Stjórn NPA miðstöðvarinnar svf ákvað  á fundi þann 18. nóvember sl., að ráða Freyju Haraldsdóttur sem framkvæmdastjóra NPA miðstöðvarinnar. Freyja hóf störf þann 1. desember sl. og mun starfa í 100% starfshlutfalli.

Verksvið hennar verður víðtækt – hún mun sjá um daglegan rekstur miðstöðvarinnar auk þess sem henni er falið að koma starfsemi hennar á gott skrið hvað varðar þjónustu við félagsmenn skv. samþykktum miðstöðvarinnar.

Freyja mun sjálf auglýsa viðtals- og símatíma þar sem félagsmönnum gefst kostur á að hafa samband við hana, leita aðstoðar eða koma hugmyndum á framfæri.

Samfara  ráðningu Freyju sagði hún af sér sem varaformaður í NPA miðstöðinni og hefur varamaður tekið sæti hennar í stjórn.

 

Freyja Haraldsdóttir hefur notað beingreiðslur frá árinu 2007 og er því sú manneskja hér á landi sem hvað mesta og lengsta reynslu hefur af því fyrirkomulagi. Freyja hefur sótt námskeið og fræðslu um NPA erlendis, setið ráðstefnur og er í góðu persónulegu sambandi við fólk sem hefur langa reynslu af NPA og baráttunni fyrir sjálfstæðu lífi í sínu heimalandi. Freyja hefur, um árabil, miðlað af reynslu sinni sem fötluð kona – kona sem hefur þurft að búa við alvarleg mannréttindabrot, en reis upp og krafðist uppskurðar á kerfinu.

Stjórn NPA miðstöðvarinnar er afar ánægð með að eiga þess kost að njóta starfskrafta Freyju og er þess fullviss að barátta hennar fyrir NPA og hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf á eftir að skila fötluðu fólki á Íslandi mikilli réttarbót.