Kynning fyrir hagsmunasamtök á NPA miðstöðinni, hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og notendastýrðri persónulegri aðstoð

NPA miðstöðin svf. var stofnuð 16. júní 2010 og er samvinnufyrirtæki í eigu og undir stjórn fatlaðs fólks, rekin án fjárhagslegs ágóðasjónarmiðs.

Starfsemin er í startholunum en mikill hugur er í stjórnarmeðlimum og eigendum miðstöðvarinnar. Framundan er mikil uppbygging hjá miðstöðinni og hlökkum við mikið til þeirrar vinnu.

NPA miðstöðin hefur það markmið að veita fötluðu fólki á öllum aldri, sem kýs að nota beingreiðslur og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), stuðning við að sækja um þær (eða auka þær) hjá sveitarfélögum. Þegar beingreiðslur hafa verið samþykktar veitir miðstöðin aðstoð og ráðgjöf við starfsmannamál, svo sem að auglýsa eftir aðstoðarfólki, við ráðningar, launa- og skipulagsmál og fjölmörg praktísk atriði. Hún mun einnig veita fræðslu til fatlaðs fólks og aðstandenda.

Við hjá miðstöðinni viljum leggja mikla áherslu á að kynna komandi starfsemi okkar fyrir fötluðu fólki og fjölskyldum þess og hugmyndafræðina sem við störfum eftir um sjálfstætt líf. Með fræðslunni viljum við einnig veita innsýn inn í reynsluheim fatlaðs fólks á Íslandi sem er með beingreiðslur og persónulega aðstoð og þeirra sem nú eru í því ferli að sækja um beingreiðslur. Við teljum lykilatriði að fatlað fólk á Íslandi viti af okkur og möguleikanum á sjálfstæðu lífi með notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Við viljum af þeirri ástæðu bjóða samtökum fatlaðs fólks og aðstandenda upp á kynningu og fræðslu fyrir félagsmenn sína. Fræðslan getur farið fram þegar best hentar samtökunum og á þeim tíma dags/kvölds sem óskað er eftir. Fræðslan er samtökunum að kostnaðarlausu.

Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, mun hafa umsjón með fræðslunni og hægt er að hafa samband við hana á netfangið This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..