Myndi gjarnan vilja bjóða Stephen Fry í mat
Ragnar Gunnar Þórhallsson er viðmælandi okkar í þessari viku.
1. Hver er þín reynsla af að lifa með skerðingu og lifa í fatlandi samfélagi?
Nú hef ég verið hreyfihamlaður í nokkra áratugi. Það er ekki spurning að skortur á aðgengi í samfélaginu hefur haft afgerandi áhrif á allt mitt líf, svo sem val um hvar ég bý, námsmöguleika, atvinnu, ferðalög og hvaða fólki ég hef haft tækifæri á að kynnast á lífsleiðinni. Þó ýmislegt hafi áunnist þá er enn langt í land bæði hvað varðar aðgengi og jafnvel ennþá frekar viðhorf í samfélaginu. Þessi endalausa krafa um að fólk með skerðingar eigi og þurfi að vera hetjur til að hljóta viðurkenningu samfélagsins stendur framþróun fyrir þrifum. Þarna leika fjölmiðlarnir stórt hlutverk, þeir stilla fötluðu fólki upp ýmist sem hetjum eða harmleik; ef þú ert ekki hetja er líf þitt harmleikur. Í raun felur umfjöllun fjölmiðla oft í sér kúgun og niðurlægingu þegar grannt er skoðað.
2. Hvernig kynntist þú NPA miðstöðinni?
Ég var svo heppinn uppgötva hvað NPA er vegna þátttöku minnar í norrænu samstarfi samtaka fatlaðs fólks og tók þátt í undirbúningi að stofnun NPA miðstöðvarinnar.
3. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um NPA?
Annað kom ekki til greina eftir að ég kynntist NPA og gat borið það þjónustufyrirkomulag saman við gömlu stofnanaþjónustuna sem maður þekkir svo vel.
4. Er einhver þáttur sem heillar þig sérstaklega varðandi hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð?
Að geta á ríkari hátt nýtt það frelsi til athafna, sem annað fólk telur sjálfsagt. Lykilorðin hér eru vald og ábyrgð; að fá vald yfir eigin lífi og þar með geta tekið ábyrgð á eigin lífi. Það veitir lífsfyllingu.
5. Ef þú ert með NPA samning, hvernig hefur hann breytt lífi þínu?
Því er ekki að neita að þá hófst nýr kafli á lífsleiðinni, nýir draumar og ný markmið sem maður sér fram á að muni rætast og hafa ræst.
6. Hvernig gekk að fá samþykktan NPA samning?
Það gekk ágætlega, en tók tíma. Gekk ágætlega að ég held fyrst og fremst vegna þess að ég undirbjó og vandaði umsóknina mjög vel.
7. Hvað var það í baráttunni fyrir NPA sem veitti þér mestan innblástur og kemur í veg fyrir að þú gefist upp?
Það skiptir miklu máli að maður er hluti af hópi fatlaðs fólks, sem er að berjast fyrir því sama. Og þarna skiptir tilvist NPA miðstöðvarinnar miklu máli.
8. Af hverju ert þú mest stolt/ur í lífinu?
Púff, erfið spurning, það er svo margt. Ætli það sé ekki bara fjölskyldan, starfsferill minn og vera þátttakandi í NPA hreyfingunni á Íslandi.
9. Áttu þér uppáhalds tilvitnun?
Fleyg orð sæki ég helst í spakmæli Búdda og bók Lao Tze.
10. Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnu eða skóla?
Ansi margt. Gítarspil og allskonar sýsl, auðvitað oft með NPA aðstoðarmanni !
11. Ef þú mættir bjóða hverjum sem er í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?
Hinum enska leikara og sjónvarpsþáttagerðarmanni Stephen Fry. Fáir hafa flottari rödd og tala betri ensku en þessi sjentilmaður.
12. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa foreldrum fatlaðra barna?
Kynna sé hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og NPA strax og hafa þessa hugmyndafræði í huga við uppeldi barna sinna.
13. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa ungu fötluðu fólki?
Ekki festast í og verða meðvirk gagnvart gamla þjónustukerfinu. Tileinkið ykkur NPA og sjálfstætt líf.