Verkefni NPA miðstöðvarinnar 2021

Í byrjun árs er kjörið að líta yfir farinn veg og verkefni nýliðins árs. Í dag er félagsfólk NPA miðstöðvarinnar 54 talsins og aðstoðarfólk um 245. Hin daglegu störf starfsfólks á skrifstofu felast helst í ráðgjöf og aðstoð til verkstjórnenda og aðstoðarfólks (um 300 manns) við hin ýmsu verkefni sem tengjast NPA, auk fjárhagslegrar umsýslu NPA samninga. Hér er yfirlit yfir helstu verkefnin.
COVID-19
Ólukkans gesturinn sem hefur hrellt heimsbyggðina undanfarin tvör ár, hafði sannarlega áhrif á líf okkar allra árið 2021.Verkefni tengd C-19 hafa verið drjúg og tímafrek. Má þar nefna:
- Öflun upplýsinga og samantekt leiðbeininga vegna COVID-19 sem birtar voru á sérstöku svæði á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar og á Facebook.
- Hagsmunavarsla: NPA miðstöðin minnti á NPA notendur og fatlað fólk hvað varðar bólusetningar víða innan heilbrigðiskerfsins og aflaði upplýsinga um hvar í forgangshópi félagsfólk og aðstoðarfólk myndi lenda. Þetta krafðist gjarnan margra símtala og pósta enda svörin stundum mísvísandi, sérstaklega í upphafi bólusetninga. NPA miðstöðin miðlaði upplýsingum um forgangsröðun og stöðu bólusetninga á samfélagsmiðlum og ávallt barst nokkur fjöldi fyrirspurna í kjölfar slíkra pósta.
- Bólusetningarlistar: NPA miðstöðin hélt utan um bólusetningarlista fyrir félagsfólk og aðstoðarfólk NPA miðstöðvarinnar, samtals um 300 manns. Þessu verkefni fylgdi mikil umsýsla og lauk ekki fyrr en í júní. Ástæðan var m.a. sú að ekki var hægt að senda út bólusetningarlista fyrir allt landið í einu þar sem það var ekki samræmi á milli landshluta varðandi það hvenær tilteknir forgangshópar voru bólusettir. Þar sem fjöldi félagsfólks breytist öðru hvoru og listi yfir aðstoðarfólk breytist í hverjum mánuði, var talið rétt að senda ekki lista fyrir hvorn hóp fyrr en rétt um það leyti sem bólusetning þess hóps hófst í hverjum landshluta. Undir það síðasta þurfti svo að senda lista yfir nýtt NPA aðstoðarfólk í kjölfar hverra mánaðamóta.
- Aðstoð: NPA miðstöðin aðstoðaði félagsfólk með ýmsum hætti vegna C-19. Ef grunur um smit lá fyrir, leitaðist NPA miðstöðin við að svara spurningum, afla upplýsinga og gagna og aðstoða eftir þörfum. NPA miðstöðin útvegar svokallaðan startpakka sem innheldur hlífðarbúnað og hefur komið pakkanum til félagsfólks sem hefur smitast.
- Smitgát: Eftir að smitgát varð að veruleika leitaði NPA miðstöðin upplýsinga um réttindi aðstoðarfólks í smitgát til launagreiðslna og ýmislegt fleira mætti nefna.
Siðasáttmáli og aðgerðaáætlun NPA miðstöðvarinnar
Á vormánuðum hóf NPA miðstöðin vinnslu siðasáttmála og aðgerðaáætlunar gegn einelti, áreitni og ofbeldi.Vegna sérstöðu NPA miðstöðvarinnar sem vinnustaðar, krafðist vinna við gerð siðasáttmálans ýtarlegri yfirlegu heldur en yfirleitt er nauðsynleg. Ráðgjafafyrirtækið Hagvangur leiddi vinnuna og höfðu ráðgjafar Hagvangs á orði að þær hefðu lært mikið af samstarfinu þar sem rýna þurfti nákvæmar og með öðrum hætti í alla þætti en yfirleitt er þörf á að gera.
