á höfuðborgarsvæðinu.

Á Akureyri var listi yfir NPA notendur sendur fljótt til heilsugæslunnar ásamt lista yfir fólk á dvalarheimilum og óskað eftir forgangi fyrir alla á listanum, samkvæmt samtali í síðustu viku.

Forgangsröðun
Viðmælandi sagði að forgangsröðun ráðist mikið til af svokallaðri hjúkrunarþyngd, þ.e. hversu mikla aðstoð viðkomandi þarf. Af öðrum samtölum má ráða að sjúkraskrár og alvarleiki sjúkdóms/áhættuþátta séu einnig hafðir til hliðsjónar.

Fikra sig niður lista yfir forgangshópa 
Það má segja að verið sé að fikra sig niður lista í nokkrum forgangshópum.

  • Í dag verður haldið áfram að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk, í forgangshópi 2 og starfsfólk í framvarðarsveit í forgangshópi 4 eins og t.d. sjúkraflutningamenn sem iðulega fara á milli margra sjúkrastofnana og dvalarheimila í sínu starfi.
  • Fljótlega verður haldið áfram að bólusetja fólk í forgangshópi 3 og telur viðmælandi að margir NPA notendur muni falla í þann hóp, auk fólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Með bólusetningu fólks á dvalarheimilum er jafnframt verið að vinna á lista fólks yfir sextugt í forgangshópi 6.
  • Líklega verður haldið áfram að bólusetja fólk á vettvangi (forgangshópur 4 og 5) að einhverju leyti samhliða ofangreindu.
  • Falli NPA notandi ekki í forgangshóp 3 (mikil hjúkrunarþyngd eða áhættuþættir skv. sjúkraskrá) og ekki í forgangshóp 6 (fólk yfir sjötugt eða jafnvel sextugt), fellur viðkomandi líklega í forgangshóp 7 (og mögulega í hóp 9) og ólíklegt að bólusetning fáist fyrr en í fyrsta lagi í apríl. Ef kemur í ljós að bóluefni muni berast hraðar til landsins en nú er gert ráð fyrir þá myndi viðkomandi væntanlega verða bólusettur fyrr.

Börn
Ekki stendur til að bólusetja börn. Lyfin hafa ekki verið rannsökuð með tilliti til barna og það er ekki markaðsleyfi fyrir því að bólusetja börn. Hins vegar gilda ekki alveg sömu reglur um bólusetningarlyf frá mismunandi framleiðendum. Pfizer bóluefnið má ekki gefa börnum fædd 2005 eða seinna en bóluefni Moderna má eingöngu gefa átján ára og eldri.

Fyrir vikið er stefnt að því að bólusetja í staðinn foreldra og umönnunaraðila barna með sjúkdóma og undirliggjandi áhættuþætti. Verður það gert í samráði við Barnaspítala Hringsins. Forgangsröðun yrði byggð á sömu forsendum og hjá fullorðnum. Börn með NPA aðstoð falla líklega flest í forgangshóp 3 en mögulega í hóp 7 og stefnt er að því að bólusetja aðstandendur samkvæmt því.

Fyrirvari
NPA miðstöðin telur ofangreindar upplýsingar áreiðanlegar. Það er hins vegar ekki í öllum tilvikum samræmi í þeim upplýsingum sem okkur berast, breyturnar eru margar og framvindan getur breyst hratt þannig að ofangreint er eftir sem áður allt sagt með fyrirvara.

EDIT 14.01.2021: Á fimmtudag í síðustu viku var haldinn skipulagsfundur vegna bólusetninga sem sátu starfsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í málefnum fatlaðs fólk, auk fulltrúa frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og frá Almannavörnum.

Kópavogsbær hefur tjáð okkur að þau séu búin að senda lista yfir NPA notendur til heilsugæslu höfðuborgarsvæðisins og hafa jafnframt óskað eftir listum NPA miðstöðvarinnar yfir aðstoðarfólk. Listi yfir aðstoðarfólk NPA notenda í Kópavogi með umsýslu í NPA miðstöðinni, var sendur til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag, 14. janúar.

Samkvæmt okkar heimildum hafa listar yfir NPA notendur og aðstoðarfólk á höfuðborgarsvæðinu verið sendir heilsugæslunni fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ, og nú Kópavog. Við höfum enn ekki haft spurnir af stöðunni í Garðabæ og Seltjarnarnesi. Akureyrarbær hafði sent lista yfir sína NPA notendur í síðustu viku en við vitum ekki hver staðan er varðandi lista yfir aðstoðarfólk. Í öðrum sveitarfélögum eru líklega yfirleitt það fáir NPA notendur að einfaldara ætti að vera að koma nauðsynlegum upplýsingum áleiðis vegna bólusetningar.

Samkvæmt hádegisfréttum í dag var tiltekið heilbrigðisstarfsfólk og framlínustarfsfólk bólusett í gær. Þegar næsti bóluefnaskammtur berst í næstu viku er ætlunin að bólusetja aðallega eldra fólk og gefa seinni skammtinn til þeirra sem voru bólusettir milli jóla og nýárs. Svo verður væntanlega haldið áfram að fikra sig niður lista yfir fólk í forgangshópum 2, 3 og 4 eftir því sem bóluefnin berast. Listar yfir NPA notendur ættu skv. okkar upplýsingum, að vera skoðaðir um svipað leyti og listar yfir aðra í hópi 3. Ekki má samt gera ráð fyrir að allir NPA notendur falli í hóp 3.

Hér má sjá reglugerð um forgangshópa.

Image by Vesna Harni from Pixabay

NPA miðstöðin