Hlutverk aðstoðarverkstjórnanda
Sumt fólk þarf aðstoð við að sinna hlutverki verkstjórnanda. Þetta getur til dæmis átt við börn og unglinga undir 18 ára, sumt fólk með þroskahömlun, fólk með geðraskanir og fleiri.
Í slíkum tilvikum er mikilvægt að hafa aðstoðarverkstjórnanda. Aðstoðarverkstjórnandi er ekki yfirmaður aðstoðarfólksins. Aðstoðarverkstjórnandinn styður fötluðu manneskjuna við verkstjórnandahlutverkið.
Hlutverk aðstoðarverkstjórnanda er að styðja fötluðu manneskjuna við að halda utan um NPA og tryggja að aðstoðarfólkið starfi alltaf á forsendum hennar.
Aðstoðarverkstjórnandi er valinn af fötluðu fólki, stundum með stuðningi frá aðstandendum. Aðstoðarverkstjórnandi getur verið foreldri, systkini, vinur, annar aðstandandi eða aðstoðarmanneskja. Nauðsynlegt er að aðstoðarverkstjórnandi þekki fötluðu manneskjuna náið, geti átt samskipti við hana og beri hagsmuni hennar fyrir brjósti.
Aðstoðarverkstjórnanda ber að tryggja stöðugleika og öryggi aðstoðarinnar þar sem hún getur verið lífsspursmál fyrir fötluðu manneskjuna.
Ég er verkstjórnandi aðstoðarfólksins míns og fæ stuðning við það frá aðstoðarverkstjórnanda. Hann aðstoðar mig við að skipuleggja dagana mína svo ég nái að gera allt sem ég þarf að gera og það sem mig langar til. Aðstoðarverkstjórnandinn hjálpar mér við að halda utan um allt sem viðkemur aðstoðarfólkinu, t.d. við ráðningar, að leiðbeina aðstoðarfólkinu í starfi, að finna afleysingu ef upp koma veikindi, að skipuleggja vaktaplanið, undirbúa og halda starfsmannafundi og að sjá um launamál og bókhald. Mér finnst mikilvægt að aðstoðarverkstjórnandinn viti að markmiðið með NPA er að ég geti lifað sjálfstæðu lífi og að það sé ég sem stjórna ferðinni.Gísli