Samráð
Allra leiða var leitað til að gefa bæði félagsfólki og aðstoðarfólki kost á að taka þátt í þróun siðasáttmálans. Félagsfólki og aðstoðarfólki var boðið að taka þátt í rýnihópavinnu og jafnframt var send spurningakönnun út til alls félagsfólks og aðstoðarfólks. Hvort tveggja var gert í viðleytni til að fá álit allra hlutaðeigandi á ýmsum álitamálum sem voru til umræðu við vinnslu siðasáttmála og aðgerðaáætlunar.
Tilbúið á næstu mánuðum
Siðasáttmálinn og aðgerðaáætlun veitir NPA miðstöðinni skýra verk- og viðbragðsferla í tilteknum málum og ættu að vera góður leiðarvísir í öðrum málum. Hvort tveggja er nánast tilbúið og verður kynnt fyrir félagsfólki og aðstoðarfólki þegar líður nær vori.NPA miðstöðin þakkar Ragnari Gunnari Þórhallssyni, félaga í NPA miðstöðinni og fyrrum stjórnarmanni fyrir ríkulegt vinnuframlag við gerð siðasáttmálans og aðgerðaáætluninnar.
NPA grunnnámskeið NPA miðstöðvarinnar
Í október hleypti NPA miðstöðin af stokkunum sex hluta námskeiðsröð um NPA. NPA miðstöðin er stolt af því að námskeiðin eru unnin undir leiðsögn NPA verkstjórnenda og í samstarfi við verkstjórnendur og aðstoðarfólk eins og kostur er. Sjá má upplýsingar um námskeiðsröðina í þessum hlekk.
NPA grunnnámskeið 1 var haldið 27. október 2021 og var í það skiptið fjallað um hugmyndafræði NPA og sögu sjálfstæðs lífs. Nánari upplýsingar um námskeið 1 má sjá í þessum hlekk.
Á námskeiði 2, sem haldið var fimmtudaginn 18. nóvember, var fjallað um hlutverk, ábyrgð og samskipti í NPA. Sjá má nánari upplýsingar um námskeið 2 í þessum hlekk.
NPA námskeið 3 var haldið miðvikudaginn 9. febrúar og var fjallað um aðbúnað og hollustuhætti í NPA, hlutverk umsýsluaðila og loks verkefni og þjónustu NPA miðstöðvarinnar. Frekari upplýsingar um NPA námskeið 3 má finna í þessum hlekk.
Skemmtiviðburðir
Mörg systurfélög NPA miðstöðvarinnar á Norðurlöndunum bjóða ekki eingöngu upp á námskeið um NPA heldur einnig námskeið um ýmislegt annað, t.d. námskeið í sjálfseflingu og konfektgerð, svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt bjóða þau upp á ýmis konar skemmtiviðburði. Að sjálfsögðu er misjafnt í svona félagsskap hvað höfðar til hvers og eins og hversu mikið fólk vill sækja viðburði hjá sínu umsýslufélagi. Á heildina er þetta hins vegar vel sótt og fyrir marga er fengur í því að geta skemmt sér með jafningjum og án þess að hafa áhyggjur af aðgengi. Námskeið GIL í Svíþjóð má t.d. sjá í þessum hlekk.
Óskir um annars konar viðburði
Fram höfðu komið óskir frá bæði félagsfólki og aðstoðarfólki um að miðstöðin byði upp á viðburði sem ekki hefðu beina tengingu við NPA og steig NPA miðstöðin fyrstu skrefin í þessa átt síðastliðið haust þegar samkomutakmarkanir vegna C-19 voru vægari en verið hafði. Helgina 1.-3. október var haldin LAN helgi NPA miðstöðvarinnar og hélt Andri ráðgjafi utan um skipulagningu þess. Föstudaginn 29. október var svo haldið Hrekkjavökustuð og átti Nicky, eiginkona Rúnars formanns, heiðurinn af skreytingum á svæðinu. Báðir viðburðir voru fámennir en mæltust vel fyrir af þeim sem mættu.Til stóð að halda fyrsta jólaball NPA miðstöðvarinnar í desember en þegar nær dró var C-19 staðan aftur orðin slík að fallið var frá þeim áformum.Hugur miðstöðvarinnar stendur til þess að halda öðru hvoru skemmtiviðburði af einhverjum toga en við erum að prufa okkur áfram hvað þetta varðar og munum á einhverjum tímapunkti leita álits félagsfólks varðandi framhaldið.
