Áralöng kyrrstaða á enda - loksins fjölgar NPA samningum!

Þær stórgóðu fréttir bárust nýlega að til stæði að hækka framlög ríkisins til NPA samninga um nær 50% á komandi ári. Þessar jákvæðu breytingar á fjárlagafrumvarpi ársins 2023 eru afrakstur mikillar baráttu af hálfu fatlaðs fólks.
Samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu er gert ráð fyrir allt að 50 nýjum NPA samningum á næsta ári. NPA miðstöðin telur þó rétt að taka þessari tölu um fjölgun samninga með fyrirvara. Ólíklegt þykir, út frá fyrirliggjandi kostnaðargreiningu á NPA samningum sem eru í gildi, að áætlað viðbótarfjármagn dugi fyrir 50 nýjum samningum. Engu að síður, ætti þessi innspýting að stytta biðlista eftir NPA verulega og því ber að fagna þar sem fjöldi samninga hefur nær staðið í stað um talsvert langt skeið.
Samkvæmt fyrstu drögum fjárlagafrumvarps, hafði ríkið ætlað að leggja fram óbreytta upphæð til NPA frá árinu á undan. Sú upphæð hefði ekki einu sinni dugað fyrir núgildandi NPA samningum, að teknu tilliti til kjarabóta aðstoðarfólks á liðnu ári.
Fjöldi NPA samninga ekki verið í samræmi við lög
Í gegnum tíðina hefur NPA miðstöðin fengið þau svör frá Alþingi að fjármögnun NPA samninga væri samkvæmt upprunalegri kostnaðaráætlun frá 2017 og að ekki þurfi meira fjármagn til NPA samninga þar sem engir væru á biðlista eftir NPA. Ríkið borgar 25% mótframlag við hvern NPA samning og sveitarfélög sögðu á sama tíma að ekki væri hægt að fjölga samningum þar sem skortur væri á fjármunum frá ríkinu. Þetta leiddi til þess að NPA samningum fjölgaði ekki í takt við það sem kveðið var á um í lögum. Samkvæmt þeim hefðu samningarnir átt að vera orðnir allt að 172 talsins í ár en eru í dag einungis um 95.
Upplýsingum um NPA biðlista safnað
Til að mæta þessari pattstöðu beitti formaður NPA miðstöðvarinnar sér sérstaklega fyrir því að nefnd um endurskoðun laga 38/2018 aflaði gagna um biðlista eftir NPA. Var það í fyrsta sinn sem slíkum upplýsingum um NPA biðlista á landsvísu hafði verið safnað saman með formlegum hætti. Loks var hægt að sýna fram á mikla þörf fatlaðs fólks fyrir NPA. Auk þess lagðist NPA miðstöðin á þessu ári í gagnaöflun og rýndi m.a. ýtarlega í upphaflega áætlun Alþingis um framlög ríkisins vegna innleiðingar NPA. Í ljós komu verulegir ágallar í áætluninni sem hafði verið stuðst við allar götur síðan og valdið verulegri vanáætlun á fjárþörf við innleiðingu NPA undanfarin ár.
Tímamótasamstarf
NPA miðstöðin tók ofangreint saman í umsögn um fjárlagafrumvarpið síðastliðinn október og vakti umsögnin mikla athygli hjá sveitarfélögum, á Alþingi, ráðuneytinu og víðar. Svo fór að bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og ÖBÍ tóku formlega undir umsögn NPA miðstöðvarinnar við Alþingi.
Til þess að reka smiðshöggið á þennan hluta baráttunnar stofnaði NPA miðstöðin til sérstaks samráðshóps um áframhaldandi innleiðingu NPA. Í byrjun sátu í hópnum fulltrúar ÖBÍ, Þroskahjálpar og Fræðaseturs í fötlunarfræðum. Í framhaldinu var fundað með formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem sammælst var um að koma fram með sameiginlega kröfu um áframhaldandi innleiðingu NPA.
Hækkun mótframlags ríkisins
Samráðshópur NPA miðstöðvar, ÖBÍ, Fræðaseturs í fötlunarfræðum og Sambands íslenskra sveitarfélaga kynnti svo sameiginlegt minnisblað fyrir forsætisráðherra og félagsmálaráðherra, á fundi þann 4. nóvember síðastliðinn þar sem skorað var á íslenska ríkið að koma inn með afgerandi hætti og styðja NPA þjónustuformið sem veitir fötluðu fólki sjálfsögð mannréttindi. Nú liggur niðurstaðan loks fyrir - mótframlag ríkisins til NPA verður hækkað um 50% og NPA samningum fjölgað myndarlega á næsta ári.
Mikilvægur áfangi
NPA miðstöðin hefur barist ötullega fyrir auknu fjármagni til NPA samninga og fagnar fyrirhugaðri fjölgun þeirra gríðarlega. Þessi áfangi þýðir að fleira fatlað fólk mun njóta réttarins til sjálfstæðs lífs. Áfram munum við svo standa vaktina og þrýsta á um að ríkið standi við áætlanir um fjölgun samninga á næsta ári og til framtíðar.