Aðalfundur NPA miðstöðvarinnar var haldinn þann 28. maí síðastliðinn.

Formaður NPA miðstöðvarinnar
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson var kosinn formaður NPA miðstöðvarinnar.

Stjórn NPA miðstöðvarinnar
Eftirfarandi félagsfólk var kosið í stjórn NPA miðstöðvarinnar og hefur síðan þá haldið sinn fyrsta stjórnarafund og skipt með sér verkum sem hér segir:
Hallgrímur Eymundsson, gjaldkeri
Ágústa Arna Sigurdórsdóttir, meðstjórnandi
Salóme Mist Kristjánsdóttir, meðstjórnandi
Þorbera Fjölnisdóttir, meðstjórnandi

Varastjórn
Jóna Elísabet Ottesen, fyrsti varamaður
Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, annar varamaður
Þorsteinn Sturla Gunnarsson, þriðji varamaður

Starfstímabilið 16. júní 2021 til 28. maí 2022
Starfssemi NPA miðstöðvarinnar einkenndist af mikilli innri uppbyggingu, auknu félagsstarfi og þjónustu við félagsfólk og öflugu fræðslustarfi en NPA miðstöðin hleypti af stokkunum NPA grunnnámskeiðsröð NPA miðstöðvarinnar haustið 2021. Auk þess setti kórónaveirufaraldurinn áfram nokkuð mikið mark á starfsemi miðstöðvarinnar. Auk daglegra verkefna sem felast í umsýslu NPA samninga félagsfólks og þjónustu við félagsfólk og aðstoðarfólk, voru neðangreind verkefni áberandi í starfi miðstöðvarinnar á síðastliðnu starfsári (en listinn er langt í frá tæmandi):

  • Upplýsingagjöf vegna örvunarbólusetninga og verkefni tengd afléttingu hafta sökum heimsfaraldurs.
  • Bakvarðasveit NPA miðstöðvarinnar var komið á fót.
  • NPA miðstöðin stóð fyrir grunnnámskeiðsröð NPA miðstöðvarinnar, jafningjaspjöllum, félagsfundum, skemmtiviðburðum, fræðslu í skólum og félagasamtökum og víðar.
  • NPA miðstöðin miðlaði ýmis konar upplýsingum á miðlum NPA miðstöðvarinnar, auk þess að vekja athygli á málefnum tengdum NPA með greinaskrifum og viðtölum í fjölmiðlum o.fl.
  • Kláruð var vinna við siðasáttmála og aðgerðaáætlun NPA miðstöðvarinnar gegn einelti, áreitni og ofbeldi og hvort tveggja samþykkt á aðalfundi 28. maí. Nú á eingöngu eftir að útbúa upplýsinga- og tilkynningasvæði á netinu vegna siðavanda.
  • NPA miðstöðin hafði frumkvæði að og hafði aðkomu að ýmiskonar hagsmunagæslu og réttindamálum, skrifaði margar umsagnir um lagafrumvörp o.fl.
  • NPA miðstöðin á í ýmis konar samstarfi og samráði við sveitarfélög og ríki.
  • NPA miðstöðin átti í kjarasamningsviðræðum við Eflingu og nýir kjarasamningar voru samþykktir.
  • Vakta- og tímaskráningarkerfið Tímon var tekið í almenna notkun og fleiri kerfislausnir voru teknar upp og/eða voru í þróun.


Ársskýrsla NPA miðstöðvarinnar 2022
Hér er hlekkur þar sem sjá má ársskýrslu NPA miðstöðvarinnar fyrir starfstímabilið 16. júní 2021 til 28. maí 2022.