Jafningjaspjall
Árið 2021 voru haldin tvö jafningjaspjöll. Á öðru þeirra var kynning á Alvican neyðarhnappinum en á hinu var megin umræðuefnið mögulegir félags- og fræðsluviðburðir fyrir félagsfólk og aðstoðarfólk. Stefnt er að því að halda jafningjaspjall reglulega á nýju ári.C-19 hefur að sjálfsögðu lagt hömlur á námskeiðs- og viðburðahald á vegum NPA miðstöðvarinnar á nýliðnu ári – hætt hefur verið við fyrirhugaða viðburði/námskeið eða þeim frestað. Ennþá eru aðstæður ekki hvetjandi til viðburðahalds. Námskeið 3 sem haldið var núna í vikunni var rafrænt en fyrirkomulag annarra námskeiða og/eða viðburða verður svo ákveðið hverju sinni í aðdraganda þeirra.
Fræðsla og kynningarstarf
Reglulega er leitað til NPA miðstöðvarinnar og óskað eftir fræðslu um NPA. Í lok síðasta árs hélt NPA miðstöðin t.d. fyrirlestur um NPA í Háskóla Íslands og ekki er langt síðan haldinn var fyrirlestur í grunnskóla og hjá sjúklingasamtökum. NPA miðstöðin vonast til að geta smám saman aukið fræðslu sína út á við, enda teljum við fræðslu styðja við NPA notendur og framkvæmd NPA á landinu og stuðla vonandi að minni fordómum.NPA miðstöðin lítur á það sem hluta af sinni skyldu að vekja athygli á ýmsu því sem tengist baráttunni vegna NPA. Í því felst m.a. að mæta í viðtöl í fjölmiðlum og skrifa greinar.
Hérna má sjá það helsta frá starfsfólki og stjórnarfólki NPA miðstöðvarinnar en auk þess eru að sjálfsögðu ýmsir félagar í NPA miðstöðinni duglegir að láta í sér heyra.
- Rúnar, formaður NPA miðstöðvarinnar var í Spjallinu með Góðvild og var viðtalið birt í 28. desember, sjá þennan hlekk.
- Viðtal við Rúnar Björn á mbl.is þann 19. desember, sjá þennan hlekk.
- Hjörtur Örn Eysteinsson framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar var í viðtali á mbl.is og birtist það 14. desember, sjá þennan hlekk.
- Rúnar Björn skrifaði grein sem birtist á Vísi 10. desember og bar hún yfirskriftina „Niðurskurður á mannréttindum fatlaðs fólks“, sjá þennan hlekk.
- Rúnar lagði inn kæru vegna framkvæmdar þingkosninga og má sjá frétt um það í þessum hlekk.
- Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir stjórnarkona NPA miðstöðvarinnar skrifaði um atvinnutækifæri ungs fatlaðs fólks og birtist greinin á Vísi þann 28. september, sjá þennan hlekk.
- Rúnar Björn og Katrín Oddsdóttir skrifuðu um hvernig fötluðu fólki er enn neitað um NPA og birtist greinin þann 14. september á Vísi, sjá hlekk.
- Rúnar Björn og Hjörtur mættu á Fréttavaktina og ræddu m.a. hvernig hvorki ríki né sum sveitarfélög hafi staðið við skuldbindingar sínar þegar kemur að NPA. Viðtalið birtist 8. september, sjá hlekk.
- Salóme Mist Kristjánsdóttir sem varð stjórnarkona NPA miðstöðvarinnar á aðalfundi síðastliðið vor, var í viðtali þann 23. janúar þar sem hún lýsti yfir áhyggjum af því að sumir hópar fatlaðs fólks gleymdust við boðun í bólusetningar, sjá hlekk.
