Eitt það mikilvægasta í starfi NPA miðstöðvarinnar er jafningjaráðgjöf. Jafningjaráðgjöf er þegar fólk í sambærilegri stöðu hittist, veitir hvert öðru stuðning og deilir reynslu sinni.

Hjá NPA miðstöðinni starfa jafningjaráðgjafar sem veita fötluðu fólki og fjölskyldum þess ráðgjöf. Við vinnum samkvæmt hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og horfum þar með á vanda fatlaðs fólks sem vanda sem liggur utan við manneskjuna sjálfa. Það þýðir að við reynum að koma auga á hvað það er í umhverfinu sem þarf að breyta svo fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi. Við horfum ekki á skerðingu einstaklings sem orsök vandans.

Jafningjaráðgjöf getur bæði verið í gegnum hópafundi og einstaklingsráðgjöf.

Einstaklingsráðgjöfin beinist að því að aðstoða fatlað fólk við að skilgreina þjónustuþörf sína með sjálfsmati, veita stuðning á fundum hjá sveitarfélögum á meðan á umsóknarferli um NPA á sér stað og ef um endurmat á NPA samningi er að ræða. Jafnframt að veita ráðgjöf í tengslum við starfsmannahald aðstoðarfólks, hlutverk verkstjórnenda og í aðstæðum þar sem upp kemur ágreiningur eða óánægja í samskiptum verkstjórnanda og aðstoðarfólks.

Hópafundir fara fram reglulega hjá NPA miðstöðinni og hafa það markmið að skapa aðstæður fyrir fatlað fólk sem er að sækja um eða er með NPA til að hittast, miðla og deila reynslu sinni. Fundirnir fara fram með stýrðum umræðum þar sem skilgreint efni er til umfjöllunar hverju sinni.

Lögð er mikil áhersla á að:

  • jafningjaráðgjöf er ekki veitt á grundvelli fagmenntunar heldur persónulegrar reynslu af NPA
  • er ekki meðferðarúrræði heldur leið til valdeflingar
  • er ekki skylda heldur valfrjáls

Kolbrún Dögg

Jafningjaráðgjöf styrkir mig og annað fatlað fólk í baráttunni fyrir sjálfstæðu lífi og að finna að ég er ekki ein í baráttunni og uppgötva hvað við eigum sameignlegt. Því þrátt fyrir að við séum með ólíkar skerðingar, þá höfum við sameiginlega reynslu af mismunun og undirokun. Ég er svo þakklát fyrir hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Hún hefur breytt líðan minni og hugsunarhætti. Ég eflist með hverjum fundi og hef fengið stuðning við að taka mín fyrstu skref að vera með notendastýrða persónulega aðstoð. Jafningjaráðgjöf hefur nýst mér mjög vel við að undirbúa mig að vera vinnuveitandi og verkstjóri yfir mínu aðstoðarfólki.
Kolbrún Dögg