Fjölgum störfum með fleiri NPA samningum

Nú þegar ljóst er að fjöldi fólks er að missa störf í samfélaginu vegna áhrifa Covid-19, leitar Alþingi leiða til að styrkja atvinnulífið. Alþingi hefur m.a. óskað eftir tillögum frá ýmsum aðilum til að nýta við það uppbyggingarstarf sem blasir við á næstu mánuðum.

Upplagt er fyrir stjórnvöld að virkja þá NPA samninga sem nú þegar hafa verið samþykktir af sveitarfélögum. Fjöldi fatlaðs fólks hefur fengið samþykki síns sveitarfélags fyrir NPA en bíður í óvissu eftir því að þjónusta sín verði virkjuð. Það eina sem vantar upp á er aukið framlag frá ríkinu. Aukið framlag ríkisins myndi jafnframt tryggja fleiri störf í samfélaginu.

Með því að flýta innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi:

  • Að tryggja fjölda fólks störf til frambúðar
  • Að stuðla að sjálfstæðu lífi og aukinni virkni fatlaðs fólks í þjóðfélaginu.

„Ég tel óhætt að fullyrða að um og yfir níu af hverjum tíu krónum (90%) sem lagðar eru í NPA þjónustu fari beint í launakostnað. Mjög lítil yfirbygging fylgir þessari þjónustuleið og fjármagn nýtist vel. Þau verkefni eru sennilega vandfundin sem nýtast eins vel til að skapa störf og bæta samfélagið en notendastýrð persónuleg aðstoð,“ segir Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður NPA miðstöðvarinnar.

NPA miðstöðin skorar á stjórnvöld að flýta innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.