Einu sinni þótti okkur á Íslandi eðlilegt að konur væru eign þeirra karlmanna sem þér giftust. Okkur þótti sem þær væru fæddar til þess að annast fjölskyldu sína og eiginmenn. Okkur þótti eðlilegt að þær menntuðu sig ekki og hefðu enga rödd í kosningum. Konur voru álitnar annars flokks.

Einu sinni þótti okkur á Íslandi óeðlilegt og ógeðslegt að tvær manneskjur af sama kyni yrðu ástfangar af hvor annari. Okkur þótti það merki um sjúkleika og því óttuðumst við þetta undarlega fyrirbæri. Við kölluðum þessa einstaklinga kynvillinga og það þótti ekkert tiltökumál að reka mann úr vinnu gerðist hann sekur um kynvillu. Þessi hópur fólks var á einhvern hátt ekki álitinn jafn miklar manneskjur og annað fólk.

Í dag þykir okkur á Íslandi sorglegt þegar börn fæðast með skerðingar. Okkur finnst eðlilegt að fötluð börn hafi ekki aðgangi að sama lífi og önnur börn og þar af leiðandi höfum við fullt af sérúrræðum til þess að geyma aumingjans fötluðu börnin. Okkur þykir eðlilegt að fullorðið fatlað fólk þurfi að flytja í sérstakar íbúðir, jafnvel með ókunnugu fólki, til þess að fá þá þjónustu sem það á rétt á. Okkur þykir sjálfsagt að fullorðið fatlað fólk þurfi að bíða í 4 klukkutíma eftir því að komast á klósettið. Fatlað fólk á Íslandi í dag er álitið annars flokks.

Ég verð reglulega að minna mig á hversu mikið hefður náðst í baráttu kvenna og samkynhneigðra til þess að trúa því að eitthvað geti breyst. Í raun er barátta þessara þriggja hópa mjög lík. Þetta er allt saman barátta um virðingu fyrir mannlegri reisn!

Ég trúi því að einn daginn muni ég segja við börnin mín „Einu sinni voru til sér hús þar sem bara bjó fatlað fólk“ og að börnunum mínum muni finnast það eins fjarstæðukennt og mér finnst hugtakið kynvillingur.