Instagram kynningarátak
Dagana í kringum 5. maí, Evrópudag um sjálfstætt líf, stóð NPA miðstöðin fyrir kynningarátaki á Instagram. Nokkrir meðlimir NPA miðstöðvarinnar voru gestir á Instagram reikningi miðstöðvarinnar í einn dag og gáfu fólki innsýn í líf sitt með NPA. Hluti af Instagram færslunum var svo birtur á Facebook. NPA miðstöðin þakkar þeim kærlega fyrir sem tóku þátt.Loks ber að nefna að NPA miðstöðin heldur úti virkri Facebook síðu þar sem miðlað er fjölbreyttu efni um málefni fatlaðs fólks. Auk þess er miðstöðin mis virk á Instagram, Pinterest og Youtube og sér jafnframt um Facebook hópinn „Sjálfstætt líf og NPA á Íslandi“.
Hagsmunavarsla
NPA miðstöðin er ekki eingöngu umsýslufélag heldur einnig hagsmunafélag og skipar hagsmunavarsla nokkuð stóran sess í starfi NPA miðstöðvarinnar enda var NPA miðstöðin í upphafi stofnuð sem baráttusamtök fyrir réttinum til NPA. Ýmsir vankantar hafa verið á framkvæmd innleiðingarferlis NPA undanfarin 11 ár og í sumum tilvikum hafa lög verið brotin. Þetta hefur ítrekað krafist viðbragða NPA miðstöðvarinnar og gerir enn. Segja má að hið opinbera sé búið að eyða allt of miklum tíma NPA miðstöðvarinnar í hagsmunabaráttu, tíma sem æskilegt hefði verið að nýta í uppbyggingu og innra starf NPA miðstöðvarinnar. Undanfarin 1-2 ár hefur þó færst aukinn kraftur í innra starf miðstöðvarinnar, þó heimsfaraldur hafi sett svolítið strik í reikninginn hvað það varðar.
Gagnvart sveitarfélögum
Meðal þess sem NPA miðstöðin hefur þurft að berjast fyrir er það að sveitarfélög fari eftir reglugerðum, t.d. að framlag sem þau greiða fyrir hverja NPA klst. sé nógu hátt til að greiða laun aðstoðarfólks samkvæmt kjarasamningum. Borið hefur á því að sveitarfélög greiði ekki samkvæmt kjarasamningum sem hefur svo leitt til þess að notandi hefur þurft að skera niður sína þjónustutíma til að geta greitt samkvæmt kjarasamningum. Þ.e. sum sveitarfélög borga það lágt tímakaup að notandi getur ekki nýtt alla tímana sem honum er úthlutað. NPA miðstöðin hefur einnig ítrekað gert athugasemdir við afgreiðslu sveitarfélaga á NPA umsóknum og drátt þar á. Einnig þarf gjarnan að hafa fyrir því að fá aukin réttindi til handa notendum NPA miðstöðvarinnar, t.d. fleiri tíma eða aðstoðarverkstjórn o.s.frv.
Gagnvart ríkinu
NPA miðstöðin hefur einnig ítrekað gert athugasemdir við að ríkið hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar varðandi fjölgun NPA samninga samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Formaður NPA miðstöðvarinnar hefur skrifað pistla og mætt í viðtöl til að vekja athygli á þessu og hefur talsverð vinna falist í því, m.a. að afla upplýsinga, annast útreikninga, samskipti við kjörna fulltrúa á Alþingi og innan sveitarstjórna, ráðuneyti, samband sveitarfélaga og sveitarfélögin sjálf. Samkvæmt fyrirhuguðu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 lá fyrir niðurskurður í framlögum ríkisins til NPA. NPA miðstöðin skrifaði umsögn um fjárlögin og mótmælti niðurskurðinum harðlega. Sem betur fer tókst að leiðrétta þennan niðurskurð svo að fullfjármagna megi að minnsta kosti þá samninga sem í gildi eru, en ætla má að lítið verði um fjölgun samninga á árinu. Það eru mikil vonbrigði, enda ættu að vera rúmlega 170 NPA samningar í gildi í lok árs 2022 samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, en ekki rúmlega 90 eins og nú er raunin.
