Um bólusetningar við COVID-19 á Íslandi
Þau gleðilegu tímamót hafa nú átt sér stað að bólusetning við C-19 er hafin á Íslandi. Ennþá eru margir óvissuþættir, t.d. um það hvenær næstu bólusetningarskammtar berist til landsins og þá hversu margir.
NPA miðstöðin hefur átt í samskiptum við fulltrúa viðbragðsteymis almannavarna og sóttvarnarlæknis til að minna á NPA notendur og aðstoðarfólk þeirra og tiltekna þröskulda sem við sáum mögulega fyrir að þyrfti að forðast. Við höfum jafnframt sent fyrirspurn til landlæknis, m.a. um í hvaða forgangshópa NPA notendur sem ekki tilheyra öðrum forgangshópum falli. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru ennþá allt of margar breytur til að hægt sé að slá nokkru föstu.
Eftirfarandi samantekt er viðleitni NPA miðstöðvarinnar til að upplýsa um stöðu mála.
En breyturnar eru margar og framvindan getur breyst hratt þannig að neðangreint er allt sagt með fyrirvara.
Hér má sjá reglugerð um forgangsröðun hópa fólks í bólusetningu.
Bólusetning milli jóla og áramóta
Með þeim skömmtum sem fengust í gær, er verið að bólusetja hluta úr forgangshópum 1, 2 og 3. Má leiða að því líkur að brýnna hafi þótt að hefja bólusetningu eldra fólks í forgangshópi 3 í stað þess að bólusetja fleira heilbrigðisfólk í forgangshópum 1 og 2. Ekki næst að klára að bólusetja hópa 1, 2 og 3 í þetta skiptið.
Af þessu má sjá að NPA notendur munu varla fá bólusetningu í þessari lotu. Það fer síðan eftir fjölda skammta sem berast með næstu bólusetningarsendingu hvort þá verði komið að NPA notendum eða ekki.
Bólusetning NPA notenda og aðstoðarfólks
Þegar kemur að NPA notendum, þá mega þeir búa sig undir að einstaklingar innan hóps NPA notenda fái boð á mismunandi tíma í bólusetningu.
- Þeir sem eru komnir yfir sextugt (forgangshópur 6) fá t.d. líklega boð á undan flestum öðrum.
- Þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og áhættuþætti (forgangshópur 7) fá líklega boð þar á eftir.
- NPA aðstoðarfólk er í forgangshópi 8.
- Ungt fólk með þroskaskerðingar eða einhverfu er líklega í forgangshópi 9.
Við höfum hins vegar ekki á hreinu hvar þeir falla sem ekkert að ofangreindu á við, þó vonandi í forgangshóp 7. Við höfum bent á þessa einstaklinga í samtölum og í fyrirspurn til landlæknis og vonumst til þess að staða þessa hóps skýrist á næstunni.
Sé listinn skoðaður geta líklega flestir verið sammála um að hann sé unninn með það að leiðarljósi að gæta mismundandi áhættuhópa og hafa hagsmuni þeirra í fyrirrúmi en í raun og veru er engin ein 100% rétt eða góð leið til að forgangsraða. Því miður verður óvissan áfram veruleiki okkar þótt farið sé að hylla í ljósið við enda ganganna.
Framhaldið
NPA miðstöðin mun halda áfram að kalla eftir upplýsingum sem varða NPA notendur og aðstoðarfólk þeirra í þessu ferli og miðla upplýsingum áfram eftir því sem þær berast. Við vekjum jafnframt athygli á samantekt og tilkynningum um bólusetningar á covid.is. Loks minnum við á leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu.
Edit: Okkur hafa borist fregnir af því að einhverjir NPA notendur hafi hlotið bólusetningu á milli jóla og nýárs og verið tjáð að þeir séu skilgreindir í forgangshópi 3, sama hópi og fólk á hjúkrunarheimilum. Þær fréttir gleðja og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. NPA miðstöðin mun leitast við að miðla upplýsingum um gang mála eftir því sem þær berast, hvort sem er frá heilbrigðisyfirvöldum og sveitarstjórnum eða NPA notendum.
Baráttukveðjur!