Æskilegt er að byrja tímanlega að huga að skipulagi orlofs aðstoðarfólks, þ.e. hvenær aðstoðarfólk tekur sumarfrí. Röskun á aðstoð við verkstjórnendur í tengslum við sumarfrí aðstoðarfólks verður líklega minni, sé sumarfrí skipulagt tímanlega. Einnig er það líklegt til að koma sér vel fyrir aðstoðarfólk sem í sumum tilvikum þarf sjálft að skipuleggja sín sumarfrí með góðum fyrirvara,t.d. vegna sumarlokana í leik- og grunnskólum eða ferðalaga. Ágætt er að miða við að sumarfrístími aðstoðarfólks liggi að mestu leyti fyrir í mars eða apríl.Verkstjórnandi verður að tilkynna aðstoðarfólki sínu um hvenær orlof skal hefjast, í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs á hverjum tíma.


Orlofsréttindi

 • Orlofstímabil nær frá 2. maí til 30. september ár hvert.
 • Ef aðstoðarfólk vill fá frí á öðrum tima ársins en á milli 2. maí og 30. september, getur þú veitt það ef það gengur upp þín vegna
 • Lágmarksorlof er 24 virkir dagar
 • Í upphafi hvers orlofstímabils, maí ár hvert, eru orlofslaun greidd til aðstoðarfólks. Sú greiðsla er laun aðstoðarfólks í sumarfríi, burt séð frá því hvernær það tekur sumarfrí

Afleysingar og endurskipulagning

Í fjarveru aðstoðarfólks getur þú mögulega þurft að ráða tímabundið aðstoðarfólk í afleysingar, breyta starfshlutföllum eða endurskipuleggja þig, sé það hægt.

Samskipti

 • Byrjaðu sem fyrst að ræða fyrirhugað sumarfrí við þitt aðstoðarfólk og heyra hverjar þeirra óskir eru.
 • Mikilvægt er að upplýsa aðstoðarfólk um að það sé möguleiki að þau geti ekki öll fengið sumarfrí á þeim tíma sem hentar því best, til dæmis ef mörg vilja fara í sumarfrí á sama tíma
 • Mikilvægt er að halda samskiptum við aðstoðarfólk opnum og upplýsingagjöf góðri, til dæmis um áætlanir og óskir, enda er það líklegt til að minnka óvissu og þar með að skapa góðan anda.

Athugið að félagsfólk NPA miðstöðvarinnar hefur aðgang að

 • Ítarefni um skipulag vakta yfir hátíðar
 • Eyðublaði þar sem hægt er að skrá inn sumarfrí starfsfólks
 • Sérstökum ferðasamningum fyrir aðstoðarfólk áður en haldið er upp í ferðalög
 • Sérstakri handbók fyrir verkstjórnendur

 

Myndlýsing: Myndin er af fallegu sólsetri þar sem sólin gyllir himininn. Á myndinni má einnig sjá græn tún, tré með grænum laufum og sólblóm með gulum blöðum og brúnni miðju.
Mynd: Freepik
Mynd á forsíðu: Freepik Mindandi