Önnur verkefni tengt hagsmunabaráttu og/eða ráðgjöf við uppbyggingu NPA á Íslandi sem NPA miðstöðin hefur haft aðkomu að eru t.d. eftirfarandi:
- Samstarf við sveitarfélög þegar þau hafa hvert um sig verið að móta sínar reglur um NPA.
- Þátttaka í samráðsstarfi um lagasetningar og reglugerðir.
- Mæting fyrir velferðarnefnd Alþingis og samtöl við þingmenn.
- Aðstoða fólk við að sækja mál fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.
- Sending athugasemda til ráðuneytisins um framkvæmd NPA námskeiða.
Baráttunni er hvergi nærri lokið.
- Í dag eru fleiri undir 67 ára aldri inni á hjúkrunarheimilum heldur en með NPA samninga á Íslandi. Það gengur þvert á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt þjóðir eindregið til að vinna skipulega að afstofnanavæðingu.
- Íslenska ríkið borgar ekki það mótframlag til NPA samninga sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í dag eru um 90 einstaklingar með NPA á Íslandi en samkvæmt lögum ættu að lágmarki 150 einstaklingar að hafa NPA í dag og NPA notendur ættu að vera orðnir 172 talsins í lok þessa árs.
- Mörg sveitarfélög draga lappirnar við afgreiðslu NPA umsókna.
- Sum sveitarfélög greiða ekki nægilegt tímakaup til að hægt sé að greiða aðstoðarfólki laun samkvæmt kjarasamningum – og fleira mætti telja. NPA miðstöðin mun ganga harðar fram á árinu 2022 til að fá þau sveitarfélög sem ekki virða ákvæði laga, reglna og samninga hvað varðar framlög til launakostnaðar NPA aðstoðarfólks til að hækka sína taxta til samræmis við ákvæði kjarasamninga.
Nauðungarvist á hjúkrunarheimilum
Nokkuð hefur verið fjallað í fjölmiðlum um málefni fatlaðs fólks sem er yngra en 67 ára og er gert að búa á hjúkrunarheimilum. Einnig hefur verið rætt við fólk sem þurfti að leggjast inn á spítala en missti þjónustu í framhaldinu og var í raun nauðungarvistað á stofnunum. Loks var þó nokkuð fjallað um mál Erlings Smith í fjölmiðlum. Í lok mars 2021 féll dómur í máli hans á hendur Mosfellsbæ. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti afdráttarlaust að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er lögbundinn réttur fatlaðs fólks og að það á rétt á því að sveitarfélagið afgreiði umsókn þeirra skjótt og örugglega. Málinu var hins vegar áfrýjað til Landsréttar sem snéri dómnum við og nú hefur Erling áfrýjað til Hæstaréttar.
Nýir kjarasamningar og samskipti við Eflingu
NPA miðstöðin hefur frá árinu 2013 gert kjarasamning við Eflingu og tiltekin stéttarfélög innan starfsgreinasambandsins um störf NPA aðstoðarfólks. Síðast var samið um nýjan sérkjarasamning árið 2015 og samningurinn hafði ekki tekið miklum breytingum síðan þá, en aðeins hafði verið samið um sömu kauptaxtahækkanir og í almennum kjarasamningum.Undirbúningur fyrir gerð nýs kjarasamnings fyrir NPA aðstoðarfólk hafði í raun staðið yfir frá árinu 2019, en þá lét miðstöðin framkvæma skoðanakönnun á viðhorfi NPA aðstoðarfólks til kjara- og starfsumhverfis síns. Einkum var leitast við að kanna viðhorf starfsfólks sem vann hvíldarvaktir. Á árinu 2020 hófust svo formlegar viðræður við Eflingu um nýjan sérkjarasamning fyrir NPA aðstoðarfólk.
