Aðalfundur NPA miðstöðvarinnar samþykkti síðastliðinn laugardag, 20. maí, kjarasamninga NPA miðstöðvarinnar við Eflingu og Starfsgreinasambandið um kjör aðstoðarfólks og sérkjarasamning um heimil frávik frá vakta- og hvíldartíma, sem undirritaður var þann 9. maí. Áður hafði samningurinn verið samþykktur af félagsfólki Eflingar sem starfar hjá NPA miðstöðinni þann 19. maí síðastliðinn. 

 

Uppfærðir jafnaðartaxtar vegna hækkunar kjarasamnings 2023 05 Jafnadartaxtar mjorra
Um leið og endanlegur kjarasamningur lá fyrir tók NPA miðstöðin saman útreikninga fyrir uppfærða jafnaðartaxta vegna NPA samninga. Miðstöðin hefur frá árinu 2018 tekið saman slíka útreikninga fyrir sveitarfélög til að miða framlög sín til NPA við, en útreikningarnir miðast við gildandi kjarasamning NPA aðstoðarfólks hverju sinni. 

Kjarasamningar 2022
NPA miðstöðin hefur frá árinu 2013 gert kjarasamninga við Eflingu og Starfsgreinasambandsið um störf NPA aðstoðarfólks. Á árinu 2022 var útfærður nýr kjarasamningur fyrir NPA aðstoðarfólk þar sem innleiddar voru nokkrar breytingar á kjaraumhverfi NPA aðstoðarfólks, þ.a.m. stytting vinnuvikunnar. Sá samningur hafði hins vegar stuttan gildistíma og rann út þann 1. nóvember sl. líkt og aðrir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði.

Í kjölfarið tók við nokkuð átakatímabil og langar kjaraviðræður milli aðila vinnumarkaðarins með tilheyrandi verkfallsboðunum og verkbönnum. Jafnframt ákvað Efling að slíta sig frá Starfsgreinasambandinu í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins og hafa nú formlega gengið úr sambandinu.

Nýir samningar að veruleika
Í apríl síðastliðnum hófust samningaviðræður NPA miðstöðvarinnar við Eflingu og Starfsgreinasambandið. Niðurstaðan úr þeim samtölum var að samþykkja nýja launatöflu fyrir NPA aðstoðarfólk sem gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024 og sem tryggir NPA aðstoðarfólki sambærilegar kjarahækkanir og áttu sér stað á almennum vinnumarkaði. Þá er skrifað undir bókun þess efnis að Efling, Starfsgreinasambandið og NPA miðstöðin muni standa sameiginlega að gerð nýs heildarkjarasamnings fyrir NPA aðstoðarfólk, þar sem áhersla verður lögð á meiri skýrleika og aðgengilegri samning, þar sem öll viðeigandi ákvæði um kjör og kjarareglur NPA aðstoðarfólks verða til staðar í einu skjali en sú hefur ekki verið raunin hingað til.

Hærri jafnaðartaxtar og viðbrögð sveitarfélaga
NPA miðstöðin hefur nú sent sveitarfélögum bréf með upplýsingum um nýja kjarasamninga og útreikninga fyrir nýjum jafnaðartaxta. Sveitarfélögum ber að miða greiðslur vegna NPA samninga út frá gildandi kjarasamningum og þar sem kjarasamningar hafa tekið breytingum ber sveitarfélögum að uppfæra sína taxta.

Í gegnum tíðina hefur gengið misjafnlega að fá sveitarfélög til þess að uppfæra jafnaðartaxta vegna launahækkana NPA aðstoðarfólks. Mörg sveitarfélög hafa beðið með að leiðrétta taxta þar til mörgum mánuðum eftir að þeir tóku gildi, þrátt fyrir skýra skyldu þeirra til þess að fylgja kjarasamningsbundnum launahækkunum.

NPA miðstöðin mun halda áfram að þrýsta á sveitarfélög um að hækka sína jafnaðartaxta og berjast fyrir skilvirkari framkvæmd greiðslna. Ef þurfa þykir, mun NPA miðstöðin jafnframt leita til lögfræðings til að innheimta kröfur félagsfólks á hendur sveitarfélögum, eins og gert var í fyrra með góðum árangri.