Félagsfundur
Ágætu félagar!
Miðvikudaginn 22. september nk. mun stjórn NPA-miðstöðvarinnar standa fyrir sínum fyrsta félagsfundi. Fundurinn verður haldinn á Háskólatorgi, stofu 104, og hefst kl. 19:30 og lýkur kl. 22:00. Á fundinum munu nokkrir einstaklingar, sem nú þegar fá beingreiðslur til þess að ráða sjálfir sína aðstoðarmenn og skipuleggja aðstoðina sjálfir, halda stutt erindi.
Eftir erindin verður gert um 15 mínútna hlé og boðið upp á léttar veitingar. Að því loknu verða svo umræður og þar gefst félagsmönnum kostur á að spyrja og viðra skoðanir sínar.
Stjórn NPA-miðstöðvarinnar hvetur alla félagsmenn til að mæta, fylgjast með þróun hins nýja félags, og taka þátt í gagnlegum og fróðlegum umræðum.
Með félagskveðju,
f.h. stjórnar
Hallgrímur Eymundsson, formaður stjórnar
Dagskrá félagsfundar NPA-miðstöðvarinnar svf, þann 22. september 2010:
- Fundarsetning – Hallgrímur Eymundsson
- Kynning viðstaddra
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Fréttir frá stjórn – Hallgrímur Eymundsson
- Hvernig virkar notendastýrð persónuleg aðstoð? Hverju breytir slíkt fyrirkomulag fyrir þá sem fá beingreiðslur í dag?
Eftirtaldir halda stutt framsöguerindi:- Freyja Haraldsdóttir notandi slíkrar aðstoðar
- Aldís Sigurðardóttir notandi slíkrar aðstoðar (foreldri)
- Theodór Karlsson, en hann hefur reynslu af starfi sem aðstoðarmaður og hefur aðstoðað fólk við að sækja um beingreiðslur
- Ásdís Jenna Ástráðsdóttir notandi slíkrar aðstoðar
- Hlé – 15 mínútur
- Umræður
- Kynntar hugmyndir að vinnufundi í október 2010 – Freyja Haraldsdóttir
- Önnur mál
- Fundarslit – Hallgrímur Eymundsson
Í lok fundar verður sýnt stutt myndband þar sem maður að nafni Ed Roberts segir frá þeirri hugmyndafræði sem notendastýrða persónuleg aðstoð byggir á, en hann var frumkvöðull þeirrar hugmyndafræði.
Ferðin til Svíþjóðar
Þann 24. ágúst síðastliðin hélt hluti stjórnarmeðlima (Hallgrímur, Embla og Freyja) til Svíþjóðar (nánar tiltekið Stokkhólms) á fund Evrópusamtaka um Sjálfstætt líf, ENIL. ULOBA, norskt samvinnufyrirtæki um notendastýrða persónulega aðstoð, styrkti okkur til fararinnar ásamt öðrum löndum sem eru skammt á veg komin í baráttu fyrir sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks.
Fundurinn stóð yfir í tvo daga en þangað kom baráttufólk og fræðafólk frá ólíkum hópum til þess að skapa grundvöll fyrir þekkingaröflun, tengslamyndun og jafningjaráðgjöf. Fjallað var um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, helstu mannréttindasáttmála og gildi þeirra, ásamt því sem hvert land kynnti stöðu mála. Markmið fundarins var jafnframt að skoða stöðu Evrópusamtakana í dag út frá stöðu þeirra þjóða sem tóku þátt í fundinum og fjalla um hvernig þau gætu eflt samstöðu meðlima samtakanna til frekari árangurs hverrar þjóðar. Í ljós kom að sömu hindranir eru til staðar í ólíkum þjóðfélögum, mikill skortur er á sterkari lagaramma um réttindi fatlaðs fólks, t.d. gegn mismunun, og mikilvægt er að skapa sterkari grundvöll til jafningjaráðgjafar í hverju landi og alþjóðlega. Fundarmeðlimir voru sammála um að gera þyrfti átak í þessum málum og mun ENIL á næstu mánuðum skoða hvernig hægt er að bregðast við.
Freyja Haraldsdóttir, varaformaður stjórnar NPA stöðvarinnar, kynnti niðurstöður samvinnurannsóknar doktorsverkefnis Vilborgar Jóhannsdóttur, lektor í þroskaþjálfafræði og doktorsnema í fötlunarfræði, um innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð og hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf á Íslandi. Niðurstöðurnar lýsa vel stöðunni á Íslandi og beindi Freyja sérstaklega sjónum að áhrifum kreppunnar á þróunina í baráttu íslensks fatlaðs fólks fyrir sjálfstæðu lífi.
Íslenski hópurinn nýtti ferðina einnig til þess að skoða fleiri samvinnufyrirtæki í eigu fatlaðs fólks sem sérhæfa sig í ráðgjöf og utanumhaldi varðandi NPA. Samvinnufyrirtækið STIL (Stockholm independent living center), sem er það elsta í Svíþjóð, tók á móti stjórnarmeðlimum og kynnti þeim starfsemi sína, hugmyndafræði, sögulega þróun og helstu baráttumál. Adolf Ratzka, einn af helstu frumkvöðlum á Norðurlöndunum og víðar, bauð hópnum á sinn fund og veitti mikilvæga ráðgjöf og benti á þætti sem styrkja baráttuna og efla samstöðu fatlaðs fólks hér á landi.
Þessi ferð mun nýtast stjórn NPA miðstöðvarinnar á áframhaldandi vinnu sinni og skapaði tækifæri til alþjóðlegrar þáttöku og tengsla sem nauðsynleg er í því veigamikla og spennandi verkefni sem fatlað fólk á Íslandi á fyrir höndum.
Fyrir hönd stjórnar,
Freyja Haraldsdóttir, varaformaður
Embla Ágústsdóttir, meðstjórnandi