Sveitarfélög vildu ekki taka þátt í viðræðum
NPA miðstöðin taldi mikilvægt að fá sveitarfélög í ríkara mæli að viðræðunum við Eflingu, enda hafa sveitarfélög hagsmuna að gæta í þeim viðræðum þar sem framlög til NPA samninga eiga að taka mið af gildandi kjarasamningum NPA aðstoðarfólks hverju sinni. Í júní árið 2020 sendi NPA miðstöðin bréf til sveitarfélaga þar sem óskað var eftir aðkomu sveitarfélaga að viðræðunum. Sveitarfélög hafa hins vegar ekki viljað taka þátt í viðræðunum eða koma að gerð kjarasamningsins, amk. með beinum hætti.
Stytting vinnuviku
Viðræðum við Eflingu var slegið á frest fram á mitt ár 2021 og tóku þá við stífir samningafundir um helstu álitamál. Verkalýðsfélögin berjast nú fyrir innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem samið var um í lífskjarasamningunum og hafa sveitarfélög nú þegar samið um styttinguna ásamt fleiri stofnunum og félögum víðsvegar í atvinnulífinu. Það var því ljóst að semja þyrfti um útfærslu á styttingunni fyrir NPA aðstoðarfólk, bæði til að uppfylla þarfir verkalýðsfélaganna og einnig til að kjör NPA aðstoðarfólks væru samkeppnishæf við sambærileg störf hjá ríki og sveitarfélögum.
Nýr kjarasamningur hefur tekið gildi
Eftir nokkrar langar samningalotur, sem samanlagt telja yfir á þriðja tug klukkustunda, tókust samningar við Eflingu um nýjan kjarasamning og sérkjarasamning um hvíldarvaktir fyrir NPA aðstoðarfólk. Nýi kjarasamningurinn kveður m.a. á um meiri sveigjanleika hjá aðstoðarfólki og verkstjórnendum, taxtahækkun, fjölgun álagsþrepa og styttingu vinnuvikunnar um fjórar klukkustundir á viku. Þá eru gerðar skýrari kröfur til hvíldarvakta auk annarra breytinga.
Skrifað var undir nýjan kjarasamning stuttu fyrir jól milli NPA miðstöðvarinnar og Eflingar. Samningurinn hefur verið samþykktur af bæði félagsfólki og aðstoðarfólki og tók gildi frá og með 1. janúar síðastliðnum.
Skrifstofuhúsnæði NPA miðstöðvarinnar
NPA miðstöðin hefur hægt og rólega haldið áfram að innrétta nýtt húsnæði í Urðarhvarfi til að það þjóni þörfum starfseminnar sem best. C-19 hefur valdið töfum á því eins og öðru þar sem iðulega hafa verið tafir á afhendingu bæði efniviðar og húsgagna. NPA miðstöðin mun halda áfram að bæta og innrétta húsnæðið í áföngum.
Önnur verkefni
Auk þeirra verkefna sem hefur verið minnst á má nefna eftirfarandi:
- Unnið er að NPA handbók fyrir aðstoðarfólk og gefst vonandi meira svigrúm til að setja kraft í þá vinnu á þessu ári.
- Rafrænir ráðningarsamningar voru teknir í notkun á árinu.
- Tímon er á lokametrunum í opna betu sem er prufuútgáfa af kerfinu og verður vonandi tekinn til almennrar notkunar fljótlega á þessu ári.
- Einn skipulagsdagur stjórnar og starfsfólks skrifstofu var haldinn árið 2021 og ráðgjafar héldu einnig skipulagsdag til að skerpa á ýmsum þáttum í sínu starfi.
Vöxtur
Á innan við tíu árum hefur NPA miðstöðin vaxið frá því að rekja starfsemina í gegnum lítið pósthólf, að vera svo rekin í lítilli geymslu og síðan á nokkrum öðrum stöðum uns starfsemin var færð í núverandi húsnæði. Undanfarin tvö ár hafa einkennst af mikilli stækkun og NPA miðstöðin er enn að stækka og þróast. Í janúar 2018 voru félagsmenn 13 talsins og í upphafi þessa árs eru þeir 54. Svo örum vexti geta fylgt áskoranir og ný úrlausnarefni af ýmsum toga sem geta t.d. falist í rekstri mála fyrir félagsaðila gagnvart sveitarfélagi eða þörf skrifstofu fyrir ný tölvu- og skipulagskerfi og svo allt þar á milli. Undanfarin tvö ár hefur miðstöðin getað lagt meiri kraft í innra starf en áður sem hefur m.a. birst í ýmis konar stefnumótun og t.d. vinnu við siðasáttmála.
