Sögulegt samstarf hagsmunafélaga fatlaðs fólks og sveitarfélaga

Hagsmunasamtök fatlaðs fólks og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu einhuga að baki þeirri kröfu að forgangsmál væri að eyða óvissu um áframhaldandi þátttöku ríkisins í fjármögnun NPA þjónustuformsins á næstu árum, á fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðmundi Inga félags- og vinnumarkaðsráðherra, síðastliðinn föstudag.

Skorað var á ráðherrana að beita sér fyrir því að framtíðar-fyrirkomulag NPA verði treyst í sessi, að fjármögnun verði tryggð til þess að fjölga NPA samningum og jafnframt að svartími og bið eftir þjónustuforminu verði í takt við gerðar áætlanir.

 Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður NPA miðstöðvarinnar og Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur, sátu fundinn fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar. Auk þeirra voru fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og fræðasamfélaginu.

Tilefni samstarfsins og fundarins er m.a. að núna um áramótin rennur út bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir en það fjallar um innleiðingu NPA og samstarf milli ríkis og sveitarfélaga á því sviði.

 

9.11. 2022

NPA miðstöðin