Komst út í skóg með fjölskyldunni í fyrsta sinn í átta ár

Margrét Lilja Arnheiðardóttir, formaður Sjálfsbjargar Landssambands hreyfihamlaðra, hefur fengið að prófa jafnvægisshjólastól frá Öryggismiðstöðinni og segir tilfinninguna ólýsanlega.
Á aðalfundi Sjálfbjargar 2022 var Margrét Lilja kosin formaður landssambandsins en hún er yngst til að gegna því embætti síðan Sjálfsbjörg var stofnað árið 1961. Margrét er 27 ára og hefur verið einn af eigendum NPA miðstöðvarinnar síðan í lok árs 2019. Helstu áhugamál hennar eru útivist, tölvuleikir og félagsstörf.
Í formannstíð sinni hefur Margrét verið í miklu samstarfi við Öryggismiðstöðina um hjálpartæki fyrir fatlað fólk. „Og í gegnum það samstarf fékk ég þetta tækifæri.“ Margrét fékk jafnvægishjólastólinn í hendurnar um páskana til að prófa og var með hann í rúma viku. Eftir að hafa prófað jafnvægishjólastólinn ákvað Margrét að senda inn umsókn fyrir stólnum til Sjúkratrygginga Íslands. Umsókn hennar var hafnað á þeirri forsendu að rafmagnshjólastólar væri með fjögur til sex hjól, sem jafnvægishjólastóllinn hefur ekki. Margrét hefur kært þá niðurstöðu.
Getur farið um nánast allt
Hvaða eiginleikum býr jafnvægishjólastóllinn yfir umfram rafmagnshjólastóla? Margrét segir að hinn dæmigerði jafnvægishjólastóll sé með tvö stærri hjól í stað fjögurra smárra. „Þannig að þeir komast yfir mun meiri ójöfnur og hærri kanta. Maður er ekki bundinn við að ferðast eftir stígum heldur getur maður farið um nánast allt.“
Eykur frelsið og bætir líkamlega heilsu
Að sögn Margrétar Lilju hefur jafnvægisstólinn marga kosti, ekki bara fyrir hana persónulega heldur fyrir fatlað fólk almennt. „Hann eykur frelsið! Einnig ber að nefna að fyrir þá sem jafnvægisstóllinn hentar vel, fylgir bætt líkamleg heilsa þar sem vöðvar í búknum styrkjast og virkni meltingarkerfisins eykst.“ Þá segir Margrét að það sé mikilvægt að hafa val um fjölbreyttari tækni þegar kemur að hjólastólum og að fólk geti valið hvað henti því og þeirra lífsstíl. „Ekkert eitt hentar öllum og því skiptir það sköpum að ný tækni komi inn á markaðinn.“
Magnað frelsi
En hvernig upplifun var það fyrir Margréti Lilju að vera komin með hjólastól sem fer utan alfaraleiðar og út fyrir hinn hefðbundna göngustíg? „Hún var ólýsanleg. Ég fór í sveitina og í fyrsta skipti í átta ár komst ég með fjölskyldunni sjálfstætt út í skóg, út á tún og fékk sömu upplifun eins og allir aðrir. Frelsið var magnað!“
Fer í göngutúra án hindrana
Eins og fram hefur komið fylgir jafnvægisstólnum mikið frelsi og með tilkomu hans getur Margrét gert margt sem hún gat ekki áður. „Ég get farið í göngutúra þegar mér hentar, brunað um allt án þess að gangstéttakantar eða annað séu einhverjar hindranir og komist um hjálparlaust í nánast hvaða umhverfi sem er.“
Auknir möguleikar í útivist
Eitt af áhugamálum Margrétar er útivist og ástundun hennar. Hún segir að jafnvægishjólastóllinn opni á möguleika til útivistar aftur og auki möguleikana þegar kemur að útivist verulega. „Grófir malarvegir, gras, sandur, mjúkt undirlag, hart undirlag, bara nefndu það. Það eru engar hindranir lengur,“ segir Margrét.
Tímabært að endurskoða mál tengd hjálpartækjum
Hjálpartæki og tækni þeim tengdum eru í stöðugri framþróun og segir Margrét að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að fylgja þróuninni. „Jafnvægishjólastólar hafa verið til í næstum því áratug í Evrópu og hafa aukið lífsgæði mörg þúsund manns. Það er kominn tími til að við endurskoðum hjálpartækjamál hér á landi,“ segir Margrét Lilja að lokum.
Myndatexti og myndlýsing: Margrét Lilja Arnheiðardóttir, formaður Sjálfsbjargar, á jafnvægishjólastólnum ásamt Stefáni E. Hafsteinssyni iðjuþjálfi og vörustjóri fyrir Velferð hjá Öryggismiðstöðinni. Margrét er með hárið í tagli, klæðist ljósblárri skyrtu, svörtum buxum og situr í rauðum jafnvægishjólastól.í ljósbláum buxum og rauðum jafnvægishjólastól. Stefán stendur við hlið hennar í dökk blárri skyrtu og ljósum buxum.
Ágústa Arna skrifar