Frumkvöðlastarf
Í þessu samhengi er vert að nefna að NPA miðstöðin er frumkvöðull á sviði NPA á Íslandi. Það þýðir að mörg þeirra verkefna sem miðstöðin vinnur að, t.d. handbækur, siðasáttmáli, leiðbeiningar, verkferlar o.fl. hefur aldrei verið gert áður á Íslandi. Þótt hægt sé að sækja innblástur til nágrannaþjóða þarf ávallt að vinna allt efni út frá íslenskum veruleika og út frá áherslum NPA miðstöðvarinnar og iðulega þarf að taka afstöðu til atriða sem ekki hefur verið tekin afstaða til áður. NPA miðstöðin þarf því yfirleitt að móta áherslur og útfærsluleiðir frá grunni.
Starfsemi skrifstofunnar
Í dag er félagsfólk NPA miðstöðvarinnar 54 talsins og aðstoðarfólk um 245. Kjarninn í starfsemi NPA miðstöðvarinnar er að sjálfsögðu þjónusta við verkstjórnendur og aðstoðarfólk miðstöðvarinnar sem eru samtals hátt í 300 talsins. Sú þjónusta og umsýsla er það sem mestur tími starfsfólks á skrifstofu fer í.Ráðgjafar sinna fjölbreyttum störfum en það er mjög einstaklingsbundið hvað hver og einn verkstjórnandi eða aðstoðarmanneskja þarf ráðgjöf eða aðstoð við. Hlutverk ráðgjafa er að styðja og ráðleggja verkstjórnendum og aðstoðarfólk í hlutverki sínu til að stuðla að farsælli framkvæmd á NPA. Hægt er að fá samband við ráðgjafa í gegnum síma og tölvupóst eða óska eftir því að hitta ráðgjafa á skrifstofu miðstöðvarinnar. Eftirfarandi er meðal þess sem ráðgjafar leiðbeina við ef óskað er eftir en listinn er langt í frá tæmandi.
Ráðgjafar:
- Aðstoða við gerð atvinnuauglýsinga
- Aðstoða við undirbúning atvinnuviðtala
- Aðstoða við ráðningarferlið í heild. Við vekjum athygli á því að NPA miðstöðin býður upp á aðstöðu til þess að taka atvinnuviðtöl á skrifstofu miðstöðvarinnar, hvort sem er með eða án ráðgjafa miðstöðvarinnar.
- Veita upplýsingar t.d. um réttindi, hlutverk og ábyrgð verkstjórnanda og aðstoðarfólks í upphafi vinnusambandsins
- Veita upplýsingar um kjararéttindi til verkstjórnenda og aðstoðarfólks
- Halda utan um gerð starfssamninga
- Veita ráðgjöf vegna uppsagna
- Veita ráðgjöf vegna samskiptaörðugleika
- Eiga í samskiptum við sveitarfélög vegna mála NPA notenda
- Taka á móti og spjalla við mögulega félagsmenn og aðra áhugasama um NPA.
Bókarar sjá að mestu um fjármálaumsýslu vegna NPA.
Bókarar sjá t.d. um:
- Launavinnslu fyrir aðstoðarfólk notenda
- Rekstrarskýrslur og uppgjör vegna launa og samninga notenda
- Bókun á rekstrarkostnaði, afstemmingar og undirbúning reikninga félagsins fyrir endurskoðun
- Gera reikninga vegna launakostnaðar
- Sjá um greiðslur bæði til félagsins og notenda
- Að halda notandanum upplýstum varðandi stöðu hans
- Svara mörgum fyrirspurnum, t.d. um launamál, sjúkarvottorð, atvinnuleysisvottorð og starfstímavottorð
- Fylgjast með innborgunum sveitafélaganna og að þær stemmi.
