Nýjar launatöflur fyrir NPA aðstoðarfólk taka gildi
Samkomulag hefur náðst milli NPA miðstöðvarinnar og Eflingar/SGS um nýjar launatöflur fyrir NPA aðstoðarfólk sem kveða á um sömu hækkanir og gilda á almennum vinnumarkaði. Frekari vinna við útfærslu annarra þátta í sérkjarasamningnum bíður til haustins, en um þá þætti er enn farið skv. eldri sérkjarasamningi.
NPA miðstöðin sendi nú í morgun bréf til sveitarfélaga þar sem þeim er tilkynnt um hækkunina ásamt kröfu um að framlög til NPA samninga verði hækkuð til samræmis við nýjar launatöflur aðstoðarfólks, afturvirkt frá 1. apríl sl. Með bréfinu fylgdi afrit af samningi NPA miðstöðvarinnar og Eflingar ásamt útreikningi miðstöðvarinnar á nýjum jafnaðartaxta sem byggir á uppfærðum launatöflum ásamt forsendum.
Samkvæmt útreikningum NPA miðstöðvarinnar þurfa sveitarfélög að reikna út þrjá taxta, ef styðjast á við jafnaðartaxta á annað borð, þ.e. taxta fyrir sólarhringssamninga hjá notandum sem geta nýtt sér hvíldarvaktir, taxta fyrir sólarhringssamninga hjá notandum sem ekki geta nýtt hvíldarvaktir (vakandi næturvaktir) og svo taxta fyrir samninga sem ekki kveða á næturvinnu. Niðurstöður NPA miðstöðvarinnar eru eftirfarandi:
Fyrir sólarhringssamning hjá notanda sem ekki getur nýtt sér hvíldarvaktir þarf jafnaðartaxti að nema 4.913,04 kr. á klukkustund og heildar samningsfjárhæð á mánuði að nema 3.592.251 kr. (grænn taxti).
Fyrir sólarhringssamnig hjá notanda sem getur nýtt sér hvíldarvaktir þarf jafnaðartaxti að nema 4.476,54 kr. á klukkustund og heildar samningsfjárhæð á mánuði að nema 3.267.877 kr. (gulur taxti).
Jafnaðartaxti samninga sem eru án næturvakta (16 klst. á sólarhring) þarf að nema 4.733,62 kr. á klukkustund (blár taxti).
Útreikningar og forsendur koma fram í skjali NPA miðstöðvarinnar.
NPA miðstöðin bindur vonir við að sveitarfélög afgreiði þessa hækkun hratt og örugglega svo NPA notendur geti greitt aðstoðarfólki sínu kjarasamningsbundin laun.
Skjöl með útreikningum og fleiru:
2019.06.21_-_Bréf_til_sveitarfélaga_vegna_uppfærðra_kjarasamninga.pdf