Starfsfólk skrifstofu og stjórn
Við upphaf ársins 2022 starfa níu einstaklingar á skrifstofu NPA miðstöðvarinnar, auk tveggja sem eru í barneignaleyfi. Þau eru:
- Rúnar Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður
- Hjörtur Örn Eysteinsson, framkvæmdastjóri
- Silja Steinunnardóttir samskiptastýra
- Ester Sveinbjarnardóttir, launafulltrúi/bókari
- Regína Þorvaldsdóttir, launafulltrúi/bókari
- Andri Valgeirsson, ráðgjafi
- Erna Eiríksdóttir, ráðgjafi
- Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir, ráðgjafi
- Inga Dóra Glan, ráðgjafi
- Sigurdís Rós Jóhannsdóttir, launafulltrúi/bókari (í barneignaleyfi)
- Vigdís Th. Finnbogadóttir, ráðgjafi og fræðslustýra (í barneignaleyfi)
Stjórn NPA miðstöðvarinnar var síðast kosin á aðalfundi þann 16. júní 2020. Í aðalstjórn eru:
- Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður
- Hallgrímur Eymundsson, gjaldkeri
- Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, meðstjórnandi
- Jóna Elísabet Ottesen, meðstjórnandi
- Salóme Mist Kristjánsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn eru:
- Þorsteinn Sturla Gunnarsson, fyrsti varamaður
- Ágústa Arna Sigurdórsdóttir, annar varamaður
- Halldóra Bjarnadóttir, þriðji varamaður
Trúnaðarmaður aðstoðarfólks
Sigurður Egill Ólafsson aðstoðarmaður hjá NPA miðstöðinni var á síðasta ári kosinn trúnaðarmaður NPA aðstoðarfólks.
Fallnir félagar
NPA miðstöðin sá á eftir þremur félögum í upphafi 2021. Það voru þau Blær Ástríkur Stefán Ástráðsson, Jón Þór Ólafsson og Anna Guðrún Sigurðardóttir sem jafnframt hafði starfað sem ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni. NPA miðstöðin minnist þeirra með væntumþykju.
Á döfinni
- Lokahönd verður lögð á siðasáttmála og viðbragðsáætlun sem svo verður kynnt fyrir félagsfólki og aðstoðarfólki.
- NPA námskeið 4-6 í námskeiðsröð NPA miðstöðvarinnar verða haldin á vorönn og vonandi boðið upp á annars konar námskeið eða viðburði líka á næstu mánuðum. NPA grunnnámskeið verður aftur í boði næsta vetur og hefst með NPA námskeiði 1 um haustið. Stefnt er að því að bjóða námskeið á ensku líka en enn sem komið er, liggur ekki fyrir hvenær þau verða í boði.
- Áfram verður unnið að gerð handbókar fyrir aðstoðarfólk.
- Fyrstu skref hafa verið tekin til þess að uppfæra og bæta vefsíðu miðstöðvarinnar. Slíkt hefur staðið til lengi en ítrekað hefur þurft að setja önnur verkefni í forgang.
- Til stendur að þróa verklag vegna aðbúnaðs og hollustuhátta og uppfæra áhættumatið til að það verði markvissara. Líklega verður settur saman starfshópur til að yfirfara þessi mál.
- Þróun á tímaskráningarkerfinu Tímon heldur áfram og er vonandi á lokametrunum í undirbúniningi fyrir almenna notkun.
- Þróun Salesforce kerfisins verður áframhaldið og tengingu þess við DK bókhaldskerfið.
- Kosið verður til sveitarstjórna þann 14. maí næstkomandi og má telja líklegt að starf NPA miðstöðvarinnar muni litast af því í aðdraganda kosninga.
Við hlökkum til að takast á við verkefni ársins 2022 í samstarfi við félagsfólk og aðstoðarfólk miðstöðvarinnar og til að vinna að uppbyggingu NPA miðstöðvarinnar og farsælli framkvæmd á NPA á Íslandi.